Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Amma Elín
Föstudagur 9. júní 2023 kl. 06:11

Amma Elín

Í tilefni nýliðins sjómannadags vil ég byrja þennan pistil á að óska öllum sjómönnum landsins innilega til hamingju með daginn. Á sjómannadaginn varð mér nefnilega hugsað til langömmu minnar, Elínar Ólafsdóttur frá Gerðakoti á Miðnesi. Ég hitti hana því miður aldrei þar sem hún lést rúmum tveimur áratugum áður en ég fæddist, en því meira sem ég les og heyri um þessa miklu sómakonu því stoltari er ég af því að bera Elínarnafnið hennar.

Amma Elín var nefnilega ótrúlegur töffari. Hún bjó með Árna afa mínum að Gerðakoti á Miðnesi, sem var kannski pínulítið kot en sannarlega stórt heimili. Þau eignuðust 6 dætur og fyrir átti Árni eina dóttur – þetta voru Gerðakotssysturnar. Árni var formaður á sexæringi og gerði út frá Gerðakoti. Veturinn 1908 fórst báturinn með allri áhöfn í innsiglingunni við Gerðakot og amma Elín sá þetta allt gerast þar sem hún stóð í fjörunni með yngstu dóttur sinni - orðin ekkja 47 ára gömul, með Gerðakotssysturnar sjö á aldrinum 2-14 ára. Og eins og sannir töffarar gera hélt hún áfram búskap með dætrunum, tók þar að auki að sér umkomulausa 40 vikna frænku og voru dæturnar þá orðnar átta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En af hverju skildi ég hafa hugsað sérstaklega til ömmu Elínar á sjómannadaginn? Það er vegna þess að eftir andlát afa míns gerði hún sér lítið fyrir og tók að sér formennsku á bátnum og gerði áfram út frá Gerðakoti um nokkra hríð. Hún hafði róið í tvær vertíðir með bróður sínum og kunni því til verka. Í grein í Faxa árið 1961 í tilefni þess að 120 ár voru liðin frá fæðingu hennar var þessi lýsing: „…eitt sinn vantaði Sigurð bróður hennar mann í skiprúm hjá sér og stakk hann upp á því við Elínu að hún reri með sér nokkra róðra til reynslu, og lét hún til leiðast að reyna þetta og féll það vel, því hvorki var hún sjóveik né sjóhrædd, sæmilega fiskin og gaf karlmönnunum lítt eftir í róðri þegar hún var sest undir árina.“

Þessi amma kallaði svo sannarlega ekki allt ömmu sína og í stuttum pistli sem þessum er engin leið að gera því öllu skil. Bókin „Amma Elín“ er enn óskrifuð en hana þarf að skrifa. Það er saga um stórkostlega fyrirmynd sem lét ekkert stoppa sig og gafst aldrei upp. Við andlát föður míns fann ég bréf frá henni til hans þegar hann var unglingur og sá þar mjúku og kærleiksríku hliðina á töffaranum. Það er því við að bæta að hún kom öllum dætrunum átta til manns og hreint ótrúlegt að sjá hversu vel þeim vegnaði öllum.

Ég ítreka kveðjur mína til sjómanna og senda eina sérstaklega hlýja í nafni ömmu Elínar – blessuð sé minning hennar.