Nemendur FS til fyrirmyndar

Oft hefur verið rætt um mikla drykkju unglinga hér á landi og vandamál því samfara. Til að kanna raunverulegt ástand þessara mála meðal framhaldsskólanemenda var gerð könnun í öllum framhaldsskólum landsins á vegum Rannsóknar og greiningar í febrúar, en sambærilegar kannanir hafa verið gerðar meðal grunnskólanemenda í nokkur ár. Kannanirnar sýna að verulegur árangur hefur náðst með samvinnu sveitarfélaga, foreldra og skóla og hefur dregið til muna úr reykingum, drykkju og notkun ólöglegra vímuefna meðal grunn- og framhaldsskólanemenda á Íslandi.

Það er ánægjulegt fyrir okkur í FS að geta vitnað í þessa könnun og bent á að ástandið hér er betra miðað við flesta aðra skóla á landinu. Það hefur dregið jafnt og þétt úr reykingum og neyslu áfengis og ólöglegra vímuefna. Það sem helst sker sig úr í okkar skóla er að notkun á munntóbaki er meiri hér en annars staðar á landinu. Einnig vekur athygli það viðhorf nemenda að þau telja að foreldrar sínir líti það ekki eins alvarlegum augum að þau séu farin að smakka áfengi í framhaldsskóla eins og í grunnskóla.
Þó að ástandið sé gott í okkar skóla þá má alltaf gera betur og við þurfum að taka höndum saman með forráðamönnum um að gera enn betur í þessum málum. Nánar má fræðast um þessa skýrslu frá Rannsókn og greiningu á heimasíðu skólans www.fss.is

Innritun eldri nemenda
Eitthvað hefur dregið úr atvinnuleysi hér á svæðinu undanfarið sem betur fer. Engu að síður eru allt of margir atvinnulausir á aldrinum 18 – 24 ára. Margir í þessum hópi hafa ekki lokið öðru en grunnskólaprófi og geta því ekki valið úr störfum sem krefjast framhaldsmenntunar. Í maí verður opið fyrir innritun þeirra eldri nema sem ekki voru í skóla á þessari önn á www.menntagatt.is. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem langar að bæta við sig menntun eða ljúka námi sem þeir hófu fyrir einhverjum árum, til að drífa sig í skóla.

Í FS er fjölbreytt nám við hæfi flestra. Fyrir þá sem vilja vera stutt í skóla er í boði starfsnám sem tekur eitt til tvö ár, inni í því er starfsþjálfun eða starfskynning á vinnustað. Stuttar starfsnámsbrautir eru t.d. ferðaþjónustubraut, tölvuþjónustubraut, heilbrigðis- og félagsþjónustubraut og verslunar- og þjónustubraut. Einnig er hægt að velja grunndeildir verknámsbrauta eða lengri verknámsbrautir eins og húsasmíði, rafvirkjun, málmsmíði, vélstjórn eða hárgreiðslu.

Einhverjir kunna að halda að nú sé ekki hægt að læra verknám því það sé svo lítið að gera. En þetta er einmitt rétti tíminn til að afla sér iðnréttinda til að vera tilbúinn með full réttindi þegar hjól atvinnulífsins fara af stað fyrir alvöru. Þeir sem lokið hafa starfs- eða verknámi geta bætt við sig viðbótarprófi til stúdentsprófs ef þeir vilja halda áfram í frekara nám. Sé stefnt á háskólanám er hægt að innrita sig beint á einhverja af þeim stúdentsbrautum sem í boði eru.

Fyrir þá sem eru óákveðnir er gott að hitta námsráðgjafa í FS. Þeir sem vilja byrja rólega og þreifa fyrir sér geta valið svokallaðar smiðjur á meðan þeir eru að finna sig aftur í náminu. Fjölbreytnin er mikil.
Þetta er tækifæri sem allir ættu að íhuga vandlega. Það er ljóst að sífellt er verið að gera meiri kröfur um menntun á hinum almenna vinnumarkaði og þá standa þeir betur að vígi sem eru með eitthvað nám að baki. Því miður er ekki víst að hægt sé að lofa öllum skólavist sem sækja um en vonandi sem flestum, því enginn veit hvort og þá hvenær svona tækifæri býðst aftur.