Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Aflafréttir: Góður afli fyrri helming marsmánaðar
Föstudagur 20. mars 2020 kl. 07:53

Aflafréttir: Góður afli fyrri helming marsmánaðar

Marsmánuður orðinn hálfnaður og hann er búinn að vera nokkuð góður, aflalega séð, þrátt fyrir allt annað sem er í gangi í þjóðfélaginu.

Hjá netabátunum er Erling KE kominn með 236 tonn í þrettán róðrum og mest 35 tonn, Langanes GK er með 217 tonn í þrettán róðrum og mest um 30 tonn, Maron GK 137 tonn í þrettán og mest um átján tonn, Halldór Afi GK 70 tonn í þrettán og mest um níu tonn, Þorsteinn ÞH er með 83 tonn í átta róðrum og mest um fjórtán tonn, Hraunsvík GK 33 tonn í tólf og mest sex tonn, Sunna Líf GK 29 tonn í átta róðrum og mest 7,5 tonn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hjá dragnótabátunum hefur veiðin líka verið nokkuð góð. Benni Sæm GK er með 106 tonn í sex róðrum og mest 23 tonn, Sigurfari GK 90 tonn í sex róðrum og Ísey EA 80 tonn í tíu túrum en báturinn er búinn að vera að landa í Sandgerði og í Grindavík. Aðalbjörg RE hefur fengið 25 tonn í fimm róðrum.

Nýr dragnótabátur kom í fyrsta skipti til Sandgerðis núna snemma í mars og er það Finnbjörn ÍS frá Bolungarvík. Hann hefur fiskað nokkuð vel um 46 tonn í aðeins þremur róðrum og mest 16,5 tonn. Þessi bátur er nokkuð þekktur á Suðurnesjum og þó aðallega í Grindavík því Finnbjörn ÍS var gerður út frá þaðan í tæp 30 ár og hét þá Farsæll GK. Grétar Þorgeirsson var skipstjóri á bátnum ásamt föður sínum. Farsæll GK var seldur fyrir nokkrum árum vestur til Bolungarvíkur og fékk þar nafnið Finnbjörn ÍS. Nokkuð er búið að breyta bátnum frá því hann hét Farsæll GK, m.a. fékk hann nýjan lit. Þegar hann hét Farsæll GK þá var hann rauður en undir nafninu Finnbjörn ÍS þá er báturinn fallega gulur á litinn. Sömuleiðis var afturendanum, eða skutnum, á Finnbirni ÍS breytt nokkuð, hann breikkaður og hækkaður. Við það þá fékkst aðeins meira flot í bátinn að aftan og varð hann aðeins stöðugri.

Af hvejru er báturinn á Suðurnesjum? Jú, útgerðaraðilinn sem á Finnbjörn ÍS hefur verið á dragnót frá Bolungarvík undanfarin ár og landað á fiskmarkaði, fiskverkun í Keflavík hefur verið stór kaupandi af fisknum frá Finnbirni ÍS.  Báturinn kom suður í smá viðhald núna í janúar en þar sem dragnótaveiði frá Bolungarvík er mjög léleg á þessum tíma árs ákvað skipstjórinn, Elli Bjössi, að koma með bátinn til Sandgerðis og reyna fyrir sér á dragnótamiðunum sem eru skammt undan Hafnarberginu. Það hefur gengið vel. Þessi sama fiskverkun í Keflavík tekur fiskinn af Finnbirni ÍS.

Reyndar verður báturinn, samkvæmt fyrstu upplýsingum, bara hérna í stuttan tíma en það gæti farið svo að hann myndi koma hingað aftur og vera þá til lengri tíma. Það er verið að vinna í því.

Reyndar fór svo illa núna á sunnudaginn að það var brotist inn í bátinn þegar hann lá inn í Sandgerðishöfn. Gluggi sem er á neðri hæðinni á bátnum og snýr út á dekk var brotinn auk þess sem að gluggi á brúnni var spenntur upp. Myndavélakerfi er í bátnum og náðist innbrotsþjófurinn á mynd og er lögreglan að vinna í því máli. Mikið var rótað í bátnum og skemmt en ekki miklu stolið.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is