Myllukrakkar á ferð og flugi í Danmörku

Þann 8. október 2012 fór 10. bekkur í Myllubakkaskóla í ferðalag til Danmerkur, að heimsækja danska krakka sem við höfðum verið að vinna með í ýmsum skemmtilegum verkefnum frá því í byrjun 10. bekkjar. Þessi hugmynd kom fram þegar við vorum í 9. bekk og þá sóttu kennararnir okkar um styrk til Nordplus. Við fengum svo jákvætt svar í júní 2012.

Við mættum öll ólýsanlega spennt á flugvöllinn klukkan 5 á mánudagsmorgni en fundum ekki fyrir þreytu vegna spennings. Ferðalagið gekk vel og þegar við komum til Aarup biðu krakkarnir okkar á lestarstöðinni, gleðin skein af þeim og þetta var þvílíkt gaman. Það tók okkur ekki langan tíma að kynnast krökkunum enda flest mjög opin og skemmtileg. Við fórum svo beint í skólann þar sem búið var að skipuleggja verkefni fyrir okkur. Að því loknu fórum við heim með dönsku krökkunum sem við áttum að gista hjá.

Á þriðjudeginum tókum við lest til Odense sem er u.þ.b. hálftíma frá Aarup. Við fórum á H.C Andersen safnið og á Fyns Kunstmuseum, svo fengum við að rölta um og spóka okkur í góða veðrinu. Á fimmtudeginum var verkefni dagsins að undirbúa veislu fyrir kvöldið sem var haldin í íþróttasal skólans. Okkur var skipt í hópa, sum okkar fengu það verkefni að elda mat fyrir kvöldið, aðrir að skreyta salinn og svo var margt fleira sem þurfti að koma í verk til að gera kvöldið sem skemmtilegast. Þetta heppnaðist allt saman mjög vel og það var gott að vinna með Dönunum þrátt fyrir að hafa aðeins þekkt þá í 3 daga. Kvöldið var skemmtilegt og það var mikið hlegið.

Tíminn var ofboðslega fljótur að líða og áður en við vissum af var vikan á enda og kominn föstudagur en þá var íþróttadagur skólans. Um morguninn mættu allir nemendur út á skólalóð og við hituðum upp með því að dansa við hið heimsfræga Gangnam Style lag sem var að slá í gegn á þessum tíma. Eftir hlaupið fórum við í bíó á danska mynd. Þessir dagar sem við eyddum með dönsku krökkunum og fjölskyldum þeirra voru mjög skemmtilegir og það var mikil reynsla fyrir okkur öll að vera inni á öðru heimili, í öðru landi og frá okkar foreldrum í heila viku. Við fengum að kynnast öðrum lifnaðarháttum og menningu þó svo að Danmörk sé ekki svo langt frá okkar litla Íslandi.

Við héldum til Kaupmannahafnar á laugardagsmorgni og okkur fannst erfitt að þurfa að kveðja krakkana, en við gátum huggað okkur við það að við sjáum þá aftur núna í maí á þessu ári. Það var ótrúlega gaman í Kaupmannahöfn. Á laugardagskvöldinu fórum við í Tivoli sem var rosalega gaman. Við eyddum sunnudeginum líka í Kaupmannahöfn, skoðuðum t.d. Litlu hafmeyjuna, konungshöllina o.fl. Ferðalagið heim gekk vel fyrir sig og við pössuðum öll upp á hvort annað, við erum heppin með kennara og samnemendur. Allt gekk upp og við erum endalaust þakklát fyrir allt sem hefur verið gert fyrir okkur. Ferðin okkar til Danmerkur var frábær frá upphafi til enda og skapaði ómetanlegar minningar sem við munum aldrei gleyma.

Anita Lind Fisher 10. UG
Rannveig Ósk Smáradóttir 10. ÞG