Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum er sjálfseignastofnun sem hefur sem markmið að efla sí- og endurmenntun Suðurnesjamanna. Starfsemi MSS er margþætt en rauði þráðurinn er að hjálpa einstaklingum að bæta við sig þekkingu og hjálpa þeim fyrstu skrefin í átt að meiri menntun. Starfsfólk MSS kappkostar að veita ráðgjöf og persónulega þjónustu til íbúa svæðisins og skapa umhverfi til náms þar sem einstaklingum líður vel.
Starfsemi MSS er hægt að skipta í nokkra þætti:

Námskeiðahald

MSS heldur fjöldann allan af námskeiðum á hverju ári. Fjölbreytt úrval tómstundanámskeiða eru í boði og eru námskeið í boði í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Lengri námsleiðir skipa mjög stóran sess í starfsemi MSS og margar námsleiðir hafa sannað tilgang sinn og eru í boði á hverri önn. Má þar m.a. nefna Menntastoðir sem er undirbúningsnám fyrir þá sem vilja fara í Háskólabrú Keilis eða frumgreinadeildir háskólanna. Grunnmenntaskólinn hentar vel fyrir þá sem vilja efla sig áður en þeir fara í framhaldsnám og Aftur í nám sem er nám fyrir lesblinda sem vilja styrkja sig. Fjölbreytt úrval er einnig af starfstengdu námi s.s. fyrir skrifstofufólk, ferðaþjónustu, starfsfólk á leikskólum, umönnun, Svæðisbundið leiðsögunám, tölvunám o.s.frv.

MSS hefur á undanförnum árum komið reglulega með nýtt námstilboð og það nýjasta eru svo kallaðar smiðjur. Smiðjurnar eru allar 120 kest. að lengd en innihaldið er misjafnt. Þær smiðjur sem eru í boði núna eru Grafísk hönnun, Hljóðsmiðja sem unnin er í samstarfi við Geimstein, Kvikmyndasmiðja unnin í samstarfi við Studio List og Umhverfissmiðja í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands. Smiðjurnar eru verklegar og henta því vel þeim sem vilja síður fara í bóklegt nám. Einnig eru fleiri smiðjur í boði í samstarfi við Vinnumálastofnun s.s. Textílsmiðja, Matarsmiðja, Gólfefnasmiðja, Járn- og trésmiðja og Kaffi og barþjónanámskeið.

Náms- og starfsráðgjöf

MSS býður upp á náms- og starfsráðgjöf fyrir einstaklinga. Þessi þjónusta stendur öllum opin og án kostnaðar. Þeir sem eru að velta fyrir sér hvert þeir eigi að stefna eru sérstaklega hvattir til að panta sér tíma.

Náms- og starfsráðgjafi getur veitt:
- upplýsingar um nám og störf
- aðstoð við að kanna áhugasvið og hæfni (áhugasviðsgreining)
- upplýsingar um mögulegar námsleiðir og styrki
- aðstoð við að setja markmið og útbúa námsáætlun
- tækifæri til að setjast niður með hlutlausum aðila og skoða stöðu sína almennt

Þjónusta við fyrirtæki

MSS býður fyrirtækjum og stofnunum upp á þjónustu í málefnum sem tengjast starfsþróun starfsmanna þeirra. Haft er að leiðarljósi að sníða þjónustuna að þörfum hvers og eins. Sem dæmi um þjónustu má nefna:

- Skipulagning á styttri og lengri námskeiðum fyrir stofnanir og fyrirtæki.
- Þarfagreining meðal starfsmanna fyrirtækis/stofnunar.


Þjónusta við útlendinga
MSS býður upp á íslenskunámskeið I-V fyrir útlendinga. Einnig er boðið upp á Landnemaskóla þar sem kennd er íslenska, tölvu- og upplýsingatækni og samfélagsfræðsla. Einnig er öflug ráðgjöf fyrir Pólverja og í boði nokkur námskeið á pólsku.

Fjarnám á háskólastigi
Fjarnám er vinsæll kostur þegar einstaklingar ákveða að fara í nám. Hægt er að stunda fjarnám við ýmsa háskóla og framhaldsskóla. MSS býður fjarnámsnemendum upp á góða aðstöðu til náms. Fjölmargir fjarnemar útskrifast á hverju ári frá Háskólanum á Akureyri í hjúkrunarfræði, viðskiptafræði, leik- og grunnskólafræði o.s.frv.

Fríir fyrirlestrar og allir velkomnir
MSS býður reglulega upp á fría fyrirlestra og sem dæmi er fyrirhugað námskeið í markmiðasetningu í Reykjanesbæ og fyrirlestur með Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur í Grindavík. Starfsfólk hvetur alla til að kíkja við hjá MSS í Krossmóa eða á Víkurbrautinni í Grindavík og kynna sér starfsemina.

Guðjónína Sæmundsdóttir
Forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum

Dæmi um námsleiðir: Svæðisbundið leiðsögunám
Kvikmyndasmiðja
Grafísk hönnun
Hljóðsmiðja
Skrifstofuskólinn
Tölvunám