Nám og leikur haldast í hendur

Leikskólinn Hjallatún var opnaður formlega þann 8. janúar árið 2001. Í leikskólanum eru að jafnaði um 88 börn og í kringum 23 starfsmenn. Á Hjallatúni er unnið með Fjölgreindarkenningu Howards Gardner. Kjarninn í kenningu hans er að hægt er að meta mannlega möguleika og hæfileika út frá breiðara viðmiði en áður hefur verið gert. Hann flokkaði greind manna í 8 flokka: málgreind, rök- og stærðfræðigreind, rýmisgreind, hreyfigreind, tónlistargreind, sjálfsþekkingar/tilfinningagreind, samskiptagreind og umhverfisgreind. Tveir gangar eru í leikskólanum, heimastofurnar á hvorum gangi vinna saman og mynda eina heild. Á Hjallatúni er unnið öflugt starf sem lýtur að þeim börnum sem eru að hefja sitt síðasta ár í leikskólanum. Það að fara í skólahóp er viss upplifun og jafnframt mikilvægt tímamótaskeið hjá hverju fimm ára barni. Kennarar sem hafa yfirumsjón með skólahópi hafa einsett sér að gera síðasta árið í leikskólanum skemmtilegt, krefjandi, lærdómsríkt og fullt af nýjum upplifunum. Kennarar nota ákveðin námsefni sem stuðst er við og leyfa sér að leika sér með það og móta að hverjum hópi fyrir sig. Það fer allt eftir því hvernig andinn í hópnum er hvernig við nálgumst efniviðinn. Einkunnarorð Hjallatúns eru leikurinn, lýðræði og samskipti. Börnin læra í gegnum leikinn, þau læra að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og eru í leikskólanum á sínum forsendum.

Á Hjallatúni byrjar skólahópastarfið í lok ágúst. Börnin upplifa sínu fyrstu skólahópatilfinningu þegar setning Ljósanætur fer fram. Öll börn á elstu deildum í leikskólum Reykjanesbæjar taka þátt í setningunni. Þetta hefur skapað vissa stemmningu þar sem æfð eru sérstök lög fyrir setninguna og þau fá líka sinn lit af blöðrum til að sleppa upp í himininn. Börnin finna fyrir mikilli vinsemd á þessari setningu þar sem þau hitta grunnskólanemendur á öllum aldri og allir eru spenntir fyrir þessum frábæru fimm ára börnum. Þátttaka barnanna á setningu Ljósanætur er fyrsta skrefið í samvinnu milli skólastiga á hverju skólaári.

Kennarar sem hafa yfirumsjón með skólahópunum skipuleggja sig vel og gera það á starfsmannafundum, skipulagsdögum og í undirbúningstímum. Mikilvægt er að vera vel undirbúinn, vera með fyrirfram ákveðna áætlun sem höfð er til hliðsjónar sem inniheldur fjöldann allan af skemmtilegu námsefni, námsefni eins og Markviss málörvun, Ótrúleg eru ævintýrin, Stig af Stigi sem fjallar um tilfinningar og að setja sig í spor annarra. Stærðfræði, listsköpun í öllu sínu veldi, vettvangsferðir, þar sem lögð er áhersla á nánasta umhverfi, umferðarreglur og hvernig við högum okkur í umferðinni. Einnig er söngur og tónlist mikilvægur þáttur leikskólastarfsins. Rauði þráðurinn í gegnum allt námsefni er leikurinn. Undanfarin fimm ár hafa kennarar tvinnað saman allt námsefni: Ótrúleg eru ævintýrin, Markvissa málörvun, stærðfræði og fleira inn í ákveðna ævintýrakennslu. Fundin er saga/ævintýri í byrjun vetrar sem er lesin mörgum sinnum. Tekin eru út orð sem vekja áhuga og spjallað um hvað þau merkja. Börnin fá að leika sér með orðin með því að skrifa, teikna og mála. Síðan er sagan sjálf skoðuð, hvernig við getum sett söguna upp í leikrit, hvernig leikmyndin gæti litið út, hvaða leikmuni við þurfum og hvaða búninga við getum saumað okkur í saumavél leikskólans. Við tvinnum söngva sem við þekkjum og kunnum inn í söguna, við lokum augum, hlustum á söguna og finnum út hvaða hljóð og tónlist við heyrum þegar lesin er sagan o.s.frv. Síðan má með sanni segja að hápunkturinn sé þegar börnin velja sér hlutverk og byrja að æfa hlutverkin sín í leikritinu. Þetta ferli er einstaklega spennandi og er verulega gaman að sjá hversu mikill lærdómur fer fram í þessu ferli. Börnin eru spennt, spenntari og spenntust þegar komið er að frumsýningardegi. Gaman er að segja frá því að ákveðin hefð hefur skapast á Hjallatúni í gegnum árin og hún er sú að öllum elstu börnum í leikskólum Reykjanesbæjar er boðið á leiksýningu í leikskólanum.  Stemmningin í kringum leiksýninguna er mikil og skemmtileg og bíða m.a. foreldrar og kennarar í öðrum leikskólum spenntir eftir að vera boðið á leiksýningu.

Leikskólinn Hjallatún á heimaskóla sem er Holtaskóli og má segja að einstaklega gott samstarf sé þar á milli. Mikilvægt er að skipuleggja gott samstarf því með þeirri samvinnu er stuðlað að öryggi og vellíðan barnanna við flutning á milli skólastiga og skapa samfellu í námi. Kennarar á báðum skólastigum sjá um að brúa bilið og skipuleggja heimsóknir á báða bóga. Skipulagðir eru um það bil fimm dagar á haustönn og einnig á vorönn en að sjálfsögðu er okkur frjálst að hittast oftar. Skólarnir skiptast á að heimsækja hvor annan og með því móti myndast ákveðin vinatengsl leikskólabarnanna við grunnskólabörnin og þegar kemur að því að þau hefja grunnskólagöngu sína er gott að þekkja andlit sem taka vel á móti þeim. Í þessum skólaheimsóknum í Holtaskóla fá börnin m.a. að hitta Jóhann Geirdal skólastjóra sem tekur vel á móti þeim og sýnir þeim skólann. Þau fá að taka þátt í kennslustundum með 1. bekk, fara í nestistíma, fara á bókasafnið, í tölvutíma og stundum fá þau að taka þátt í einum íþróttatíma. Fyrsti bekkur Holtaskóla kemur einnig í heimsóknir á Hjallatún og er það skemmtileg viðbót þar sem stutt er liðið síðan þau sjálf stóðu í þeim sporum sem leikskólabörnin standa í.

Með þessu góða samstarfi milli skólastiga og metnaðarfullu starfi leikskólans teljum við að nám og leikur haldist í hendur.

Kveðja, kennarar á Hjallatúni