Aflafréttir: Hvað er merkilegt við 11. maí?
Hvað er merkilegt við 11. maí? Fyrir marga er 11. maí ekkert merkilegri dagur en hver annar. Þessi dagur er ekki einu sinni merktur inn á dagatölum. Hvað er þá eiginlega sérstakt við þennan dag sem mörgum finnst ekkert merkilegur?
Jú, 11. maí var kallaður lokadagurinn, eða lokadagur vetrarvertíðarinnar. Það var nefnilega -þannig á árum áður að það var oft mikil keppni á milli báta og sjómanna um að verða aflahæstir í sinni höfn nú eða þá yfir landið allt. Má fara ansi langt aftur í tímann til þess að finna þessa keppni.
Í raun mætti fara alveg aftur til ársins 1940 eða aðeins lengra aftur í tímann til þess að sjá fréttir um vertíðar- og aflakónga eftir hverja vertíð – en þetta er liðin tíð. Eða er það svo? Að mínu mati er ennþá spenningur í sjómönnum að fiska meira en næsti sjómaður eða bátur og finn ég það mjög vel í gegnum aflafrettir.is því ég fæ svo mörg skilaboð um að þessi og þessi hafi fiskað þetta og þetta mikið og það vantar tölur inn á þennan og þennan bát. Ég hef þurft að endurreikna þennan bát því hann er hæstur.
Já, kannski má segja að vertíðarstemmningin sé ennþá til staðar, þó með allt öðru sniði því núna er þetta kvóti og jafnvel mismunandi ísprósenta sem hefur áhrif. Fer nánar út í vertíðina í næsta pistli.
Lítum á aflabrögðin sem hafa verið gríðarlega góð núna í maí. Mjög margir línubátar eru búnir að vera að veiðum skammt utan við Grindavík og hafa allir bátar þar mokveitt.
Sem dæmi kom Beta GK með sautján tonn í land í einni löndun og er mynd af Betu GK með hérna. Fékk hún þennan afla á þrettán þúsund króka eða um 31 bala. Það gerir um 596 kíló á bala sem er ekkert annað en mokveiði.
Gísli Súrsson GK lenti líka í mokveiði. Hann kom í land með 15,2 tonn sem fékkst á aðeins uppreiknað í bala alls 22 bala og það gerir um 691 kíló á bala. Þetta er rosalegur afli svo ekki sé meira sagt. Gísli Súrsson GK hefur landað alls 76 tonnum í aðeins fimm róðrum.
Aðrir bátar hafa líka fiskað vel og skulu nokkrir nefndir: Kristján HF 129 tonn í sjö róðrum og mest 25 tonn, Fríða Dagmar ÍS 128 tonn í tíu, Jónína Brynja ÍS 127 tonn í ellefu, Kristinn HU 116 tonn í sjö og mest 22,3 tonn, Sævík GK 99 tonn í átta, Daðey GK 93 tonn í ellefu, Auður Vésteins SU 70 tonn í fimm, Geirfugl GK 65 tonn í sjö og Katrín GK 45 tonn í sjö. Allir þessir bátar hafa landað í Grindavík.
Eitthvað er lítið um að dragnótabátarnir hafi verið að veiða og ennþá eru Nesfisksdragnótabátarnir bundnir við bryggju en enginn dragnótabátur frá þeim hefur landað afla síðan um miðjan apríl. Þetta þýðir það að aðeins einn dragnótabátur hefur verið að veiðum hérna við Suðurnes og er það Aðalbjörg RE sem hefur landað 22 tonn í þremur róðrum.
Netabátarnir hafa fiskað mjög vel og eru þeir flestir að veiðum inn í Faxaflóa nema Bergvík GK og Sunna Líf GK sem hafa verið að veiðum utan við Sandgerði. Langanes GK er hæstur með 87 tonn í sjö róðrum, Maron GK 57 tonn í átta, Halldór Afi GK 28 tonn í átta, Sunna Líf GK 24 tonn í fjórum, Bergvík GK 24 tonn í sex og mest sjö tonn.
Netabáturinn Erling KE er svo farinn í burtu en hann fór ansi langt því hann sigldi um 400 sjómílna leið alla leið til Vopnafjarðar þar sem hann mun vera í sumar til að stunda grálúðuveiðar fyrir Brim ehf. og landa á Vopnafirði.