Sumarkveðja frá Menntavagninum

Síðastliðið ár hafa undirrituð unnið að þróunarverkefni um eflingu menntunar á Suðurnesjum á vegum Menntamálaráðuneytisins og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Vinnan hefur gengið vel og viðtökur Suðurnesjamanna við verkefninu og einstökum viðburðum verið vonum framar. Við störf okkar höfum við meðal annars heimsótt skóla, stofnanir og fyrirtæki á svæðinu og hafa móttökur verið mjög ánægjulegar í alla staði. Ljóst er að samstarfsvilji Suðurnesjamanna til aukinnar menntunar er mikill.

Fyrsta verkefni okkar í maí 2011 var að halda námskynningu í samstarfi við Vinnumálastofnun á Suðurnesjum. Kynningin var haldin í tengslum við átakið Nám er vinnandi vegur, tókst hún með ágætum og sóttu hana um 600 manns. Leikurinn var endurtekinn í lok mars síðastliðnum þegar almenn námskynning, ætluð öllum Suðurnesjamönnum, var haldin í Stapanum. Svipaður fjöldi sótti hana en mun fleiri skólar tóku þátt og kynntu námsframboð sitt nú en síðast, þar á meðal allir háskólar landsins. Góður andi ríkti á kynningunni og var sérlega gaman að verða vitni að þátttöku foreldra í henni, þar sem margir þeirra mættu með börnum sínum. Ekki verður annað sagt en að báðar námskynningarnar hafi gengið mjög vel og var almenn ánægja með þær meðal þátttakenda og gesta.

Könnun á viðhorfum Suðurnesjamanna til menntunar var framkvæmd í tengslum við verkefnið af Capacent Gallup í október á síðasta ári og kom margt jákvætt fram í niðurstöðum hennar. Viðhorf Suðurnesjamanna til menntunar er almennt mjög jákvætt og nánast allir sem tóku þátt í könnuninni telja menntun af hinu góða. Yfir helmingur þátttakenda hefur áhuga á að auka við menntun sína enda auki viðbótarmenntun atvinnutækifæri og tekjur talsvert eða nokkuð. Flestir þeirra sem tóku þátt hvetja börn og ungmenni í kringum sig til að mennta sig og telja að börn þeirra muni afla sér meiri eða svipaðrar menntunar en þeir sjálfir. Jákvætt viðhorf til verkefna, hver sem þau eru, er oftast fyrsta skrefið til að vel takist til. Framtíðin ætti því að vera björt fyrir framgang aukinnar menntunar á svæðinu sem þarf svo að fylgja eftir með auknum atvinnutækifærum fyrir okkur sem hér búa.

Í febrúar 2012 héldum við starfskynningu fyrir grunnskólanemendur á Suðurnesjum, sem líklega var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Þar kynntu 80 einstaklingar störf sín, sem voru af mjög fjölbreyttu tagi, og um 700 nemendur mættu á kynninguna. Starfskynningin er afsprengi greiningarvinnu verkefnisstjóra á skólastarfi og þátttöku atvinnulífs í því og hugmyndar Kristjönu E. Guðlaugsdóttur, foreldris úr Akurskóla í Njarðvík, en Kristjana setti sig í samband við verkefnisstjóra síðastliðið haust og kynnti hugmyndir sínar um aukna starfsfræðslu í skólastarfi. Hún á þakkir skilið fyrir að hafa komið að máli við okkur með sínar hugmyndir. Starfskynningin gekk vonum framar og var einstaklega skemmtilegur viðburður sem vonandi verður árlegur héðan í frá. Mjög vel gekk að fá einstaklinga og fyrirtæki á Suðurnesjum til að taka þátt og kynna ólík störf sín á kynningunni og voru skólarnir á svæðinu mjög áhugasamir um uppákomuna og tóku virkan þátt í henni. Þá var ánægjulegt að sjá hversu mikla fjölmiðlaumfjöllun kynningin fékk hjá Morgunblaðinu, Fréttastofu Stöðvar 2 og Víkurfréttum.

Víkurfréttir hafa tekið virkan þátt í þróunarverkefninu með birtingu á Menntavagninum og eiga þakkir skilið fyrir það. Alls hafa nú þrjátíu greinar birst frá upphafi, sú fyrsta í lok september 2011, og fleiri bætast vonandi í hópinn eftir sumarfrí. Á vef Víkurfrétta http://vf.is/menntavagninn/ eru greinarnar aðgengilegar og þegar þær eru skoðaðar sést vel hversu metnaðarfullt og fjölbreytt skólastarf á Suðurnesjum er.

Við viljum þakka þeim kærlega fyrir sem hafa unnið með okkur og tekið þátt í verkefnum og uppákomum í tengslum við verkefnið um eflingu menntunar á Suðurnesjum. Viðtökur atvinnulífsins, menntastofnana og almennings á Suðurnesjum hafa verið frábærar. Þróunarverkefni líkt og það sem við vinnum að skilar ekki miklum árangri nema að allir leggist á eitt. Það hefur svo sannarlega verið raunin síðastliðið ár og verður vonandi áfram.

Gleðilegt sumar!

Hanna María Kristjánsdóttir og Rúnar Árnason
Verkefnisstjórar um eflingu menntunar á Suðurnesjum