Aflafréttir: Vetrarvertíðin hafin
Þá er vetrarvertíðin 2021 hafin og þó nokkur fjöldi af bátum hefur verið við veiðar utan við Sandgerði og líka nokkrir utan við Grindavík.
Stóru línubátarnir í Grindavík hafa verið að koma til Grindavíkur með afla og er það ánægjulegt að vita að bátarnir landi í sinni heimahöfn. Páll Jónsson GK kom t.d. með 130 tonn í land til Grindavíkur sem fékkst í fjórar lagnir. Það eru um 168 þúsund krókar og ef það er reiknað niður í bala. Þann mælikvarða nota ég við alla línubáta til þess að sjá samanburð á milli báta en margir eru að veiða með balalínu og best að reikna alla í bala.
Miðað við 420 króka í bala þá eru þetta 400 balar og það gerir 325 kíló á bala, og það er nú ansi góð veiði. Páll Jónsson GK var við veiðar fyrir vestan. Hrafn GK kom til Grindavíkur með 33 tonn en hann var við veiðar utan við Grindavík.
Trollbátarnir hafa ekki landað í heimahöfn, Sturla GK og Pálína Þórunn GK komu báðir með um 38 tonn til Ísafjarðar, og í næsta túr þá kom Pálína Þórunn GK til Sandgerðis með afla.
Langanes GK og Grímsnes GK eru áfram á ufsaveiðum við Suðurströndina og hefur Grímsnes GK landað 9,7 tonnum í einni löndun og Langanes GK 33 tonn í tveimur, þar af 18,4 tonnum í einni.
Nokkuð margir netabátar eru á veiðum frá Sandgerði en þeir eru núna sjö bátarnir og á eftir að bætast í þann hóp. Erling KE er kominn með 39 tonn í sex og mest 10,3 tonn, Maron GK 12,9 tonn í fjórum, Halldór Afi GK 4,1 tonn í tveimur og Sunna Líf GK 3,1 tonn í einni. Hinir bátarnir eru Hraunsvík GK sem byrjaði í Grindavík og kom þangað með 636 kíló í einni löndun, síðan færði báturinn sig til Sandgerðis, Guðrún GK sem kom með 3,5 tonn í einni löndun í fjórar trossur og Birna GK sem var í sinum fyrsta róðri á netum, kom báturinn með eitt tonn í þrjár trossur.
Sá bátur er með nokkuð merkilega sögu og þá aðallega út af nafninu sem var á bátnum, því báturinn hét áður Íslandsbersi HF og var með því nafni í um 24 ár.
Íslandsbersi á nefnilega tengingu við Keflavíkurhöfn en hvaðan kemur þetta nafn Íslandsbersi? Jú, Íslandsbersi var viðurnefni sem að Óskar Halldórsson hafði á sínum tíma. Óskar Halldórsson var útgerðarmaður og mikill framkvæmdamaður.
Óskar fæddist árið 1893 og dó árið 1953. Hann kom til Siglufjarðar árið 1917 og hóf þar að bræða síld, byrjaði síðan árið 1919 að salta síld í miklu magni á Siglufirði. Hann var einn aðalhvatamaðurinn af því að stofna Síldarverksmiðjur Ríkisins en þær verksmiðjur voru með bræðslur víða um landið, t.d á Siglufirði, Reyðarfirði og Raufarhöfn.
Óskar var mjög stórhuga og gerði sér lítið fyrir og keypti fjórtán risastór steinker sem höfðu verið notuð við innrásina í Normandí í júní árið 1944.
Höfnin í Keflavík var eitt af þeim verkefnum sem Óskar tók sér fyrir hendur en hann lét gera hafskipahöfn við Vatnsnes árið 1934 og hluti af þessum kerjum sem hann keypti í Normandi árið 1944 enduðu sem bryggja í Keflavík. Lengsti bryggjuhlutinn af Keflavíkurhöfn er t.d. gerður að nokkur leyti úr þessum risakerjum sem Óskar keypti.
Fleiri tengingar má finna við þetta nafn, t.d. var bátur gerður út frá Reykjavík í 33 ár og hét sá bátur Óskar Halldórsson RE 157. Þessi sami bátur endaði sögu sína í Sandgerði því að á árunum 2006 til 2009 réri báturinn frá Sandgerði og hét þá Óskar RE 157. Skipstjóri á honum þá var hinn mikli aflaskipstjóri Sævar Ólafsson frá Sandgerði og má nefna að vertíðina 2008 landaði báturinn 638 tonnum í 23 róðrum.
Þannig að, já, þessi bátur Birna GK á sér ansi merkilega sögu og með þessum pistli fylgir með myndband sem tekið var fyrir nokkrum dögum síðan og sést meðal annars Birna GK koma til lands í Sandgerði bara nokkrum metrum á eftir öðrum netabáti.
Gísli Reynisson
aflafrettir.is