Starfsbraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Starfsbraut er ein af mörgum brautum í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Námið á starfsbraut tekur allt mið af því að undirbúa nemendur undir atvinnuþátttöku, sjálfstæða búsetu og virka þátttöku í félagslífi og tómstundastarfi. Á haustönn 2012 stunda 42 nemendur nám á brautinni.

Í FS er áfangakerfi og því velja nemendur sér áfanga eftir áhugasviði og færni. Á starfsbraut eins og á öðrum brautum eru kjarnaáfangar sem allir nemendur brautarinnar taka og þar fyrir utan hafa þeir val um nám sitt.  Eitt af kjarnafögum brautarinnar er starfsnám. Í starfsnámi fá nemendur tækifæri til þess að kynna sér ýmis störf og mismunandi vinnustaði. Námið felur í sér að nemendur þjálfist í að beita mismunandi aðferðum og verklagi. Starfsnám fer fram í skóla og á vinnustað. Með því að tengja námið við vinnustaði öðlast nemendur oft aðra sýn á námið í skólanum og tilgangur námsins verður skýrari. Nemendur á fyrsta og öðru ári fara ýmist út á vinnustaði eða fá til sín gesti úr atvinnulífinu. Þess á milli fá þeir fræðslu um mismunandi starfsstéttir, vinnustaði, lög og reglugerðir. 

Nemendur á þriðja og fjórða ári fara í starfsnám í allt að 4-6 vikur. Það getur verið frá einni klukkustund í senn upp í 10-12 klst. á viku. Starfsnámið er aðlagað að hverjum og einum og tekið er mið af áhuga, færni og staðsetningu, þ.e. áhersla er lögð á að nemendum gefist kostur á að fara í starfsnám í sínum heimabæ. Þegar nemendur eru ekki úti á vettvangi er unnið með þætti sem tengjast atvinnuþátttöku. Á þessari önn eru t.d. nokkrir nemendur að vinna með börnum, s.s. í leikskólum, grunnskólum og við íþróttaiðkun. Því fá þeir fræðslu um þroska barna, samskipti við börn, þagnarskyldu, mismunandi uppeldisstefnur og fleira. Einnig er boðið upp á verklegt starfsnám í skólanum. Í lok annar búa nemendur til kynningar um starfsnám sitt, flytja þær og bjóða atvinnurekendum, aðstandendum og stjórnendum.

Kennarar á brautinni hafa verið virkir í þróunarstarfi og námsgagnagerð. Á þessu ári fengu undirritaðar styrk til námsgagnagerðar í starfsnámi en það er eins og áður kom fram ein af megin stoðum námsins á brautinni. Gaman er að segja frá því að nemendur taka virkan þátt í verkefninu, þ.e. með því að prufukeyra námsefnið og myndskreyta það. 

Gott samstarf er við margs konar fyrirtæki og vinnustaði á Suðurnesjum og sumir nemendur hafa staðið sig vel í starfsnáminu og fengið vinnu að námi loknu. Dæmi um vinnustaði sem nemendur hafa sótt eru, bæjarskrifstofur, bílaverkstæði, leikskólar, grunnskólar, íþróttamiðstöðvar, matvörubúðir, matsölustaðir, kaffihús og svo mætti lengi telja. Við leggjum mikla áherslu á að finna starf við hæfi fyrir hvern og einn og að það muni um framlag þeirra til vinnustaðarins.

Við erum afar þakklát þeim góðu viðbrögðum sem við höfum fengið frá fyrirtækjum hér á Suðurnesjum. Eins er alltaf gaman að fylgjast með þeim góðu áhrifum sem nemendur hafa haft á starfsandann innan fyrirtækjanna og að sjá að vinnuframlag þeirra getur virkilega skipt máli. Myndirnar eru af nemendum úti á starfsvettvangi.

Þórunn Svava Róbertsdóttir og Ásta Birna Ólafsdóttir