Pistlar

Af björgunarskipi og aflabrögðum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 16. janúar 2026 kl. 15:36

Af björgunarskipi og aflabrögðum

Það gat nú ekki endalaust verið blíða, en veðrið fyrstu dagana í janúar var óvenjulega gott, en núna þegar þessi pistill er skrifaður þá er fyrsta brælan á vertíðinni.

Enginn bátur á sjó, nema Sigurfari GK. Hann fór frá Sandgerði og alveg austur áleiðis að Landeyjarhöfn og Þjórsárósum en báturinn gerði ansi góða ferð þangað í síðustu viku, landaði alls 54 tonnum í tveimur róðrum, 34 tonnum í Þorlákshöfn og 20 tonnum í Sandgerði.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Í síðasta pistli var mikið um að vera og þá skrifaði ég um björgunarbátinn Hannes Hafstein sem er í Sandgerði.  Eitthvað skrifaði ég ekki alveg rétt um bátinn en fékk skilaboð þar sem réttar upplýsingar koma fram: hérna koma þær. 

Hannes Hafstein sem er eitt af elstu björgunarskipum landsins er í umsjá Björgunarbátasjóðs Suðurnesja.  Skipið er mannað meðlimum björgunarsveitarinnar Sigurvonar í Sandgerði og björgunarsveitinni Suðurnes.  Hannes Hafstein hefur margasannað sig í gegnum árin, þótt báturinn sé orðinn gamall, og núna er stefna á að Sigurvon, sem sér um bátinn, fái nýtt björgunarskip og er söfnun í gangi af því tilefni.

Reyndar má bæta við að saga björgunarskipa sem hafa heitið Hannes Hafstein er nokkuð löng, en fyrsti Hannes Hafsteinn kom til Sandgerðis árið 1993 og var báturinn þá fyrsta stóra björgunarskipið á Íslandi. Það liðu síðan fimm ár þar til næstu skip komu. 

Á þessum tíma árið 1993 og vel fram yfir aldamótin þá var Sandgerði ein stærsta löndunarhöfn Íslands. Sem dæmi má nefna að árið 1993 þegar Hannes Hafstein kom var Ólafsvík næststærsta löndunarhöfn landsins og voru landanir í Ólafsvík um 6000 talsins. Sandgerði var aftur á móti með ellefu þúsund landanir. Þetta er svona tíminn frá 1990 og fram yfir aldamótin voru landanir í Sandgerði um og yfir 10 þúsund landanir ár hvert og engin önnur höfn hafði eins margar landanir eða þá báta sem komu þar. 

Svo þörfin á björgunarskipi var mikil enda hefur það margsannað sig í útköllum og björgun þessi 33 ár sem Hannes Hafstein hefur verið til taks, og það skiptir sjómenn miklu máli að öflug björgunarskip séu staðsett í Sandgerði.

Annars frá Hannesi og lítum aðeins á hvernig hefur gengið aflalega séð.  Byrjum á dragnótinni, en veiðar bátanna með dragnót hafa verið frekar rólegar ef Sigurfari GK er undanskilinn en hann er núna kominn með 60 tonn í 4 róðrum og er þegar þetta er skrifað aflahæsti dragnótabátur landsins núna í janúar.   Yfir allt landið þá hefur veiði dragnótabátanna verið frekar dræm, og Benni Sæm GK er kominn með 24 tonn í 5 róðrum, og þrátt fyrir aðeins 24 tonn þá er báturinn engu að síður í 8. sætinu yfir landið af 17 bátum sem hafa byrjað dragnótaveiðar.

Netaveiðarnar hafa gengið ágætalega, Erling KE er búinn að vera með netin að mestu utan við Stafnes og hefur verið að landa í Sandgerði og kominn með 60 tonn í 6 róðrum.  Friðrik Sigurðsson ÁR er búinn að vera með netin við Garðskagavita og hefur landað 46 tonnum í 9 róðrum.

Af minni bátunum þá er Addi Afi GK með 18,3 tonn og Svala Dís KE 15,2 tonn, báðir í 7 róðrum.  Það má geta þess að báðir bátarnir komu og lögðu netin sín utan við Stafnes og komu svo til Sandgerðis og lágu þar yfir nóttina, fóru svo út daginn eftir og drógu netin og sigldu svo til Keflavíkur til að landa.  Ansi sérstakt. 

Framsókn
Framsókn