Nýtt skólaár - ný tækifæri

Nú heldur Menntavagninn aftur af stað eftir gott sumarfrí. Á sama tíma er skólahald að hefjast um allt land og yfir 6.000 manns að hefja nám hér á Suðurnesjum í leikskólum, grunnskólum og framhaldsnámi. Um 300 börn útskrifuðust úr leikskóla síðasta vor og byrja grunnskólagöngu sína á næstu dögum. Sjálf á ég litla stelpu sem var að byrja í leikskóla nú í ágúst eftir mikla eftirvæntingu. Hún er í hópi ríflega 1.400 leikskólabarna á svæðinu. Tilhlökkunin er örugglega mikil á mörgum heimilum í upphafi nýs skólaárs enda rúmlega 3.000 nemendur alls í grunnskólum á Suðurnesjum. Í Fjölbrautaskóla Suðurnesja verða um 1.150 nemendur, sem gerir þetta skólaár að einu af þeim fjölmennari frá stofnun skólans. Þar af eru nýnemar í kringum 240 talsins. Í Keili verða um 600 nemendur á þessu skólaári. Þar af eru 124 að hefja nám á háskólabrúnni og 30 í BS námi í tæknifræði en þeir fyrstu til að ljúka því námi útskrifuðust síðasta vor, alls 15 nemendur sem hafa nú haldið til frekara náms eða út í atvinnulífið. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum býður meðal annars upp á undirbúning fyrir frekara nám í Grunnmenntaskólanum og Menntastoðum auk Skrifstofuskólans. Alls munu um 60 einstaklingar stunda nám í Menntastoðum, ýmist í stað-, dreifi- eða fjarnámi. Ætla má að einhverjir tugir einstaklinga muni skrá sig til náms í Grunnmenntaskólanum og Skrifstofuskólanum þegar þeir fara af stað nú á haustönn. Er þá ótalinn allur sá fjöldi fólks sem stefnir á þátttöku í einstökum námskeiðum og smiðjum hjá miðstöðinni. Hjá Fisktækniskólanum munu sjö einstaklingar stunda nám í vetur í fisktækninámi. Það skiptist í þrjár mismunandi námslínur sem eru góð viðbót við það sem fyrir er á svæðinu. Að auki býður skólinn upp á ýmis styttri námskeið bæði sem endurmenntun í sjávarútvegi og fyrir almenning.

Þessi fjöldi nemenda í framhaldsnámi á Suðurnesjum endurspeglar vel gróskuna í námsframboði á svæðinu og viðhorf Suðurnesjamanna til náms. Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Keilir hafa verið að koma vel út úr könnunum sem gerðar hafa verið á árangri útskrifaðra nemenda þegar komið er í háskóla og gaman er að segja frá því að tveir af fjórum nemendum sem hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur við útskrift úr Háskólanum í Reykjavík síðastliðið vor eru stúdentar frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Á síðastliðnu skólaári birtust alls þrjátíu greinar í Menntavagninum þar sem meðal annars var fjallað um það metnaðarfulla starf sem á sér stað í skólunum hér á svæðinu auk þess sem ýmis félagsleg úrræði voru kynnt. Þá var fjallað um niðurstöður kannana og rannsókna sem snúa að menntun og hafa verið gerðar hér á svæðinu auk umfjöllunar um athyglisverðar uppákomur í tengslum við þróunarverkefnið um eflingu menntunar á Suðurnesjum. Þróunarverkefninu lýkur formlega um næstu áramót en þangað til mun Menntavagninn ferðast á milli skóla og upplýsa lesendur um það áhugaverða starf sem þar á sér stað. Margar nýjar námsleiðir hafa farið af stað á meðan á verkefninu hefur staðið, enda skólar á svæðinu í sífelldri þróunarvinnu þegar kemur að námsframboði og úrræðum sem henta breiðum hópi nemenda. Þá eru ýmsar góðar hugmyndir varðandi námsframboð í skoðun sem verða vonandi að veruleika áður en langt um líður.

Rúnar Árnason, annar tveggja verkefnisstjóra, hefur látið af störfum til að sinna öðrum verkefnum og óska ég honum góðs gengis á nýjum vettvangi.

Hanna María Kristjánsdóttir
Verkefnisstjóri um eflingu menntunar á Suðurnesjum