Aflafréttir: Líflegt í Sandgerði
Ekki margir pistlar eftir á þessu herrans furðulega ári 2020. Þetta átti bara að vera ansi fínt ár en síðan kom þessi blessaða litla veira, kórónuveiran, og allt hefur farið niður á við.
Nema eins og ég hef komið inn á áður, sjávarútvegurinn. Hann hefur haldið sínu. Bátarnir hafa geta róið og fólk hefur haldið vinnu sinni – og í raun vantar fólk. Ef einhver sem hefur t.d. beitt eða unnið beitningu þá vantar beitningafólk í Sandgerði en þar er verið að beita í tveimur húsum. Hjá Stakkavík ehf. í gamla Guðfinnshúsinu og í Rauða Miðnesshúsinu bak við Vitann í Sandgerði.
Annars er mjög mikið búið að vera að gera í Sandgerði núna í desember og ansi margir bátar að leggja þar upp. Veiði bátanna hefur verið góð og það er greinilegt að mjög mikið magn af fiski er í sjónum utan við Sandgerði og á ansi dreifðu svæði því bátarnir hafa verið að reyna fyrir sér svo til frá Eldeyjarsvæðinu og alveg útí miðjan Faxaflóa, mjög stórt svæði.
Ef við lítum aðeins á aflatölur. Maron GK með 30 tonn í sjö, Sunna Líf GK 17,6 tonn í sex, Halldór Afi GK 11,3 tonn í sjö, Guðrún GK þrettán tonn í átta en þetta eru allt netabátar. Grímsnes GK og Langanes GK eru ennþá á ufsaveiðum við suðurströndina, þeir verða á þeim veiðum eitthvað frameftir desember en koma síðan til Sandgerðis um eða eftir áramótin. Grímsnes GK er með 49 tonn í tveimur og Langanes GK 20 tonn í tveimur. Erling KE hefur landað tvisvar, fyrst 42 tonn sem fékkst við suðurströndina. Síðan fór hann út á Selvogsbanka og kom til Grindavíkur með 8,3 tonn. Þegar þessi pistill er skrifaður þá var Erling KE á Eldeyjarsvæðinu og hafði þá landað tvisvar í Sandgerði.
Dragnótabátarnir hafa fiskað ágætlega. Sigurfari GK hefur haldið sig á Hafnarleirnum og þar í kring en hann hefur ekki leyfi til þess að veiða í Faxaflóanum því hann er lengri enn 25 metrar. Hefur hann landað 33 tonnum í fjórum, Siggi Bjarna GK sextán tonn í fimm, Benni Sæm GK sjö tonn í fjórum. Þessar landanir hjá Sigga og Benna eru eftir veiðar í Faxaflóanum en þeir fóru fyrsta róðra sína á svipuðum slóðum og Sigurfari GK hefur verið að veiðum um þann tíma sem þessi pistill er skrifaður.
Í Grindavík eru stóru línubátarnir loksins komnir heim. Hrafn GK kom með 66 tonn þangað en hann var meðal annars með línuna utan við Sandgerði að veiðum. Valdimar GK kom með 74 tonn og var hann á veiðum utan við Látrabjarg en færði sig síðan suður og var kominn undir Sandgerði undir lok ferðar – og Páll Jónsson GK kom með 61 tonn, hann er eini Vísisbáturinn sem hefur landað í Grindavík núna í haust.
Lítum stuttlega á minni bátanna. Daðey GK 50 tonn í átta, Óli á Stað GK 44 tonn í átta, Margrét GK 40 tonn í sjö, Dóri GK 32 tonn í sjö, Steinunn HF 29 tonn í fimm, Beta GK átján tonn í sex, Geirfugl GK sautján tonn í fimm, allir í Sandgerði. Sævík GK 44 tonn í sjö í Grindavík og Sandgerði en þó mestum hluta landað í Sandgerði.
Síðasti farfuglinn, ef þannig má orða hlutina, er komin suður – eða svona næstum því. Það er Addi Afi GK sem hafði gert út frá Skagaströnd í haust. Þessi bátur er ekki nema um ellefu tonn af stærð og á þessum árstíma er ekki hægt að sigla svona litlum báti frá Skagaströnd og fyrir Horn og Vestfirðina. Svo Óskar eigandi af bátnum gerði bara eins og hann hefur gert oft áður, setur bátinn á vörubíl og lætur aka honum til Akraness. Þar er báturinn settur á flot og siglir svo til Sandgerðis.
Það er nú reyndar annar farfugl sem kom um það leyti sem þessi pistill var skrifaður en það er togarinn Berglín GK – og það eftir enga smá siglingu. Togarinn fór frá Siglufirði og fór á miðin út af norðausturhorni landsins. Út af Raufarhöfn og þar. Tók nokkur tog þar og út af af Langanesi og síðan var siglt heim á leið, bara þessi sigling hefur tekið um 44 klukkutíma en Berglín GK hefur verið að ganga þetta 9,5 til 12 sjómílur. Þetta er ansi löng leið eða alls um 660 sjómílur, um 1220 km.
Annars er þetta síðasti pistill fyrir jól og vil ég því senda ykkur lesendur góðir innilegar jóla- og áramótakveðjur. Takk fyrir viðbrögðin við þessum pistlum og þar sem vetrarvertíðin árið 2021 er framunda þá fylgir hérna með myndband þar sem að Langanes GK og Pálína Þórunn GK eru á landleið til Sandgerðis. Eigið góðar stundir.
Gísli Reynisson.
aflafrettir.is