Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Ætti landlæknir að horfa út fyrir kassann?
Laugardagur 6. mars 2021 kl. 07:44

Ætti landlæknir að horfa út fyrir kassann?

Nú þegar veiran er svo gott að þurrkast út á Íslandi verður áhugavert að sjá hvernig efnahagsleg endurkoma verður, ekki síst hér á Suðurnesjum. Þar hafa afleiðingar veirunnar orðið verstar og felast í hæsta atvinnuleysi sögunnar, síðustu hundrað árin alla vega. Endurkoma atvinnulífsins er stærsta málið því vel hefur gengið að taka á heilsufarslegum þætti samfara veirunni. Í þessu sambandi kemur bólusetning eðlilega upp, eða réttara sagt hvernig henni er háttað.

Í byrjun vikunnar kom fram ósk frá forráðamönnum flugliða, en þeir starfa t.d. í flugvélum Icelandair, að þeir verði settir framar í röðina hvað bólusetningu varðar. Landlæknir og hans fólk hafa ekki verið til í það og segja framlínufólk í fluginu ekki í forgangshóp. Í nýlegum könnunum í útlöndum kemur fram að val á áfangastað (þegar fólk fer að fljúga aftur) verður eftir því hvernig landið tók á Covid-19 og bólusetningum. Írar hafa farið þá leið að bólusetja flugfólk og starfsfólk flugvallarins í Dublin, þeir telja sér það til framdráttar og að ferðamenn sem kjósa að fara af stað – horfi til þeirra, með veirufrían flugvöll. Vilhjálmur Árnason, þingmaður, sagði í viðtali við VF í vikunni að það væri skynsamlegt að fara þessa leið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Stjórnvöld verða að bregðast hratt og örugglega við þessari eðlilegu kröfu um bólusetningu flugliða. Flugliðar eru undanþegnir ýmsum sóttvarnarráðstöfum af þeim sökum. Þá mun það eflaust auka áhuga og traust fólks á því að ferðast til Íslands viti það af bólusettum flugliðum og flugvallastarfsmönnum,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður í Suðurkjördæmi.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar bókaði á fundi sínum í vikunni, á sömu nótum og bendir á að yfir 40% af efnahagsumsvifum á svæðinu má beint eða óbeint rekja til alþjóðaflugvallarins í Keflavík. Til að auka líkur á skjótari viðsnúningi ferðaþjónustunnar og starfseminnar á Keflavíkurflugvelli sé mikilvægt að gera allt sem hægt er til að draga úr neikvæðum áhrifum Covid-19. Stór liður í því sé að flýta bólusetningu framlínufólks í flugi og flugþjónustu svo það sé betur búið undir að taka á móti og þjónusta fólk sem vill ferðast til Íslands í vor og sumar.

Við skulum vona að landlæknir horfi út fyrir kassann og hjálpi til með að gera Keflavíkurflugvöll veirufrían eins og Írar eru að gera. Þeir eru mjög háðir ferðaþjónustu eins og við Íslendingar. Þegar veiran finnst ekki á Íslandi ætti landlæknir að hafa svigrúm til svona ákvarðana. Þetta er ekki stór hópur en mikilvægur og gæti reynst afar mikilvægur fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum og Íslandi. Það fer fátt verr með andlega heilsu fólks en atvinnuleysi.

Páll Ketilsson.