Njarðvíkurskóli í 70 ár

Njarðvíkurskóli var stofnaður árið 1942 og höldum við því upp á 70 ára afmæli skólans nú í ár með ýmsum hætti. Hafinn er undirbúningur að þemadögum í byrjun maí sem verða í tengslum við afmæli skólans. Búið er að fá leikstjóra til að setja upp leiksýningu með elstu nemendum skólans vegna afmælisársins og verður einnig unnið með nemendum á miðstigi í leikrænni tjáningu og hópefli.

Skólablaðið Njörður hefur komið út á hverju ári frá árinu 1962 og verður blaðið í ár veglegra vegna afmælisárs Njarðvíkurskóla og fimmtíu ára útgáfuárs blaðsins. Í ritstjórn eru nemendur á unglingastigi undir handleiðslu kennara.

Einkunnarorð Njarðvíkurskóla eru menntun og mannrækt. Skólinn leggur áherslu á lestrarnám á öllum stigum. Lestrarfærni og lesskilningur er undirstaða í öllu námi og í ár hefur aukin áhersla verið lögð á að efla lestur og lestrarkennslu í öllum árgöngum. Hefur í því sambandi verið útbúin lestrarstefna sem á að stuðla að því að gera lestrarnámið markvissara. Við gerum ráð fyrir að þjálfunin sé sameiginlegt verkefni skóla og heimilis og áherslur eiga að taka mið af stöðu nemandans hverju sinni. Skimanir eru notaðar til að meta stöðuna og til að taka ákvarðanir um framhaldið. Nú þegar greinum við miklar framfarir hjá nemendum sem tengja má beint við aukna þjálfun í lestri bæði heima og í skóla.

Í Njarðvíkurskóla hefur umhverfismennt og umhverfismál skipað stóran sess í skólastarfinu. Meginmarkmið með umhverfismennt er að auka þekkingu og virðingu nemenda fyrir umhverfi sínu og skapa jákvætt viðhorf nemenda og starfsmanna til umhverfismála. Skólinn er umhverfisvænn og státar af Grænfánanum frá árinu 2007 en hann er viðurkenning Landverndar. Á tveggja ára fresti þarf að endurnýja umsókn um fánann og er þá gerð úttekt á umhverfisstefnu skólans og framkvæmd hennar. Skólinn fékk Grænfánann afhentan í annað sinn í febrúar 2010 og stefnir að því að fá hann aftur nú í vor. Í skólanum er starfandi umhverfisnefnd sem samanstendur af nemendum, kennurum, foreldrum og öðru starfsfólki skólans. Gerðar hafa verið áætlanir um aðgerðir og markmið í umhverfismálum og umhverfissáttmáli settur fram. Einnig er staða umhverfismála metin, þannig að stöðugt eftirlit og endurmat er í gangi ár hvert. Okkur finnst mikilvægt að viðhalda fyrri stefnu og erum stolt af þeirri vinnu sem hér hefur verið unnin. Að auki er ætlunin að gera umhverfisvernd og markmið Njarðvíkurskóla í umhverfismálum sýnilegri í grenndarsamfélaginu. Næsta skref í þessum efnum er að tengja saman óhefðbundið nám og nærumhverfi með því að taka svæði í Grænásnum, Barnalund, í fóstur. Njarðvíkurskóli og leikskólinn Gimli hafa unnið saman að ýmsum sameiginlegum verkefnum og því var tilvalið að þessir tveir skólar leituðu til umhverfissviðs Reykjanesbæjar síðastliðið vor og óskuðu eftir því að fá þetta svæði til að hugsa um og efla frekara nám í umhverfismennt. Tekið var vel í þá beiðni og verkefnið styrkt af Skólaþróunarsjóði Reykjanesbæjar. Þetta svæði er áhugavert skólaþróunarverkefni sem snertir útinám og kennslu, þar sem börn geta lært, upplifað og leikið. Svæðið eflir útikennslu í skólanum og styrkir tengsl barna við náttúruna. Það mun opna nýja möguleika í kennslu í öllum námsgreinum, sem og fjölga kennsluleiðum, auka fjölbreytileika og stækka kennslurýmið. Nú fer fram undirbúningsvinna innan skólans en á vordögum byrjum við að nota svæðið til útikennslu. Árið 1990 gróðursetti Vigdís Finnbogadóttir fyrstu trjáplönturnar í Barnalund ásamt nemendum frá Gimli. Það er því afar kært að fá tækifæri til að vinna þetta verkefni í samvinnu við leikskólann Gimli.

Njarðvíkurskóli vinnur eftir heildstæðum stuðningi við jákvæða hegðun (PBS) sem er aðferð til að skapa gott andrúmsloft í skólanum ásamt því að tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni. Starfsfólk gefur jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræmir viðbrögð gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Viðhorf okkar fullorðnu til nemenda breytist þegar athyglin skal vera á því jákvæða í fari og hegðun hvers og eins og börnin læra að virða leikreglur þess samfélags sem skólinn er. Með því að fá nemendur til að haga sér á viðeigandi hátt þá næst frekar að kveikja hjá þeim þann áhuga sem þarf til að ná árangri í námi. Skólinn á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu, ábyrgð og vinsemd.

Ásgerður Þorgeirsdóttir, skólastjóri

Guðný Björg Karlsdóttir, aðstoðarskólastjóri.