Tæknifræðinám Keilis: Nýr valkostur í hagnýtu námi á háskólastigi

Tæknifræðinám Keilis hefur nú verið starfrækt í þrjú ár. Háskóli Íslands kom að stofnun Keilis til að bregðast við kalli atvinnulífsins um aukið samstarf atvinnulífs og háskóla. Tæknifræðinámið er kjörinn vettvangur fyrir slíkt samstarf þar sem eðli námsins og áhersla er á hagnýtar tæknilausnir. Eðli málsins samkvæmt byggir tæknifræðin á hagnýtingu þekkingar sem þegar er til staðar, þ.e.a.s. að hanna og búa til aðferðir, nýjar vörur og lausnir sem byggja fyrst og fremst á stöðu þekkingar hverju sinni.

Samkvæmt nýlegri könnun Samtaka iðnaðarins kemur í ljós að á næstu árum þarf um 2.000 tækni- og háskólamenntaða starfsmenn á Íslandi. Könnunin sem gerð var meðal 400 fyrirtækja innan vébanda SI er í takt við sambærilega könnun gerða af Samtökum atvinnulífsins frá því í vor. Mikil tækifæri felast í þeim hluta atvinnulífsins sem tengist tæknigreinum, tölvu- og hugbúnaðargreinum, heilbrigðistækni, lífvísindum, umhverfistækni og upplýsingatækni. Takist skólakerfinu ekki að svara þessari eftirspurn er hætta á að fyrirtækin muni enn frekar en nú byggjast upp að mestu erlendis en Ísland stendur aftarlega í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að tæknimenntun fólks á aldrinum 25-35 ára.

Er skólakerfið að bregðast við þörfum atvinnulífsins?

Frá iðnbyltingunni hafa aukin lífsgæði fólks haldist í hendur við tækniframfarir í heiminum. Það er því athyglisvert að velta fyrir sér hvernig skólakerfið nýtist samfélaginu í heild. Á Íslandi höfum við því miður mjög ósveigjanlegt kerfi sem skipar fólki í hópa sem oft veldur aðskilnaði milli greina.

Skilin á milli framhaldsskóla og háskóla er gott dæmi um kerfi sem gerir fólki erfitt fyrir. Kerfið beinlínis stýrir ungu fólki frá iðnnámi og í menntaskólanám þar sem stúdentspróf er almennt aðgöngumiðinn í háskólanám. Iðnnám á Íslandi er botnlanganám sem gerir fólki erfitt um vik að halda áfram námi á háskólastigi seinna á lífsleiðinni. Kerfið hefur mótað viðhorf fólks til ólíkra stétta og margir foreldrar hvetja börn sín frekar til að sækja stúdentspróf en iðnmenntun. Samfélagið þarf á afburðafólki að halda í öllum stéttum og fólk þarf að eiga möguleika á áframhaldandi námi eftir reynslu á vinnumarkaðnum.

Eitt af markmiðum Keilis er að gera tæknimiðað iðnnám meira aðlaðandi í augum ungs fólks hérlendis. Kjörnemendur í tæknifræðinám búa yfir verkþekkingu sem þeir hafa fengið í tæknimiðuðu iðnnámi og í störfum sínum á vinnumarkaðnum. Þetta þarf þó að gerast án þess að slá af kröfum um innihald tæknifræðinámsins. Við gerum þetta með því að byggja brú fyrir iðnmenntað fólk og þá sem lokið hafa stúdentsprófi sem ekki byggir á raungreinum, upp á háskólastigið með viðbótar kúrsum sem teknir eru meðfram tæknifræðináminu í upphafi þess. Með því móti getur fullorðið fólk hafið háskólanám í stað þess að setjast á skólabekk í framhaldsskóla til að ljúka forkröfum.


Einstaklingsmiðað námsumhverfi

Keilir býður upp á stutt, hagnýtt og nýstárlegt háskólanám í tæknifræði í samstarfi við Háskóla Íslands. Námið er sniðið að þörfum atvinnulífsins, byggir á raunverulegum verkefnum og verkviti nemenda. Nemendur ljúka BS gráðu í tæknfræði á þremur árum og komast því fljótt út á vinnumarkaðinn þar sem þeir geta tekið þátt í uppbyggingu og starfsemi áhugaverðustu tækni-, orku-  og hugverkafyrirtækja Íslands.

Námið fléttar saman bóklegt nám og verkefnavinnu. Markmið okkar er að útskrifa nemendur með framúrskarandi þekkingu og færni á sínu kjörsviði ásamt því að virkja og efla sköpunargleðina. Við menntum og útskrifum nemendur með óhefðbundinn bakgrunn fyrir háskólanám með því að skapa einstaklingsmiðað umhverfi og tækifæri til áframhaldandi náms.

Fyrsti árgangurinn í tæknifræðinámi Keilis útskrifaðist við hátíðlega athöfn þann 22. júní síðastliðinn. Meðal þess sem einkenndi þennan fyrsta hóp var lífsreynsla, hugrekki og þrautseigja. Hópurinn var ekki stór, aðeins 15 nemendur, en mjór er mikils vísir. Miðað við að aðsókn hefur meira en tvöfaldast nú í haust er greinilega mikil þörf og aukinn áhugi á vönduðu tæknifræðinámi á Íslandi.

Nánari upplýsingar um námsframboð tæknifræðináms Keilis er á www.keilir.net/kit