Vöxtur, virðing, vilji, vinátta

Grunnskólinn í Sandgerði hefur undanfarin ár unnið markvisst að því að bæta námsárangur nemenda sinna ásamt því að auka vellíðan og efla skólabrag. Námsárangurinn hefur aukist þó nokkuð, sjáum við það m.a. á niðurstöðum úr samræmdum prófum, könnunum á vegum fræðsluskrifstofu og árangri í lestri. Einnig hefur líðan nemenda og starfsfólks eflst og skólabragur, sem segir til um þann anda sem ríkir í skólanum. Það sjáum við m.a. á niðurstöðum úr könnunum úr Skólapúlsinum, könnunum á vegum Olweusar og könnunum sem skólinn leggur fyrir sem hluta af sjálfsmati skólans.

Uppeldi til ábyrgðar
Uppeldi til ábyrgðar (e. restitution) miðar að því að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfstjórn einstaklinga. Þjálfa í að ræða um tilfinningar sínar og átta sig á þörfum sínum. Vinnuaðferðunum er einnig ætlað að styðja starfsmenn skólans við að móta sér skýra stefnu varðandi samskipti og agamál. Öðru fremur er um að ræða aðferðir við að kenna sjálfstjórn og sjálfsaga og styrkja einstaklinga í því að læra af mistökum sínum. Hugmyndafræðin hefur áhrif á kennsluhætti, stjórnunarhætti, áherslur í lífsleiknikennslu og ekki síst á meðferð agamála. Hún byggist á því að einstaklingurinn geti tekið sjálfstæðar, siðferðilegar ákvarðanir varðandi eigin hegðun þegar hann er laus undan skömm, hótunum, sektarkennd eða væntingum og loforðum um umbun og að hann fái tækifæri til að meta lífsgildi sín.

Lestrarstefna skólans
Skólinn hefur gefið út lestrarstefnu sem unnin er af lestrarteymi. Lestrarstefnan miðar að því að efla lestrarfærni nemenda, efla faglega þekkingu starfsmanna á lestrarkennsluaðferðum, samræma vinnubrögð er við koma lestri og lestrarkennslu og efla heimilin til þátttöku. Ásamt því að gefa út lestrarstefnu hefur teymið einnig séð um útgáfu Lestrarskjóðu sem nemendur nota við heimalestur. Grunnskólinn leggur mikla áherslu á gott samstarf á milli heimila og skóla og sérstaklega þegar kemur að lestrarnámi nemenda.

Metnaður og árangur
Skólinn setur sér markmið um árangur þrjú ár fram í tímann. Við viljum auka árangur með því að rýna í einkunnir og námsmat og bregðast við jákvæðum og neikvæðum þáttum. Við styðjum kennarana í að fá rétt kennsluefni og tæki til kennslunnar þannig að þeir geti aukið færni nemenda og eflt framfarir þeirra. Við eflum bekkjaranda og skólaanda þannig að nemendum okkar líði vel, en tengsl eru á milli líðan í skóla og námsárangurs. Við viljum að gagnkvæm virðing sé á milli nemenda og starfsfólks og allir þessir aðilar upplifi skólann sem “skólann minn”. Við reynum að byggja upp jákvæðan starfsanda og gefum starfsfólki tækifæri til að sækja námskeið til eflingar í starfi. Rannsóknir sýna að meiri ánægja starfsfólks, lengri menntun þeirra, meiri þátttaka í vinnuhópum og minni starfsmannavelta eykur námsárangur. Í starfsmannaviðtölum og könnunum sem lagðar eru fyrir starfsmenn kemur skýrt fram að þetta er þáttur sem starfsfólk er mjög ánægt með og telja að sé hluti af þeim árangri sem við höfum náð.

Lóa Björg Gestsdóttir, deildarstjóri.