Námsframboð lagað að nemendahópnum

Fjölbrautaskóli Suðurnesja leitast við að laga námsframboð sitt að nemendahópnum frekar en nemendahópinn að námsframboðinu; enda er sjálfsagt að þeir framhaldsskólar sem þjónusta ákveðin svæði geri það. Vegna þess að FS er næst stærsti framhaldsskólinn utan höfuðborgarsvæðisins getur skólinn boðið upp á sérlega fjölbreytt nám.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja býður upp á eftirfarandi tegundir af námi: Almennt nám (1 ár), stutt (2 ár) og langt (3 – 4 ár) starfsnám, verknám/iðnnám (2 - 4 ár), stúdentsnám (4 ár) og nám fyrir fatlaða nemendur (4 ár); á samtals meira en 40 mismunandi brautum.

Nemendur sem ekki hafa fullnægt inntökuskilyrðum á framhaldsskólabrautir geta farið í ýmiskonar undirbúningsnám á almennar brautir, færnileiknibraut og námssmiðjur. Þar er hægt að stunda bæði bóklegt og verklegt nám. Sumir áfangar eru hreinn undirbúningur en aðrir geta nýst á ýmsum framhaldsskólabrautum.

Þeir sem stefna á háskólanám geta valið á milli fjögurra stúdentsbrauta þar sem megin áherslan er á bóklegt nám. Nemendur á stúdentsbrautum geta þó valið verklega áfanga ef þeir kjósa.  Þeim nemendum sem fá hæstar einkunnir í grunnskóla stendur til boða að fara á hraðferðarlínu þar sem nemendur geta tekið fleiri áfanga á hverri önn og ýmist útskrifast fyrr eða undirbúið sig betur fyrir frekara nám. Nemendur sem hafa valið verk- eða starfsnámsbrautir en vilja hafa möguleika á að fara í háskóla geta tekið viðbótarnám til stúdentsprófs.

Verknám (iðnnám) er það nám sem gefur mest réttindi á vinnumarkaði á sem stystum tíma en ef nemendur kjósa að ná sér í réttindi til að fara í háskóla geta þeir tekið viðbótarnám til stúdentsprófs. Þeir nemendur sem hafa meiri áhuga á öðru en bóknámi eða iðnnámi geta farið í lengra starfsnám og geta auðveldlega skipulagt nám sitt þannig að þeir taki einnig viðbótarnám til stúdentsprófs.

Nemendur sem vilja ekki  vera lengi í framhaldsskóla geta valið stuttar starfsnámsbrautir (2 ár) sem búa fólk undir störf á vinnumarkaði. Áfangarnir miðast við hagnýta kunnáttu og þekkingu og margir bóklegir áfangar miða að því að viðkomandi fög nýtist í daglegu lífi frekar en háskólanámi. Ef nemendur skipta um skoðun og vilja fara í lengra nám geta þeir skráð sig í annað nám, t.d. viðbótarnám til stúdentsprófs. Á sumum þessara brauta er vinnustaðanám sem ekki er aðeins  góð reynsla heldur eru dæmi um það að nemendur hafi sannað sig í starfi og verið ráðnir í kjölfarið.

Þeir nemendur sem þurfa einstaklingsmiðað nám vegna fötlunar geta farið á starfsbraut.  Nemendur á starfsbraut sækja áfanga sem eru aðlagaðir að hverjum og einum en einnig almenna framhaldsskólaáfanga eftir getu og áhuga.

Einn nýjasti námskosturinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja er afreksíþróttalína. Þar er létt undir með nemendum sem æfa íþróttir undir afreksíþróttaálagi með því að hluti af þjálfuninni fer fram á skólatíma og verulegur hluti af íþróttunum er metinn til eininga í námi.

Í Fjölbrautaskóla Suðurnesja er það fjölbreytt nám að flestir ættu að geta fundið sér þar eitthvað við hæfi og notið þannig þeirra þæginda að stunda skóla í heimabyggð. Þá sýna vandaðar rannsóknir á gengi nemenda í háskóla að nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja er fyllilega sambærilegt við það besta sem býðst á Íslandi.

Frá 11. mars til 12. apríl stendur yfir forinnritun í framhaldsskóla fyrir nemendur 10. bekkjar á: www.menntagatt.is.