Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Aflafréttir: Fyrsti togarinn í 50 ára sögu Vísis  en hvar er makríllinn?
Föstudagur 14. ágúst 2020 kl. 07:58

Aflafréttir: Fyrsti togarinn í 50 ára sögu Vísis en hvar er makríllinn?

Ágústmánuður er ansi merkilegur mánuður, hann er jú eini mánuðurinn ársins þar sem karlmenn eru skírðir svo til í höfuðið á, ansi margir Íslendingar heita jú Ágúst.

Tvennt annað er merkilegt við ágúst, hið fyrra er það að þessi mánuður og desember eiga eitt sameiginlegt. Báðir þessir mánuðir eru síðasti mánuðurinn í einu ári.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jú, við vitum öll að desember er síðasti mánuður hvers árs. En það er nefnilega ágúst líka.  Hann er síðasti mánuðurinn í ári sem kallast fiskveiðiár. 1. september ár hvert kemur ný kvótaúthlutun út og þá færist aðeins líf í veiðarnar. 

Við á Suðurnesjunum sjáum kannski lítið af því vegna þess að vanalega fer allur stóri línubátaflotinn, sem er gerður út frá Grindavík, norður og austur í land til veiða og er öllum fiskinum ekið suður til vinnslu.

Það gæti þó verið einhver breyting á því vegna þess að bæði fyrirtækin Þorbjörn ehf. og Vísir ehf. hafa lagt sitthvorum línubátnum og komið með togskip í staðinn.

Þorbjörn ehf. lagði Sturlu GK og keypti í staðinn 29 metra togbát sem heitir í dag Sturla GK og mun áhöfnin sem var á línubátnum Sturlu GK fara yfir á togbátinn Sturlu GK. 

Það sama hefur gerst  hjá Vísi en þar hefur línubátnum Kristínu GK verið lagt og heitir hann í dag Steinn GK, þeir hafa leigt togarann Bylgju VE frá Vestmannaeyjum til eins árs. 

Er þetta nokkuð merkilegt því að Vísir hefur í 50 ára sögu sinni aldrei gert út togara, þótt fyrirtækið hafi gert út báta sem voru á trolli en aldrei togara. 

Spurning hvort þetta breyti einhverju gagnvart því að bátarnir séu úti á landi að landa fiski og öllum fiski sé ekið suður eða hvort togskipin verði við veiðar við sunnanvert landið og landi í sinni heimahöfn.

En aðeins að öðru. Undanfarin ár hefur verið mikið líf og fjör í Keflavík vegna fjölda báta sem stunda makrílveiðar á handfæri en núna þá er því miður allt steindautt. Bátarnir náðu að landa smá slatta í lok júlí en í ágúst hefur ekkert fundist og þó nokkrir bátar eru bara hættir að leita, t.d er Ragnar Alfreðs GK og Fylkir KE báðir farnir vestur til veiða með handfærum og veiða þá þorsk og fleira.

Siggi Bessa SF sem hefur lagt komu sína suður undanfarin ár er kominn til Grindavíkur þegar þetta er skrifað en að sögn Unnsteins, skipsstjóra á bátnum, þá fannst enginn makríll á allri leiðinni suður og ætlaði hann að leita aðeins meira hérna við Suðurnesin en ef ekkert finnst þá ætlar hann að sigla aftur til Hornafjarðar. Að makrílinn skuli ekki láta sjá sig er mikill tekjutap fyrir marga, t.d sjómennina á bátunum, vinnslurnar sem unnu makrílinn og Reykjaneshöfnina en tekjur hafnarinnar af öllum þessu mikla makrílafla skipti þó nokkru miklu.

Á myndinni sem fylgir með má sjá Andey GK, Rán GK og Von GK, allir þessir bátar hafa leitað nokkuð duglega en ekkert fundið og enginn af þessum bátum hefur landað einu grammi af makríl núna í ár.

Og að lokum hinn hluturinn sem er merkilegur við ágúst. Jú, hann er náttúrlega uppáhaldsmánuðurinn minn því ég á afmæli ... gaman gaman.