Áhugaverð sameining
Einhver áhugaverðasta hugmynd í sameiningarmálum sveitarfélaganna var lögð fram af fyrrverandi bæjarstjóra Reykjanesbæjar Árna Sigfússyni fyrir nokkru. Hugmyndin snerist um að sameina Reykjanesbæ, Voga og Hafnarfjörð. Sitt má hverjum sýnast um hugmyndina en Árni má eiga það að slík hugmynd sýnir mikla framsýni. Viðlíka framsýni og hann sýndi í störfum sínum sem bæjarstjóri. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur varla skipulagt eina einustu íbúðarlóð síðan Árni fór úr embætti bæjarstjóra. Við framsýnikeflinu hefur nú tekið bæjarstjórinn í Ölfusi. Hann býður landsmönnum uppá þjóðarleikvang í landi Ölfuss. Lóðamálin ættu að vera einföld, því ríkið er eigandi landsins í Ölfusi sem best væri að byggja á.
Slíka framsýni og hugmyndaauðgi vantar sárlega á Suðurnesin. Smákóngabragurinn ræður ríkjum í sveitarstjórnarmálum og engin sameiginleg lína milli sveitarfélaga sem fyrir löngu ætti að vera búið að sameina.
Innan fárra ára verður Reykjanesbær hverfi í Hafnarfirði. Báðir alþjóðaflugvellirnir verða þar líka.
Getur verið að mun líklegra sé að hugmynd Árna verði að veruleika, heldur en að Suðurnesjabær, Vogar og Grindavík myndu sameinast Reykjanesbæ.
Framtíðin mun leiða það í ljós.
Margeir Vilhjálmsson.