Nýtt nám á Suðurnesjum hjá MSS

Síðasta ár var gjöfult fyrir Suðurnesin hvað varðar tónlist. Hljómsveitirnar Valdimar og Of Monsters and Men stimpluðu sig inn bæði hér heima og að heiman og söluhæsta plata ársins, Dýrð í dauðaþögn eftir Ásgeir Trausta var tekin upp og hljóðblönduð af Kidda í Hjálmum. Það sér því ekki fyrir endann á þeim áhrifum sem Hljómar höfðu á tónlistarlíf Suðurnesja.

Þessi mikli tónlistaráhugi hefur ýtt undir áhuga á upptökutækni og hljóðblöndun á svæðinu og því býður MSS upp á námsleið sem heitir Hljóðsmiðja.

Það er markmið Hljóðsmiðju að veita innsýn inn í  heim hljóðmannsins en þó helst starfsmanns í upptökuveri.  Þátttakendur fá að talsetja bíómyndir, stilla upp fyrir upptöku á lifandi tónlist, fullvinna upptökur og gera þær tilbúnar til flutnings. Unnin eru raunverkefni með tónlistarmönnum og hljómsveitum.  Að auki lærir þátttakandinn tækniheiti og fagmál og upplifir raunverulega vinnu hljóðmanns. Námsleiðin er unnin í nánu samstarfi við Geimstein og Stúdíó Sýrland. Námið fer af stað í febrúar og er skráning hafin. Takmarkaður fjöldi kemst inn í námið.
Eftir Hljóðsmiðju I og II hefur þátttakandinn fullnægjandi  bakgrunn til að geta sótt um í Hljóðtækninám Tækniskóla Íslands.

Það hefur varla farið fram hjá neinum árið 2012 að margir frægir kvikmyndaleikarar sóttu landið heim. Flestir komu til að vinna vinnuna sína en árið 2012 var metár í erlendum kvikmyndatökuverkefnum á Íslandi. Áframhaldandi verkefni fyrir erlend kvikmyndatökufyrirtæki  gera það að verkum að aukin eftirspurn er eftir starfsfólki í kvikmyndatökugeirann á Íslandi.

Því hefur MSS þróað nýtt nám sem ber nafnið Kvikmyndasmiðja. Kvikmyndasmiðja er hagnýtt nám þar sem námsmenn kynnast grunnþáttum kvikmyndagerðar, læra uppbyggingu handrits og þroska myndmál sitt. Markmið náms í Kvikmyndasmiðjunni er að námsmaður tileinki sér sjálfstæð og öguð vinnubrögð sem krafist er við kvikmyndagerð, lestur myndmáls, hljóðvinnslu og eftirvinnslu kvikmynda.
Megin áhersla er lögð á að námsmenn öðlist færni með námi gegnum vinnu, þannig að þeir afli sér þekkingar og leikni með vinnu sinni.  Námið fer af stað í febrúar og er skráning hafin. Takmarkaður fjöldi kemst inn í námið.

Námið er unnið í samstarfi við Stúdíó List og Kvikmyndaskóla Íslands. Eftir Kvikmyndasmiðju  I og II hefur þátttakandinn fullnægjandi  bakgrunn til að geta sótt um inngöngu í Kvikmyndaskóla Íslands.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum