Viltu hefja nám að nýju?

Af hverju vill fólk hefja skólagöngu að nýju eftir langt hlé? Margar ástæður geta verið að baki því svo sem að vilja skipta um starfsvettvang, vilja verða góð fyrirmynd fyrir börnin sín, fá áhuga á sérstöku námi, vilja bæta stöðu sína á vinnumarkaði og svo framvegis.

Nú er tækifæri til að taka lítil eða stór skref í átt að aukinni þekkingu. Boðið er upp á ýmsar námsleiðir hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum fyrir þá sem vilja hefja nám að nýju.

En það þarf oft mikið átak til að rífa sig upp úr þægindahringnum sínum og fara í eitthvað nýtt. Þá skiptir gríðarlega miklu máli sú hvatning sem einstaklingurinn fær. Sá einstaklingur sem er hvattur áfram er mun líklegri til að hefja og ljúka námi. Því er mikilvægt að hvetja sína nánustu áfram og jafnvel benda þeim á námsmöguleika sem gætu hentað þeim.

Þekkir þú einhvern sem þarf á hvatningu að halda?

Grunnmenntaskólinn
Námið hefst 10. september. Í skólanum er lögð áhersla á að námsmenn læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni. Skólinn er 300 kennslustunda nám fyrir þá sem hafa stutta skólagöngu að baki eða vilja styrkja námshæfileika sína eftir langt hlé.

Skrifstofuskólinn
Námið er ætlað einstaklingum sem vilja auka færni sína til að takast á við almenn verslunar- og skrifstofustörf. Verslunarreikningur og bókhald auk tölvu- og upplýsingatækni og verslunarensku eru aðalfögin. Skrifstofuskólinn er 240 kennslustundir og hefst um leið og næg þátttaka fæst.

Aftur í nám – námskeið fyrir lesblinda
Er námskeið ætlað einstaklingum sem eru lesblindir, tölublindir eða eiga við námsörðugleika að etja. Stuðst er við Ron Davis aðferðina í lesblinduleiðréttingu. Aftur í nám er alls 95 kennslustundir og þar af eru 40 einkatímar. Ef þú þekkir einhvern sem er les- eða tölublindur segðu honum eða henni frá námskeiðinu. Markmiðin eru að námsmaður auki færni sína í lestri og bæti sjálfstraust sitt til náms.

Svæðisbundið leiðsögunám
Aukning erlendra ferðamanna hefur verið mjög sýnileg á Suðurnesjum í sumar og er spáð aukningu í fjölda ferðamanna á næstu árum. MSS hefur í ljósi þessa ákveðið að bjóða upp á Svæðisbundið leiðsögunám. Svæðisbundið leiðsögunám opnar fyrir spennandi atvinnumöguleika á Suðurnesjum. Námið er tveggja anna og lýkur í maí 2013 og er námið byggt upp að hluta til sem bóknám, að hluta til sem verklegt og að hluta til sem fjarnám. Megináhersla er lögð á náttúru, menningu og sögu Reykjanesskagans og nágrennis, auk þess sem áhersla er lögð á leiðsögutækni og hagnýta þjálfun fyrir starfið í vettvangsferðum.

Félagsliðabrú
Félagsliðabrúin er fyrir einstaklinga sem starfa  við umönnum og stuðning með börnum, unglingum, fötluðum og öldruðum og hafa að minnsta kosti þriggja ára starfsreynslu.  Námið er stytting á félagsliðanámi þar sem metin eru þau námskeið og reynsla sem viðkomandi nemandi hefur öðlast í gegnum tíðina. Nemendur útskrifast sem félagsliðar.    

Fagnámskeið fyrir starfsmenn leikskóla
Fagnámskeið fyrir starfsmenn leikskóla er 210 kennslustunda nám sem kennt er á tveimur önnum. Þeir námsþættir sem eru kenndir eru meðal annars uppeldi leikskólabarna, þroski og þróun leikskólabarna, listastarf með börnum, sjálfsefling og tölvuleikni. Námið er einskonar fornám fyrir leikskólaliðabrú sem MSS hefur boðið upp á.