Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Aflafréttir: Mikil óánægja með grásleppustopp
Föstudagur 8. maí 2020 kl. 15:13

Aflafréttir: Mikil óánægja með grásleppustopp

Og þá er kominn maí, tíminn líður áfram og ekkert fær hann stöðvað. Margir smábátasjómenn gleðjast yfir þessum tíma því þá hefst strandveiðitímabilið. Reyndar eru veðurguðirnir ekkert á því að taka þátt í þessari gleði því 4. maí, þegar tímabilið mátti hefjast, var haugabræla fyrir minni bátanna og þeir komust ekkert á sjóinn. 

Það var nú kannski ekki það eina sem hrellti smábátasjómenn því Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, skrifaði undir reglugerð þess efnis að grásleppuveiðar yrðu bannaðar frá og með 4. maí síðastliðnum. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hafrannsóknarstofnunin gaf það út að hámarkskvóti á þessari vertíð ætti að vera um 4.646 tonn. Bátar frá norður- og norðausturlandi byrjuðu fyrstir á þessum veiðum og var mokveiði allan þann tíma. Kannski einum of mikil veiði því að loksins þegar að bátarnir frá Suðurnesjum náðu að komast af stað þá var svo mikið búið af kvótanum að setja varð bann á veiðarnar.

Reyndar má segja að Hafró hafi vanmetið stærð grásleppustofnsins og líka það að þeir breyttu reiknireglu sinni. Viðmiðunargildi ráðgjafareglu var áður 0,75 en var lækkað niður í 0,67 og þessi munur er um 550 tonn, sem þýðir að hefði gildið verið 0,75 þá hefði kvótinn verið um 550 tonnum meiri. 

Það voru ekki margir bátar komnir á grásleppuveiðar frá Suðurnesjum, pistlahöfundur veit að t.d. útgerðareigandi Guðrúnar GK ætlaði að róa á báðum bátunum sínum í allt sumar en hann á tvo báta sem báðir heita Guðrún GK. Vegna þess að núna er komið bann þá er það plan allt farið í vaskinn. Þar sem ég er eigandi af Aflafrettir.is þá leitaði ég álits nokkura útgerðarmanna við þessu banni.

Einn þeirra gerir út grásleppubát frá Sandgerði og þetta hafði hann að segja um málið: 

„Þetta sýnir okkur bara hvað Hafró veit lítið um hvað er í sjónum. Það er miklu meira af grásleppu núna í kringum landið en undanfarin ár og það mætti alveg tengja það við engar veiðar á loðnu með flottrolli. Það er auðsjáanlega að hafa mikil áhrif til betri vegar. Það hefði gert það að fleiri hefðu fengið að veiða og það hefðu verið færri dagar á hvern bát. Svo erum við erum að sjá ljósa, nýgengna og mjög stóra grásleppu og talsvert af rauðmaga núna síðustu daga sem þýðir að það er að koma ganga úr hafinu.“ 

Já, þetta eru ekki góðar fréttir því grásleppusjómenn frá Suðurnesjum voru margir svo til rétt svo byrjaðir en vera mátti 44 daga á veiðum. 

Þeir bátar sem hafa landað grásleppu á Suðurnesjunum eru:

Tryllir GK með 27,2 tonn í 17 róðrum. 

Garpur RE 27,7 tonn í 11 róðrum báðir í Grindavík. 

Guðrún GK 21,5 tonn í 11 róðrum. 

Addi Afi GK 17,1 tonn í 10. 

Guðrún Petrína GK 12,3 tonn í 7 (nýbyrjuð á veiðum.)

Svala Dís KE 7,5 tonn í 5 róðrum (nýbyrjuð á veiðum.)

Alli GK 8,9 tonn í 6 landað í Keflavík.

Að ofan er minnst á Adda Afa GK en sá bátur á sér ansi langa sögu á Suðurnesjum. Báturinn er smíðaður í Trefjum í Hafnarfirði og er af gerðinni Cleopatra sem er mjög þekkt merki frá Trefjum. Addi Afi GK er með elstu slíkum bátum hér á landi og hefur verið viðloðandi Suðurnes síðan árið 1998, þó aðallega í Sandgerði og Grindavík. Á þessum 22 árum hefur báturinn samt aðeins heitið fimm nöfnum; var Siggi Bjarna GK 104 í þrjú ár, Gísli Einars GK 104 í fjögur ár, Óli Gísla GK 112 í rúmt eitt ár, Bergvík KE og GK í tvö ár og síðan Addi Afi GK síðan árið 2009 eða í ellefu ár. 

Stutt myndband er einmitt með og er það með Adda Afa GK að koma til hafnar í Sandgerði sem og fleira af bátnum eftir löndun.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is

Mikil óánægja með grásleppustopp