Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Aflafréttir: Bræla gerir sjómönnum lífið leitt
Föstudagur 11. október 2019 kl. 07:14

Aflafréttir: Bræla gerir sjómönnum lífið leitt

Þá er október kominn af stað. Tíminn líður svo hratt að maður er varla búinn að skrifa einn pistil þegar að maður þarf að henda í þann næsta.

Mánuðurinn byrjar frekar rólega. Reyndar gerði veðrið sjómönnum lífið leitt fyrstu dagana því búin er að vera ansi mikil bræla. Ekki er mikið um báta sem róa frá Suðurnesjum, þó eru tveir sæbjúgubátar í Sandgerði sem hafa verið þar síðan snemma í september. Eru þetta Sæfari ÁR sem hefur landað 137 tonnum í ellefu róðrum í Sandgerði og mest 22 tonnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hinn báturinn er Þristur BA sem hefur landað 67 tonnum í ellefu róðrum. Það má geta þess að skipstjórinn á Þristi BA er Jón Ölver Magnússon en hann er Suðurnesjamaður og býr í Garðinum en hann ansi vanur höfninni í Sandgerði því hann hefur verið skipstjóri á nokkrum bátum.

Báturinn sjálfur, Þristur BA, hét lengst af Brimnes BA og réri frá Patreksfirði en þar á undan hét báturinn Særún EA og undir því nafni kom báturinn nokkuð oft til Sandgerðis á vertíð, meðal annars árið 1992. Báturinn var alla vertíðina í Sandgerði og var þá Guðjón Bragason frá Sandgerði skipstjóri á bátnum. Gekk honum nokkuð vel og var með um 550 tonn á vertíðinni, þar af fékk hann 204 tonn í mars í 27 róðrum á netum.

Dragnótabátarnir eru byrjaðir og eftir að hafa átt ansi góðan september, þar sem t.d Siggi Bjarna GK fór yfir 200 tonna afla, þá byrjar október frekar rólega. Benni Sæm GK er með 13,6 tonn í tveimur, Siggi Bjarna GK 12,8 tonn í tveimur. Maggý VE átta tonn í tveimur en báturinn hefur landað í Sandgerði. Sigurfari GK 6,4 tonn í þremur. Ísey ÁR er eini báturinn sem er að landa í Grindavík og var hann með eitt tonn í einni löndun.

Í síðasta pistli var ég að skrifa um tengingu milli Akureyrar og Suðurnesja það er Sandgerði. Á Akureyri voru tvö stór skip smíðuð sem bæði fóru til Sandgerðis og í síðasta pistli var fjallað örlítið um togarann Guðmund Jónsson GK.

Hitt stóra skipið sem var smíðað á Akureyri og kom til Sandgerðis var jafnframt annar af tveimur stórum bátum sem Slippstöðin smíðaði og voru sérútbúnir til nótaveiða. Báturinn sem fór til Sandgerðis var Sjávarborg GK 60, hinn báturinn var Hilmir SU.

Smíðasaga Sjávarborgar var nokkuð sérstök, því að skrokkurinn var smíðaður í Póllandi árið 1977 en var síðan dreginn til Íslands og fór þá til Akraness þar sem Þorgeir og Ellert lengdi skrokkinn um sex metra og byggði yfir hann. Í mars 1978 var skrokkurinn dreginn til Akureyrar en þar sem skrokkurinn var ekki seldur þá var dútlað í skipinu fram til ársins 1981 og hét þá báturinn Þórunn Hyrna EA 42. Seinna á árinu 1981 keypti fyrirtækið Sjávarborg hf. í Sandgerði bátinn og voru þá gerðar breytingar á skipinu sem meðal annars sneru að því að báturinn gæti stundað nótaveiðar en nótakassann var síðan hægt að hífa í burtu úr bátnum og var þá hægt að nota Sjávarborg GK til trollveiða.

Eigandinn af Sjávarborg hf. var Njörður hf. í Sandgerði sem átti meðal annars Dagfara ÞH, og Blika ÞH ásamt loðnubræðslunni.

Þegar Sjávarborg GK kom var loðnuveiðibann og fór báturinn þá beint á trollveiðar og gengu þær mjög vel. Sjávarborg GK var mikið aflaskip á loðnunni, fullfermi hjá bátnum var um 820 tonn og kom hann þannig nokkuð oft til Sandgerðis.

Saga Sjávarborgar GK endaði árið 1993 þegar Fiskveiðisjóður Íslands tók yfir bátinn vegna skulda og seldi til Svíðþjóðar.

Saga bátsins endaði árið 2016, þá var báturinn í Marokkó í eigu útgerðar þar og var við veiðar þegar að mikill eldur kom upp í skipinu þegar það var við veiðar og sökk báturinn.

Pistlahöfundur man vel eftir Sjávarborg GK og var þetta glæsilegur bátur að sjá. Ég hef heyrt í mörgum sem voru á Sjávarborg GK og tala sjómenn um hversu góður bátur þetta hafi verið og var báturinn iðulega með aflahæstu loðnubátunum á Íslandi þau ár sem hann var gerður út.

Reynir Sveinsson, faðir minn, tók mynd af bátnum þegar hann kom nýr til Sandgerðis árið 1982.