Áður en skólinn kom til
Þegar lútherskur siður tók við af kaþólskum um miðja 16. öld var ætlast til að fólk gæti sjálft lesið Biblíuna og önnur trúarrit. Það varð íslenskri tungu til bjargar að Biblían var þýdd og prentuð á íslensku strax árið 1584 og mun vera 17. elsta heildarútgáfa Biblíunnar í heiminum! (https://is.wikipedia.org/wiki/Guðbrandsbiblía) Norðmenn urðu að nota Biblíu á dönsku þar til hún kom loks út á norsku (https://no.wikipedia.org/wiki/Bibelen_i_Norge#Norske_utgaver_1853–2011) um miðja 19. öld, sem skýrir hve mikil áhrif danska hafði á norska tungu. Auk Biblíunnar voru prentaðar sálmabækur og þýdd trúarrit.
En það kom að litlu gagni að prenta bækur ef fáir voru læsir. Með tilskipun árið 1744, sem yfirvöld gáfu út eftir rannsóknir Harboe og Thorkilli á menntun í landinu, var foreldrum og vandamönnum gert skylt að fræða börnin heima um guðs orð og lestur en prestar skyldu fylgja því eftir og aðstoða eftir þörfum, ásamt meðhjálpurum. Í bréfi yfirvalda til Skálfholtbiskups 1790 er þessu fylgt fastar eftir. Skyldu börn hefja lestrarnám fyrir fimm ára aldur og kristin fræði á tíunda ári. Skyldi presturinn áminna heimilisfólk og jafnvel refsa ef það vanrækti lestrarkennslu. Síðan mátti sekta presta ef þeir vanræktu þessi skyldustörf, eða fermdu börn sem lítið eða ekkert kunnu að lesa.
Fyrstu stafrófskverin voru jafnframt trúfræðikennslubækur, svo sem „Eitt lited Stafrofskver fyrer Börn og Ungmenne“, sem kom út 1655, með gotnesku letri eins og þá tíðkaðist. Fremst eru fáein atkvæði en strax á bls. 5 byrjar þungt trúarlegt lesmál. Árið 1782 var mikil framför þegar prentað var í Hrappsey lestrarkverið „Lijtid ungt Stöfunar Barn...“ eftir Gunnar Pálsson, prófast, með dæmum og nákvæmri útskýringu á stöfunum, einnig tölustafir og margföldunartöflur. Útgáfa stafrófskvera blómstraði á 19. öld. Árið 1853 kom t.d. út „Nýtt Stafrófskver handa Minni manna börnum með nokkrum réttritunarreglum og dálitlu ávarpi til hinna minni manna“ og var það með latnesku letri eins og við notum í dag. Hugsanlega hefur það kver verið notað á fyrstu árum skólans okkar.
Þannig var heimafræðsla undir eftirliti presta alls ráðandi þegar farið var að stofna barnaskóla á Íslandi síðari hluta 19. aldar en þá voru þeir löngu komnir á í nágrannalöndum. Alþingi jók svo kröfur um fræðslu barna með lögum 1880 og skyldi nú einnig kennd skrift og reikningur. Eftir sem áður skyldu foreldar kosta kennsluna, þar báru ríkið og sveitarfélög engar skyldur, fyrr en með fræðslulögum 1908, að skólaskylda tíu til fjórtán ára barna kemst á og skólaganga þeirra verður ókeypis. En áfram var krafist heimafræðslu því börnin skyldu vera orðin læs þegar skólaskyldan hófst. Alveg fram á þennan dag er gert ráð fyrir heimanámi, undir stjórn skólans. Margir foreldrar og kennarar vilja afnema heimanám, það síðasta sem eftir er af aldagamalli heimafræðslu.
Farkennsla varð algeng á Íslandi undir lok 19. aldar og ríkjandi í dreifðum byggðum fram á miðja 20. öld. Farskóli var millistig milli heimafræðslu og barnaskóla og hafði ekki sérstakt skólahús. Ráðnir voru kennarar til að kenna til skiptis á barnmörgum heimilum og hverfum. Börn hófu skólanám um tíu ára aldur, fram að því sinntu heimilin fræðslu og skyldu þau vera læs er þau hófu farskólagöngu. Fastir skólar voru skyldugir til að kenna að minnsta kosti sex mánuði á ári, en farskólar að minnsta kosti tvo mánuði á hverjum stað.
Í Grindavík var ráðinn kennari og komið á farskóla 1888 og kennt í sex vikur í hverju hinna þriggja hverfa, að einhverju leyti með styrk úr Thorkilliisjóði. Síðan var skóli á einum stað í húsnæði með templurum frá árinu 1904.
Sá sem þetta skrifar er alinn upp í dreifbýli á Suðurlandi og hóf skólagöngu á tíunda ári árið 1957. Það ár lagðist farskóli af í þeirri sveit en skólaakstur komst á og voru þá öll börnin í hreppnum í sama skóla. Barnaskólaganga undirritaðs varði í þrjú ár; sex mánuði á ári og þrjá daga í viku. Eldri og yngri deild mættu til skiptis, þrjá daga í viku hvor. Aðeins var einn kennari, Kristín Skúladóttir (móðir Sigurðar dýralæknis), sem kenndi sex daga vikunnar, allar greinar nema heimilsfræði og íþróttir! Vel af sér vikið.
Það er sérstakt við þá dreifðu byggð, Vatnsleysustrandarhrepp, að þar var komið á föstum skóla mjög snemma. Samt var einnig kennt í vissum hverfum með farskólasniði og byggð til þess sérstök hús, eins og skýrt verður frá síðar.
Heimildir m.a.: Wikipedia. Löggjöf um barnauppfræðing á Íslandi. Tímarit um uppeldi og kennslumál, 1. árg. 1888.
Hildur Jónsdóttir: Farskólahald í Fellshreppi á fimmta áratug tuttugustu aldar.
Sextíu ára afmæli barnafræðslunnar í Grindavík. Faxi nóv. 1948. Gunnar M.Magnúss. Saga alþýðumenntunar.
Hvers konar skólar voru á Íslandi..? Vísindavefurinn.