Aflafréttir: Versta byrjun á vetrarvertíð í manna minnum
Jæja, það má segja að það sé ekkert í fréttum því það þarf að fara mjög mörg ár aftur í tímann til þess að finna jafn hroðalega byrjun á vetrarvertíð eins og núna árið 2020.
Þegar þetta er skrifað er janúarmánuður um það bil að verða hálfnaður og bátar hafa lítið sem ekkert komist á sjóinn, margir bátar hafa ekkert komist á sjóinn síðan fyrir áramótin.
Ef við kíkjum á hafnirnar þá er aðeins búið að landa 64 tonnum í Grindavík frá áramótum og það aðeins af fimm bátum. Minnsti báturinn sem reyndi að fara á sjóinn var Gísli Súrsson GK sem náði að kroppa upp 1,9 tonn. Í Sandgerði er ennþá verri staða, þar hefur aðeins 22 tonnum verið landað af fimm bátum. Allt eru þetta stórir bátar eins og Grímsnes GK, Erling KE, Benni Sæm GK og Sigurfari GK. Minnsti báturinn að landa þar var Óli á Stað GK sem náði að kroppa upp 2,9 tonnum.
Í Keflavík og Njarðvík er búið að landa samtals 30 tonnum og er það aðeins af þremur bátum; Grímsnesi GK, Erlingi KE og Sturlu GK.
Skoðum eitt ár aftur í tímann til þess að fá samanburð:
Þá var á sama tíma búið að landa nítján tonnum í Keflavík.
Í Sanderði á sama tíma var búið að landa um 370 tonnum í 77 róðrum og margir minni bátanna gátu þá róið. Þetta er rosalega mikil munur. Árið 2019 370 tonn og árið 2020 aðeins 22 tonn.
Í Grindavík á sama tíma árið 2019 var búið að landa 436 tonnum og er það líka gríðarlega mikill munur. Árið 2019 436 tonn og árið 2020 aðeins 64 tonn.
Ef við förum aðeins lengra aftur í tímann og förum til ársins 2000 þá er þetta ennþá meiri munur:
Grindavík árið 2020 64 tonn, árið 2019 436 tonn og árið 2000 var landaður afli á sama tíma 910 tonn. Auk þess var 2600 tonnum af loðnu landað í Grindavík.
Ef við skoðum Sandgerði árið 2000 er þetta ennþá meiri munur:
Árið 2020 landað 22 tonnum, árið 2019 landað 370 tonnum en árið 2000 voru hvorki meira né minna enn 1.214 tonnum landað á nákvæmlega sama tíma, auk þess var 550 tonnum af loðnu landað. Þetta er ótrúlega mikill munur.
Þetta er líka mikill munur þegar horft er á Keflavík og Njarðvík:
Árið 2020 landað 30 tonnum, árið 2019 landað nítján tonn en árið 2000 var landaður afli um 515 tonn.
Eins og sést á þessum tölum þá er byrjunin á árinu 2020 ein sú allra versta á þessari öld og ef ekki sú allra versta í sögu allrar útgerðar á Suðurnesjum eins langt aftur og menn rekur minni til.
Þegar þessi orð eru skrifuð er alls óvíst hvenær bátarnir komast eiginlega á sjó aftur en ef ég rýni aðeins í veðrið framundan myndi ég giska á 16. janúar, ætti flotinn að komast á sjó og það yrði þá í fyrsta skipti á árinu 2020 fyrir marga.