Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Aflafréttir: Rólegt í höfnum og veðurguðirnir í óstuði
Laugardagur 20. júní 2020 kl. 10:20

Aflafréttir: Rólegt í höfnum og veðurguðirnir í óstuði

Það er búið að vera nokkuð rólegt í höfnunum á Suðurnesjum í júní og ekki hefur þessi blessaða veðrátta hjálpað til. Búið að vera frekar leiðinlega hvasst og það kemur sér illa fyrir smábátana sem eru svo til þeir einu sem eru að róa héðan um þessar mundir.

Í síðasta pistli var greint frá því að Steinunn HF væri eini línubátur af minni gerðinni sem væri að róa en það er hann ekki lengur því báturinn er komin austur til Stöðarfjarðar. Veiðin þar aftur á móti er búinn að vera mjög léleg og sem dæmi þá hefur Steinunn HF aðeins landað um tólf tonnum í fimm róðrum og mest aðeins um 3,5 tonn. Aflinn hjá hinum Suðurnesjabátunum er heldur ekkert búinn að vera neitt sérstakur þarna fyrir austan. Margrét GK byrjaði ágætlega, komst mest í fjórtán tonn í einni löndun en hefur í síðustu þremur róðrum aðeins landað tólf tonnum.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Af stærri línubátunum eru það bara bátarnir frá Vísi í Grindavík sem róa og hefur aflinn hjá þeim verið frekar lítill. Jóhanna Gísladóttir GK með 98 tonn í tveimur róðrum. Sighvatur GK 79 tonn í einum og Fjölnir GK 74 tonn, líka í einum róðri.

Aðalbjörg RE er eini dragnótabáturinn sem er að róa héðan og hefur honum reyndar gengið nokkuð vel. Er hann að róa á hefbundnu dragnótamiðunum undir Hafnarbergi sem kallast Hafnarleir og hefur landað 43 tonnum í sjö róðrum. Aðalbjörg RE er helst að eltast við kolann og hefur það gengið mjög vel því af þessum afla þá eru 23 tonn af sólkola sem báturinn hefur landað en mjög lítið af þorski hefur slæðst með í aflanum hjá bátnum. Ekki nóg með að Aðalbjörg RE sé eini dragnótabáturinn sem er að róa héðan heldur er hann líka sá eini sem er á þessum miðum að veiða, oft eru bátar frá Þorlákshöfn á þessum slóðum en ekki núna og því situr Aðalbjörg RE ein að þessum miðum.

Nesfisks-dragnótabátarnir hafa verið að veiðum með suðurströndinni og hafa þá landað í Þorlákshöfn. Þeir fiska í sig og eru því úti í nokkra daga þangað til þeir ná fullfermi. Sigurfari GK hefur landað 76 tonn í tveimur og þar af 43 tonn í einni löndun. Siggi Bjarna GK 50 tonn í tveimur róðrum, mest 33 tonn, og Benni Sæm GK 61 tonn í einni löndun. 

Sem sé rólegheit og margir bátanna orðnir stopp, komnir í slipp eða eru að landa úti á landi.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is