Nýjar áherslur í grunnskóla

Ný aðalnámskrá
Ný aðalnámskrá hefur verið gefin út og á að vera komin að fullu í framkvæmd 2015. Meginmarkmið nýrrar námskrár er að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkja hæfni einstaklinga til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi.
Hlutverk grunnskólanna er að mennta nemendur sína fyrir nútíð og framtíð. Enginn veit hver framtíðin verður. Þó má leiða líkum að því að tæknin verður stór hluti af henni. Þáttur tækninnar er nú þegar farin að hafa töluverð áhrif á daglegt líf fólks, þar á meðal menntakerfið. Til að mynda er nú talað um nýja tegund læsis, stafrænt læsi, sem vísar til þeirrar kunnáttu sem fólk þarf að tileinka sér til þess að geta notað tölvu- og nettækni til samskipta og efnissköpunar. Tölvur og stafræn samskiptatækni eru víða ómissandi þáttur í daglegu lífi fólks og þykja sjálfsögð verkfæri í skólastarfi. Nemendur okkar eiga að öðlast hæfni til þess að afla sér upplýsinga, meta, gagnrýna og vinna úr þeim á skapandi hátt.
Starfsfólk Heiðarskóla er að vinna að innleiðingu nýrrar námskrár og í því sambandi hefur það sótt marga fyrirlestra um áhersluatriði námskrárinnar. Á dögunum fór hópurinn til Akureyrar að kynna sér útfærslu kennara Giljaskóla á nýrri nálgun á námsmati og hlusta á fyrirlestur í Háskólanum á Akureyri um lestur, sem bar heitið „Lestrarhestamennska, skyldu-íþrótt skólabarna“.

Ný nálgun á námsmat
Í aðalnámskrá segir að í námsmati grunnskóla skuli leggja mat á hæfni nemenda innan hvers námssviðs og einnig lykilhæfni sem er sameiginleg öllum námssviðum. Lykilhæfni byggir á grunnþáttum í menntun og áhersluþáttum grunnskólalaga. Hæfni eins og ábyrgð, dugnaður, seigla, samskipti og tjáning verða þungamiðjan í námsmatinu og þannig er hægt að fagna árangri út frá hverjum nemanda fyrir sig. Þrautseigja og dugnaður er eitt það mikilvægasta sem einstaklingur getur tileinkað sér, án þessara tveggja hæfniþátta er hætt við því að nemandinn missi tökin á sínu námi.

Spjaldtölvur í skólastarfi
Stærðfræðikennarar og náttúrufræðikennarinn á unglingastigi í Heiðarskóla hafa fengið iPad tölvur til að nýta í sinni kennslu. Með tilkomu spjaldtölva í kennslu fá kennarar tækifæri til að nýta tæknina, sem nemendur alast upp með og þekkja. Þá geta kennarar sett efnið fram á áhugaverðan hátt og skapað fjölbreytni í kennslu og vinnu nemenda. Allar innlagnir kennarans er hægt að vista og því möguleiki á að kalla þær fram til upprifjunar eða til að bæta við þær. Fyrsta skrefið var tekið á síðasta skólaári þegar tveir stærðfræðikennarar komu með sína eigin iPada til að nota í kennslu. Tækið reyndist góð viðbót við þá aðferðafræði sem stærðfræðikennarar Heiðarskóla hafa stuðst við undanfarin ár; að vinna með hugtök í gegnum leiðarbók, hugtakakort og úrlausnir verkefna. Kennarar hafa nýtt sér Mentor til að koma leiðarbókarfærslum til nemenda, sem voru ekki viðstaddir í tímanum. Þetta er ein útfærsla að „speglaðri kennslu“, þar sem nemendur fá innlögnina heima og vinnan fer fram í skólanum. Möguleikar til að búa til sín eigin kennslumyndbönd með iPad og þannig nýta þessa hugmyndafræði er svo sannarlega til staðar. En það þarf að stíga rólega til jarðar í þessum efnum og útfæra þetta þannig að þetta verði öllum nemendum til góða. Mikið er til af smáforritum sem nýtast í kennslu og gera kennsluna áhugaverðari og myndrænni.

Sköpun
Sköpun er veigamikill þáttur í öllu námi. Hún byggir á gagnrýnni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika. Vinnubrögð í listsköpun einkennast gjarnan af sköpunargleði, frumkvæði og frumleika og mikilvægt er að nemendur fái sem oftast tækifæri til að vinna slíka vinnu. Nú á haustönninni voru menningarstundir og þemadagar í Heiðarskóla, þar sem mikil sköpunargleði ríkti og nemendur skiluðu frábærri vinnu.

Ánægja af lestri
Það er margsannað að sterkt samband er á milli bóklesturs og árangurs í lesskilningi og námi. Ánægja af því að lesa bók hefur sterkustu tengslin við lesskilning. Rannsóknir sýna að börn sem lesa bækur daglega eru að jafnaði einu og hálfu skólaári á undan þeim, í lesskilningi, sem ekki lesa daglega. Stjórn á eigin árangri og ánægja af bóklestri er lykillinn að góðum námsárangri í íslensku hjá báðum kynjum.

Jákvæð umræða um skólastarf
Við berum öll ábyrgð á menntun nemenda okkar. Skólinn, foreldrarnir, nemandinn sjálfur og samfélagið. Það hlýtur því að vera samfélagsleg skylda okkar allra að skapa jákvæða umræðu um skólastarf og hlúa að því eins og kostur er. Að hvetja börnin okkar til að setja sér markmið, vera dugleg, leggja sig fram og gera alltaf sitt besta, er farsælasta veganesti sem við getum veitt börnunum okkar. Hrósum fyrir dugnað og þrautseigju en ekki fyrir greind, það eykur líkurnar á því að barnið verði leitandi í sínu námi og vilji takast á við erfið og krefjandi verkefni.

Mesti árangurinn byggist ekki á því að mistakast aldrei, heldur á því að gefast aldrei upp.
- Nelson Mandela

Haraldur Axel Einarsson, Ragnheiður Guðný Ragnarsdóttir, Sóley Halla Þórhallsdóttir og Gunnar Þór Jónsson, skólastjórnendur Heiðarskóla.