Menntun og mannrækt

Háaleitisskóli á Ásbrú tók til starfa haustið 2008 og er nú á fimmta starfsári. Í skólanum eru 135 nemendur í 1. - 7. bekk. Háaleitisskóli er útibú frá Njarðvíkurskóla en rekinn sem sjálfstæður skóli með eigin hefðir og skólamenningu. Ásgerður Þorgeirsdóttir er starfandi skólastjóri Háaleitisskóla og Njarðvíkurskóla en Anna Sigríður Guðmundsdóttir er aðstoðarskólastjóri Háaleitisskóla og sinnir daglegum rekstri skólans.
Skólinn er á fyrsta framkvæmdarári í Heildstæðum stuðningi við jákvæða hegðun (PBS) og eru einkunnarorðin ÁBYRGÐ – SAMVINNA – TILLITSEMI. Heildstæður stuðningur er árangursríkt stjórnunartæki sem reynist öllum nemendum vel og líka þeim sem hættir til hegðunarvandamála. PBS er inngrip vegna hegðunar einstakra nemenda, bekkja og skóla í heild og samvinnu við fjölskyldur. Kerfið byggist á stuðningi handa öllum nemendum skólans. Verkefnið byggist á því að skólasamfélagið setji fram skýrar reglur um æskilega hegðun á viðeigandi svæðum og nemendum eru kenndar væntingar til hvers svæðis fyrir sig. Heildstæður stuðningur við jákvæða hegðun byggist á samvinnu og samskiptum allra starfsmanna skólans. Settar eru skýrar reglur um afleiðingar óæskilegrar hegðunar og aðgerðir starfsfólks við að styrkja jákvæða hegðun nemenda. Nemendum eru kenndar reglur og væntingar fyrir hvert svæði skólans og sýnileg umbun notuð til að styrkja æskilegu hegðunina með svokölluðum hrósmiðum. Lögð er áhersla á gagnasöfnun til að meta árangur verkefnisins og til að vinna jafnvel frekar með þau svæði sem nemendur hafa ekki náð að tileinka sér viðeigandi væntingar fyrir.
Í Háaleitisskóla eru starfandi metnaðarfullir og áhugasamir kennarar sem hafa að leiðarljósi að koma til móts við þarfir nemenda skólans. Einkunnarorð skólans, menntun og mannrækt, eru höfð að leiðarljósi í öllu starfi skólans. Skólastarfið er fjölbreytt og skemmtilegt, gert til að höfða til nemenda skólans og virkja áhuga þeirra á námi.