Mikilvægi samvinnu

Í störfum okkar hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS) fengum við haustið 2009 tækifæri til að taka þátt í tveggja ára Evrópuverkefni sem styrkt var af Leonardo menntaáætlun Evrópusambandsins. Forsagan að því var sú að FS hafði fengið Guðrúnu Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Intercultural Iceland (ICI) og sérfræðing í fjölmenningarlegri kennslu, til að halda erindi og síðan námskeið um fjölmenningarlegar kennsluaðferðir fyrir kennara skólans. Guðrún hefur haldið slík námskeið í mörgum grunnskólum víða um land og fyrir erlenda kennara sem koma hingað gagngert til að sækja námskeiðin, en FS var fyrsti framhaldsskólinn á landinu sem bauð sínum kennurum upp á það. Í kjölfar samstarfsins í kringum námskeiðið bauð Guðrún tveimur fulltrúum skólans að vera með í verkefninu en ICI var einn af þátttakendunum.

Í verkefninu tóku þátt auk Íslands skólar og menntastofnanir í Belgíu, Finnlandi, Frakklandi, Skotlandi og Tyrklandi. Brottfall nemenda úr námi er vandamál í öllum þessum löndum sem og annars staðar í heiminum, ekki síst hér á Íslandi. Markmið verkefnisins var að finna leiðir til að draga úr brottfalli, með áherslu á starfsnám. Á því tveggja ára tímabili sem verkefnið stóð yfir heimsóttu þátttakendur skóla og tengdar stofnanir í löndunum sex þar sem þátttakendur miðluðu fjölbreyttum leiðum til að draga úr brottfalli nemenda. Margar áhugaverðar leiðir voru kynntar. Afrakstur verkefnisins var í formi heimasíðu (http://serve.wikidot.com/) þar sem kennarar, náms- og starfsráðgjafar, skólastjórnendur og jafnvel foreldrar geta fengið leiðbeiningar við að greina nemendur í brottfallshættu, lista yfir mögulegar ástæður brottfallsins og hugmyndir að lausnum.

Það sem vakti helst athygli undirritaðra í þeim skólaheimsóknum sem fylgdu verkefninu voru námsleiðir sem settar höfðu verið upp fyrir einstaklinga sem hætt höfðu í skóla en sneru aftur einhverju síðar, ýmist eftir veru á vinnumarkaði eða í atvinnuleit. Í Frakklandi og Belgíu er verið að gera mjög áhugaverða hluti fyrir unglinga í brottfallshættu. Áhersla er lögð á sjálfsstyrkingu, verklega kennslu, listir og útiveru sem dæmi til að koma til móts við nemendur þar sem þeir eru staddir og hjálpa þeim að efla sjálfstraust, byggja sig upp og ná árangri. Í Bolu í Tyrklandi er boðið upp á verknám fyrir einstaklinga á öllum aldri sem starfa við einhvers konar iðn en hafa hætt í skóla og því ekki lokið neinu prófi. Námið er stundað samhliða vinnu og á 5 árum geta nemendur lokið iðnmeistaraprófi. Í tengslum við framhaldsskólann Winnova í Finnlandi er úrræði í boði fyrir atvinnuleitendur sem felur í sér verknám og ráðgjöf með mikilli persónulegri aðstoð í nokkurs konar vinnusmiðjum. Þetta hefur reynst góður stökkpallur frá því að vera atvinnulaus til lengri tíma og að fara aftur út á vinnumarkaðinn eða í nám. Í framhaldsskóla í Arbroath í Skotlandi var lögð áhersla á að aðbúnaður nemenda væri góður og að nemendum liði vel í skólanum. Jákvæð skilaboð blöstu við nemendum á veggjum og borðum skólans í stað boða og banna. Einnig var áhugavert að Skotarnir notuðu orðin student retention í jákvæðu merkingunni að halda í nemendur, í stað orðsins brottfall sem við erum vön hér á landi og venjulega er notað í neikvæðri merkingu. Áherslan er lögð á að halda sem flestum nemendum í skóla og að hafa hlutfall þeirra sem halda áfram og ljúka námi sem hæst, í stað þess að tala um fjölda þeirra sem hætta. Markmiðið er alltaf að halda sem flestum nemendum í námi.  

Í Fjölbrautaskóla Suðurnesja er sífellt verið að leita leiða til að koma til móts við alla nemendur með námi við hæfi og að draga úr brottfalli þeirra. Eitt af því sem við tókum með okkur úr heimsókninni frá Skotlandi var notkun Facebook við kennslu. Síðastliðið haust fengum við kennara frá Skotlandi sem hefur verið að nota Facebook til að halda kynningu fyrir kennara FS auk þess sem öllum grunnskólakennurum á Suðurnesjum var boðið að koma. Nú hafa nokkrir kennarar í FS notað Facebook í sinni kennslu í skemmri eða lengri tíma. Fyrstu vísbendingar gefa til kynna að árangurinn sé góður. Sem dæmi hafa samskipti batnað og utanumhald um nemendur aukist með notkun Facebook, sérstaklega í krefjandi hópum.

Samvinna og tengsl skóla hér á landi við menntastofnanir erlendis hefur miðað við okkar reynslu aðeins jákvæð áhrif á skólastarfið. Víðsýni bæði starfsfólks og nemenda eykst, nýjar hugmyndir kvikna og nýjar aðferðir lærast. Allt stuðlar þetta að fjölbreyttari kennsluháttum og skemmtilegri skóla.   

Guðmundur Grétar Karlsson, kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Hanna María Kristjánsdóttir, verkefnisstjóri um eflingu menntunar á Suðurnesjum