Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Aflafréttir: Heilt yfir rólegt í höfnum á Suðurnesjum
Maron GK.
Fimmtudagur 1. október 2020 kl. 07:06

Aflafréttir: Heilt yfir rólegt í höfnum á Suðurnesjum

Þegar þessi pistill kemur ykkur lesendum fyrir sjónir þá er við það að koma október. Það verður fróðlegt að sjá hvernig sá mánuður verður, því í það minnsta fyrir línubátana þá var september ekkert til þess að hrópa  húrra fyrir.

Núna er endanlega lokið rækjuúthaldi togara Nesfisks, Berglínar GK, sem átti ansi brösótt gengi í sumar, meðal annars út af mótmælum áhafnar á togaranum og Berglín GK var því frá veiðum í um fjórar vikur, fór aftur til veiða en hætti veiðum um miðjan ágúst, fór þá í slipp og hefur ekkert róið allan september. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sóley Sigurjóns GK náði að stunda rækjuveiðar frá því í maí og þangað til núna undir lok september að togarinn kom til Keflavíkur og var þar með rækjuúthaldinu á Sóley Sigurjóns GK lokið þetta árið. Rækjuafli Sóleyjar Sigurjóns GK var um 527 tonn í átján löndunum eða 29,3 tonn í löndun. Rækjuafli Berglínar GK var margfalt minni, aðeins 143 tonn í tíu löndunum eða um 14 tonn í löndun.

Heilt yfir þá var frekar lítið um að vera í höfnunum á Suðurnesjum núna í september, í Grindavík voru um 1.030 tonn sem á land komu og af því þá átti frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarsson GK 652 tonn, sem þýðir að bátaafli var 379 tonn.

Í Sandgerði komu á land 568 tonn og var það allt bátaafli, enginn togari landaði þar, og það þýðir að meiri bátaafli kom á land í Sandgerði en í Grindavík.

Í Keflavík/Njarðvík komu á land 276 tonn og var það allt bátaafli. Mestum afla í þessum höfnum kom frá netabátnum Maroni GK eða um 87 tonn.

Grímsnes GK hefur, eins og komið hefur fram hérna í pistlum, verið að stunda ufsaveiðar meðfram suðurströndinni og gengið mjög vel, kominn með um 191 tonn í september í níu róðrum. Núna hefur hinn stóri báturinn sem Hólmgrímur á og gerir út, Langanes GK, bæst við Grímsnes GK að eltast við ufsann. Langanes GK er búinn að landa um 30 tonnum í þremur róðrum og mest nítján tonn í einni löndun. Langanes GK er búinn að vera með netin á svæðinu í kringum Vestmannaeyjar.

Spólum aftur til 1995

Spólum aðeins aftur í tímann og skoðum nokkra báta sem við höfum nefnt hérna að ofan því það eru í það minnsta tveir bátar sem ég hef nefnt sem voru líka að stunda veiðar frá Suðurnesjum árið 1995 – en við skulum aðeins fara þangað.

Þá var báturinn sem er í dag Grímsnes GK að stunda netaveiðar í Faxaflóa og hét þá Happasæll KE, landaði 162 tonnum í 23 róðrum í september árið 1995 og mest 17,7 tonn.

Hinn báturinn er Maron GK sem árið 1995 hét Ósk KE. Ósk KE var í september 1995 með 87 tonn í 21 róðrum og af því var landað í Keflavík um sextán tonnum, restinni var landað í Sandgerði, mest um 9,4 tonn í einni löndun.

Höldum okkur áfram við netabátana í september árið 1995, það er ekki hægt að horfa á netabátana á Suðurnesjum þetta ár án þess að líta á netakóngana Grétar Mar, sem var þá skipstjóri á Bergi Vigfúsi GK, og Odd Sæmundsson, sem þá var skipstjóri á Stafnesi KE.

Bergur Vigfús GK var með 216 tonn í 21 róðri sem öllu nema tíu tonnum var landað í Sandgerði.  Stafnes KE var í september árið 1995 að eltast við ufsann og landaði alls 183,4 tonnum í átta róðrum, 136 tonnum af þessum afla var landað á Hornafirði en báturinn kom með 48 tonn til Sandgerðis í einni löndun og var uppistaðan í þeim afla ufsi.

Hin skipin sem hafa verið nefnd hérna að ofan lönduðu ekkert á Suðurnesjum í september árið 1995, Berglín GK hét þá Jöfur ÍS 172 og var á rækjuveiðum og landaði á Hvammstanga, Sóley Sigurjóns GK var þá ekki til því sá togari kom ekki til landsins fyrr en árið 1996 og Hrafn Sveinbjarnarsson GK landaði ekkert enda var togarinn þá svo til nýkominn í eigu Grindvíkinga.