Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Aflafréttir: Þrír línubátar frá Grindavík veiddu yfir 500 tonn í febrúar
Valdimar GK var með 503 tonn í sex róðrum.
Föstudagur 5. mars 2021 kl. 07:48

Aflafréttir: Þrír línubátar frá Grindavík veiddu yfir 500 tonn í febrúar

Stysti mánuður ársins búinn og mars er framundan, einn af stóru aflamánuðunum. Aflabrögð hafa alltaf verið góð í mars og í gegnum tíðina má oft finna ævintýralegar aflatölur frá bátunum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig marsmánuðurinn verður en alla vega gagnvart handfærabátunum lofar hann góðu því í febrúar fjölgaði handfærabátunum mjög mikið. Þeir voru ansi margir á veiðum utan við Sandgerði og var veiði hjá bátunum mjög góð, t.d. var Huld SH með 9,1 tonn í fimm og mest 2,7 tonn, Fiskines KE 7,7 tonn í fimm, Fagravík GK 5,4 tonn í fjórum, Guðrún GK 3,4 tonn í tveimur og voru þessi handfærabátar að landa í Sandgerði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í Grindavík voru t.d. Sigurvon RE með 6,1 tonn í sjö, Grindjáni GK 3,6 tonn í sex, Hrappur GK og Þórdís GK báðir með um 3,3 tonn í fjórum róðrum hvor bátur.

Netaveiðin í febrúar var mjög góð. Lítum á nokkra báta. Bergvík GK með 41 tonn í tólf, Erling KE 304 tonn í nítján og mest 30 tonn, Grímsnes GK 237 tonn í 22 og mest 24 tonn, Maron GK 167 tonn í tuttugu, Langanes GK 161 tonn í 21, Þorsteinn ÞH 122 tonn í þrettán, Halldór Afi GK 70 tonn í sautján og Hraunsvík GK 58 tonn í tólf.

Þess má geta að allir netabátarnir lönduðu í Sandgerði og fiskurinn af þeim skiptist á tvo staði. Erling KE og Bergvík GK voru hjá Saltveri en allir hinir bátarnir voru hjá Hólmgrími og samtals var aflinn hjá honum 815 tonn í febrúar.

Hjá dragnótabátunum kom Benni Sæm GK til veiða en hann er kominn í nýja útlitið, hann var með um 90 tonn í sex og mest 21 tonn, Sigurfari GK var með 135 tonn í fjórtán, Siggi Bjarna GK 120 tonn í fjórtán og Aðalbjörg RE 58 tonn í fimm.

Stóru línubátarnir voru svo til allir á veiðum djúpt út frá Grindavík og út af Sandgerði og inn í Faxaflóa. Má segja að þeir hafi allir landað í heimahöfn sinni, Grindavík, sem er mjög gott mál. Veiðin hjá þeim var feikilega góð og voru þrír línubátar frá Grindavík sem veiddu yfir 500 tonn í febrúar. Sighvatur GK var með 577 tonn í fjórum, Jóhanna Gísladóttir GK 520 tonn í fjórum og Valdimar GK 503 tonn í sex. Þess má geta að þetta er mesti afli sem að Valdimar GK hefur náð á einum mánuði. Páll Jónsson GK var með 485 tonn í fjórum og Hrafn GK 475 tonn í sjö.

Af minni línubátunum var Kristján HF með 182 tonn í sautján, Auður Vésteins SU 170 tonn í átján, Gísli Súrsson GK 162 tonn í sautján, Óli á Stað GK 154 tonn í tuttugu, Vésteinn GK 141 tonn í sextán, allir að landa bæði í Grindavík og Sandgerði.

Margrét GK var með 134 tonn í 22, Dóri GK 126 tonn í nítján, Daðey GK 103 tonn í fjórtán, Geirfugl GK 74 tonn í þrettán, Hópsnes GK 57 tonn í þrettán en hann er balabátur og er beitt á bátinn í Sandgerði, Beta GK 80 tonn í fimmtán, Steinunn BA 78 tonn í fjórtán, Gulltoppur GK 34 tonn í sjö en hann er líka balabátur og líka beitt á hann í Sandgerði. Gjafar GK var með tíu tonn í fjórum og það má geta þess að pistlahöfundur var að beita aðeins á þann bát í febrúar. Fyrsta skipti sem ég beiti bala í níu ár.

Valdimar GK var með 503 tonn í sex róðrum.