Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Aldurs­komplexar
Föstudagur 25. mars 2022 kl. 08:00

Aldurs­komplexar

Fyrr í þessum mánuði fagnaði ég hálfrar aldar afmælisdegi. Ég var svo sem búin að ganga með þann hnút í maganum í yfir ár að nú færi dagurinn að nálgast með öllum þeim kostum og göllum sem ég gat gert mér í hugarlund. Hafði t.d. fagnað rækilega með öllum mínum æskuvinkonum sem náðu sama áfanga á síðasta ári. Aldrei hefði mig þó grunað hversu mikla gleði dagurinn átti eftir að veita mér og þeim tímamótum sem mér finnst ég vera á akkúrat í dag. Fyrir ykkur sem lesið hafa pistlana mína (kannski enginn) vil ég viðurkenna að eftir því sem árin líða verð ég væmnari og þakklátari útgáfa af sjálfri mér. Lífið hefur gefið mér svo margt, bæði gott og slæmt. Þannig að fyrirfram vil ég biðjast afsökunar á því ef ykkur finnst ég vera of persónuleg. Ég kýs að nota þennan vettvang til þess að ræða frekar eitthvað sem mig langar að deila úr mínu lífi í stað þess að fara í pólitískar skotgrafir, þó það hafi nú alveg gerst. En allar ábendingar vel þegnar. Því hvað veit ég svo sem?

En aftur að afmælisdeginum. Við maðurinn minn erum jafngömul þó hann tali nú alltaf um að hann sé yngri en ég, á afmæli seinna á árinu. Við vorum búin að ákveða að halda sameiginlega afmælisveislu og ættmóðirin, mamma mín sem er karlaholl með eindæmum og á það til að vera frekar í hans liði en mínu, var búin að ákveða að dagurinn yrði að vera mitt á milli afmæla okkar. Þannig að búið var að ákveða að maí væri tilvalinn í verkefnið. Við vorum því búin að stilla upp plani (eins og excel-nördarnir í okkur báðum gera við svona tilefni), tala við vini varðandi veislustjórn og ákveða skemmtiatriði. Meira að segja svo langt komin að bóka þau í gegnum góðan vin sem á sambönd í bransanum. Tilhlökkunin var mikil og við ætluðum nú aldeilis að njóta þess með okkar bestu. Eftir að ég fagnaði mínum áfanga þá fannst mér hins vegar momentið mitt vera búið. Þar sem ég átti svo dásamlegan tíma með mínu nánasta fólki á afmælisdeginum fannst mér sérdeilis ekki ástæða til að endurupplifa daginn. Því var ákveðið að hætta við stóra sameiginlega daginn. Á reyndar eftir að ræða það við ættmóðurina sem leikur sér í þessum töluðu í golfi á Spáni. En þá veit hún það núna. Á afmælisdegi mannsins míns mun það svo bara koma í ljós hvað hann vill gera. Kannski verður partý. Kannski förum við bara í fjölskyldufrí. Hver veit?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mögulega finnst einhverjum ykkar sem náð hafa þessum áfanga þetta óttalegt væl og sjálfsmiðun. Ég vil þá beina orðum mínum sérstaklega að ykkur sem eigið eftir að upplifa þetta og jafnvel mínum gömlu skólafélögum í Keflavík. Þessum tímamótum að verða fimmtugur er sko engin ástæða til að kvíða. Ég er ekkert eldri í hausnum en ég var fyrir ári eða tíu árum ef því er að skipta. Svo er ég líka svo einstaklega heppin hvað ég er mikill „late bloomer“ ef ég er þá „bloomer“ á annað borð. Það er kannski meira því að þakka hversu falleg og heilbrigð móðurfjölskyldan mín er. Þar er jú hreysti og langlífi svo ég tali nú ekki um allar fegurðardrottningarnar sem fæðst hafa í móðurlegginn. Frænkur þið vitið hverjar þið eruð! Ég er þó aðallega heppin að ná að fagna þessum áfanga.

Inga Birna Ragnarsdóttir