Suðurnesjamaður ársins 2011

Guðmundur Stefán Gunnarsson, íþróttakennari og júdóþjálfari er maður ársins 2011 hjá Víkurfréttum. Guðmundur er aðeins 35 ára Njarðvíkingur og tók sig til á árinu og stofnaði júdódeild hjá Ungmennafélagi Njarðvíkur og hefur á þessum stutta tíma fengið yfir hundrað krakka og unglinga í deildina. Þau stunda íþróttina ókeypis og Guðmundur sinnir þjálfun við aðstæður sem ekki allir létu bjóða sér, í nær öllum sínum frítíma án þess að þiggja nokkur laun.

Guðmundur segir í viðtali við Víkurfréttir í tilefni af þessum tímamótum að júdóið hafi mjög jákvæð og góð áhrif á krakka og unglinga og þeir geti í raun lært heilmargt út frá hugmyndafræðinni í júdóinu. „Þú lærir að verja þig og taka á ósigri án þess að vilja hefna þín eða vera með leiðindi þrátt fyrir ósigur. Sjálfstraustið byggist upp hjá krökkum og maður sér þetta alveg greinilega. Krakkar sem lentu oft í árekstrum í skólanum hætta því nánast alveg eftir að hafa verið að æfa hjá okkur um tíma“, segir Guðmundur m.a. í viðtalinu.

Það er mjög virðingarvert þegar einstaklingar í okkar samfélagi taka upp á sitt einsdæmi, með viljann og áhugann einan að vopni, að sinna óeigingjörnu og ólaunuðu starfi með börnum og unglingum með svona frábærum árangri. Við tökum upp hatt okkar fyrir slíku fólki. Guðmundur er frábær fulltrúi ungmennafélagsandans sem er nauðsynlegur í samfélagi okkar sem hefur laskast mikið eftir bankahrun.

Við óskum Guðmundi til hamingju með þessa stærstu útnefningu Víkurfrétta á hverju ári. Hann er svo sannarlega vel að henni kominn.

Eins og alltaf þegar Víkurfréttir velja mann ársins koma nokkrir aðilar til greina. Allmargar ábendingar komu um einstaklinga, félög, fyrirtæki og stofnanir sem hafa staðið sig vel. Hér má minnast á framtak Suðurnesjamanna sem gerðu upp bifreið fatlaðs manns og gríðarlega öflugt starf hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Þessir tveir aðilar komu næstir Guðmundi í vali á Manni ársins á Suðurnesjum. Þessi útnefning hefur farið fram hjá Víkurfréttum síðan 1991 og er Guðmundur sá tuttugasti og fyrsti sem hlýtur nafnbótina en fyrsti sem varð fyrir valinu var Dagbjartur Einarsson, útgerðarmaður í Grindavík. Í fyrra var Axel Jónsson, veitingamaður í Skólamat valinn en hann stýrir ásamt fjölskyldu sinni framsæknu fyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð skólamatar og er með yfir 70 manns í vinnu.