Námskynning á Suðurnesjum í dag

Í kjölfar skemmtilegrar starfskynningar sem haldin var fyrir grunnskólanemendur í byrjun febrúar verður nú haldin námskynning fyrir alla Suðurnesjamenn. Námskynningin verður í Stapa í dag, þriðjudag, 27. mars og stendur frá kl. 14:00-17:00. Þar munu framhaldsskólar, háskólar og símenntunarmiðstöðvar kynna námsframboð sitt fyrir Suðurnesjamönnum.

Hér er á ferðinni mjög gott tækifæri fyrir þá sem hafa hug á að fara í styttra eða lengra nám eða fyrir þá sem vilja kynna sér hvaða námsmöguleikar eru í boði. Kynningar af þessu tagi hafa venjulega ekki verið haldnar hér á Suðurnesjum en það var í fyrsta skipti gert, með þessu sniði, vorið 2011 í tengslum við átaksverkefnið Nám er vinnandi vegur. Sú kynning gekk í alla staði mjög vel og var vel sótt eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Nú verður leikurinn endurtekinn í Stapanum og er sérstök áhersla lögð á það að námskynningin er fyrir alla Suðurnesjamenn og hvetjum við fólk til að fjölmenna í Stapann. Þar verður ýmislegt spennandi að sjá því á kynningunni sameinast mismunandi skólastig: framhaldsskólinn, háskólinn og símenntun. Á staðnum verða bæði skólar hér af Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni að kynna starfsemi sína, námsframboð og félagslíf svo að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Þá verður einnig boðið upp á aðstoð við innritun í gegnum Menntagátt, sem þeir sem hyggja á framhaldsskólanám þurfa að fara í gegnum, auk þess sem hægt verður að fá upplýsingar um möguleika á námslánum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Á kynningunni verður allt til alls, á einum stað, til að gefa fólki góðar upplýsingar um styttra og lengra nám, lánamál, innritun og aðstoð við námsval verðandi námsmanna af Suðurnesjum.

Námskynning eins og þessi, sem og ný afstaðin starfskynning, eru stór liður í því að efla menntun og menntunarstig á Suðurnesjum og þar með auka atvinnutækifæri fólks til framtíðar. Vonumst við til þess að sem flestir Suðurnesjamenn nýti tækifærið og mæti í Stapann þriðjudaginn 27. mars til að kynna sér hvað er í boði.

Hanna María Kristjánsdóttir og Rúnar Árnason
Verkefnisstjórar um eflingu menntunar á Suðurnesjum