Rætur og vængir

Akurskóli er einstakur skóli í Reykjanesbæ. Hann er eini skólinn í bænum sem byggir á hugmyndafræði um opinn skóla. Skólinn stækkar ört og nú eru um 385 nemendur í skólanum og 54 starfsmenn. Okkar hlutverk sem störfum í skólanum er að hlúa að honum sjá hann vaxa, dafna og þróast. Það gerist ekki á einum degi og ekki einu sinni á einu ári.  Í haust tóku við nýir skólastjórar í Akurskóla. Með nýjum stjórnendum koma nýjar áherslur og mikilvægt er að hlusta á skoðanir og hugmyndir allra í skólasamfélaginu, raddir starfsmanna, raddir barnanna og raddir foreldra til að gera skólann enn betri. Uppeldi og menntun á að miða að því tvennu að kenna börnum að ná valdi yfir sjálfum sér og vekja það besta hjá hverjum og einum nemanda þannig að það verði honum gott veganesti út í hinn fjölbreytta heim nútímans.

Ný þrautabraut í Narfakotsseylu

Narfakotsseyla er sameiginlegt útikennslusvæði Akurskóla og leikskólanna Akurs og Holts. Uppbygging svæðisins hefur staðið yfir í langan tíma en nú er þar að finna skýli, vísi að eldstæði, bryggju, brú og bekki að ógleymdum staurunum sem bera hvítu seglin okkar. Það eru spennandi dagar framundan en vikuna 5. – 9. nóvember hefjumst við handa við að gera þrautabraut og varanlegt eldstæði á svæðinu.

Skipulagning Narfakotsseylu vísar í gamla atvinnuhætti og sjósókn á Suðurnesjum en svæðið er notað til kennslu í öllum námsgreinum. Á svæðinu er hægt að samþætta flestar ef ekki allar námsgreinar og það verður spennandi að sjá nemendur skunda á svæðið og nýta eldstæðið í heimilisfræði í framtíðinni eða spreyta sig í íþróttum í þrautabrautinni.

Comeniusarverkefnið – Children protecting the planet

Í haust hófst formlega samvinna sex skóla í sex löndum í Comeniusarverkefninu Children Protecting the Planet. Grunnskólarnir sem taka þátt í verkefninu auk okkar eru frá Frakklandi, Finnlandi, Póllandi, Spáni og Þýskalandi. Verkefnið felst í því að nemendur í þessum löndum vinna að verndun umhverfisins í sínum skóla og sinni heimabyggð. Verkefnin eru ólík eftir löndum og kennarar sem taka þátt í verkefninu hittast á misjöfnum stöðum í heiminum og vinna að sameiginlegum verkefnum. Þetta er spennandi viðfangsefni þar sem allur skólinn tekur þátt og tvinnar saman þau umhverfisverkefni og markmið sem við í Akurskóla höfum þegar sett okkur. Eitt af stærri verkefnum sem nemendur Akurskóla taka þátt í er hreinsun strandlengjunnar sem hefst núna í nóvember og er unnið í samvinnu við Bláa herinn.

Námsárangur

En það er ekki bara útikennsla og þróunarverkefni sem eru í gangi í Akurskóla. Í október fengu nemendur í 10. bekk niðurstöður samræmdra könnunarprófa og eru niðurstöðurnar afar jákvæðar fyrir skólann og samfélagið. Nemendur okkar eru yfir landsmeðaltali í ensku og stærðfræði sem er glæsilegur árangur.

Það eru spennandi tímar framundan í Akurskóla og við hlökkum til að takast á við öll þau fjölmörgu verkefni stór og smá sem bíða okkar í framtíðinni. Menntun er að okkar mati hinn andlegi uppvöxtur mannsins en ekki einungis búningurinn sem hlaðinn er utan um hann. Því er það einlæg von okkar og vilji að nemendur útskrifist frá Akurskóla annars vegar með sterkar rætur og hins vegar með vængi til að fljúga á vit ævintýranna með allar dyr opnar.

Sigurbjörg Róbertsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir og Helga Eiríksdóttir