Aflafréttir: Skrúfan datt af og báturinn varð stjórnlaus
Og ennþá er þessi blessaða covid-veira í gangi, biðraðir við búðir út um allt út af tíu manna samkomutakmarkinu. Þetta hefur þó enginn áhrif á sjávarútveginn, í það minnsta hérna á Suðurnesjum.
Mikil fjölgun á bátum hefur verið á aðeins einni viku frá því að síðasti pistill var skrifaður því bátar komu bæði að austan og að norðan. Þeir bátar sem komu suður voru Óli á Stað GK og byrjaði hann vel fyrir sunnan með tæplega átta tonna löndun, Geirfugl GK kom líka en þeir eru báðir í eigu Stakkavíkur og voru báðir að róa frá Siglufirði. Ekki voru komnar inn aflatölur fyrir Geirfugl GK þegar þessi pistill var skrifaður.
Frá Austurlandinu komu þrír bátar og voru allir þessir bátar í samfloti að austan, þeir voru Dóri GK, Margrét GK og Daðey GK. Dóri GK og Margrét GK komu frá Neskaupstað en Daðey GK kom frá Breiðdalsvík.
Eins og greint hefur verið frá hérna þá eru línumiðin út af Sandgerði ein af þeim elstu á landinu en saga línuveiða út frá Sandgerði er orðin yfir 100 ára gömul og kemur það því ekki á óvart enn allir bátarnir sem hafa komið hafa allir verið að róa frá Sandgerði.
Veiðin hjá bátunum er bara býsna góð og sumir bátanna byrja bara strax, t.d. Steinunn HF en báturinn var fyrstur til að koma frá Austurlandinu og eftir um 36 klukkutíma siglingu fór báturinn til Sandgerðis, tók olíu, beitu, og beint út aftur og lagði línuna. Aldeilis harka þar. Báturinn hefur landað sjö tonnum í tveimur róðrum.
Strákarnir bæði á Dóra GK og Margréti GK gerðu þetta líka en áhöfnin á Margréti GK kom við í Grindavík, tók þar beitu og fóru beint út af Stafnesi og lagði línuna þar. Aflatölur voru ekki komnar inn þegar þetta er skrifað.
Einn bátur vekur nokkra athygli umfram aðra en það er Katrín GK. Skipstjórinn þar kallast Klemmi og hann á sér nokkra ansi góða staði en hann hefur, öfugt við hina bátana, farið út seint á kvöldin, verið að veiðum yfir nóttina og komið í land um hádegisbilið, langt á undan hinum bátunum. Sömuleiðis hefur Klemmi verið við veiðar inn í Faxaflóanum og hefur verið einn að veiðum þar, báturinn er á bölum og hefur verið að fá um fimm til sex tonn í róðri.
Síðan er það Sævík GK, báturinn kom að norðan og fór beint á veiðar út af Stafnesi og í einum róðrinum þá datt skrúfan af bátnum og báturinn varð stjórnlaus, var kallað eftir aðstoð. Svo heppilega vildi til að Jónas Sigurður Kristinsson, skipstjóri á Birnu GK, var á leið í sinn fyrsta róður og hann tók kallinu, fór að Sævík GK og tók bátinn í tog til Njarðvíkur. Þar var báturinn tekinn í tog og honum hent upp í slipp og skipt um skrúfu – og má geta þess að Sævík GK var með um tólf tonn í línuna sem þeir lögðu og í næsta túr þá voru þeir með fjórtán tonn.
Með þessum pistli fylgir með drónamyndband sem var tekið þegar að bátarnir voru að koma til Njarðvíkur.
Aðeins meira varðandi þetta því að Kristinn, eða Kiddi, sem er faðir Jónasar skipstjóra á Birnu GK þekkir mjög vel til björgunarstarfa því að hann og t.d. faðir minn, Reynir Sveinsson, voru í mörg ár saman í björgunarsveitinni Sigurvon í Sandgerði.
Endum þetta á stóru netabátunum. Núna eru þrír bátar frá Suðurnesjum á ufsaveiðum við Suðurlandið því að Erling KE hefur bæst í þann hóp. Hann byrjaði reyndar á Selvogsbanka og landaði þá í Grindavík, veiðin þar byrjaði vel en minnkaði síðan og hann færði sig þá austar.
Grímsnes GK er kominn með 107 tonn í fimm, Langanes GK 78 tonn í fimm og Erling KE 72 tonn í fjórum.
Gísli Reynisson // [email protected]