Menntun í sjávarútvegi – Nýr skóli

Fisktækniskóli Íslands fær viðurkenningu
Þann 20. júlí síðastliðinn fékk Fisktækniskóli Íslands í Grindavík formlega viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem skóli á framhaldsskólastigi. Þannig hefur margra ára þróunarstarf fræðsluaðila, sveitarfélaga og hagsmunaaðila í sjávarútvegi á Suðurnesjum nú skilað sér í formlegri viðurkenningu menntamálaráðuneytisins og hefur Fisktækniskólinn nú sambærilega stöðu og aðrir framhaldsskólar – nema hvað áherslan er á grunnmenntun í sjávarútvegi og tengdum greinum.

Sérskóli á sviði sjávarútvegs og tengdum greinum
Skólinn er í eigu sveitarfélaga, fræðsluaðila auk stéttarfélaga og fyrirtækja í sjávarútvegi á Suðurnesjum. Fisktækniskólinn hefur verið í undirbúningi frá 2007 og hann er fyrsti framhaldsskólinn á landinu sem hefur að markmiði að bjóða eingöngu upp á sérhæft nám á þessu skólastigi. Skólinn hefur einnig verið öflugur á sviði endurmenntunar og boðið upp á fjölda starfstengdra námskeiða. Markmið stofnenda er að auka veg og virðingu menntunar í sjávarútvegi ásamt því að auka framboð á starfstengdu námi.  
Frá vorönn 2010 hefur skólinn tilraunakennt hluta námsefnisins sem verið var að þróa og hafa hátt í 50 nemendur tekið þátt í þessu verkefni. Mikil ánægja var með námið – bæði meðal þátttakenda og fyrirtækja sem tóku við nemendum í starfsþjálfun. Vinnumálastofnun kostaði námið framan af en verkefnið var síðan fært undir menntamálaráðuneytið árið 2011 sem liður í átaksverkefni fyrir Suðurnesin. Gerður var sérstakur samningur um tilraunakennslu síðla hausts 2011 til tveggja ára. Þar sem sá samningur lá ekki fyrir fyrr en flestir skólar höfðu hafið starfsemi voru færri þátttakendur í tilrauninni en stefnt var að.

Á grundvelli samnings um tilraunakennslu stunda nú 7 nemendur nám í skólanum á öðru ári. Stefnt er að því að taka inn 12 nemendur í janúar á næsta ári og er byrjað að innrita fyrir haustið 2013.

Nýjar leiðir í starfsmenntun
Námið er tveggja ára vinnustaðatengt grunnnám á sviði veiða (sjómennsku), vinnslu og fiskeldis samkvæmt viðurkenndri námskrá og lýkur með framhaldsskólaprófi. Námið er afar hagnýtt og ljúka nemendur meðal annars réttindanámi til smáskipa, lyftara auk fjölmargra hagnýtra áfanga tengdum sjávarútvegi. Fyrri önn hvers námsárs fer fram í skóla og sú síðari á vinnustað. Námið er þannig bæði góður valkostur fyrir þá sem vilja styrkja sig á vinnumarkaði og ná í góða menntun í leiðinni. Skólinn leggur mikla áherslu á að koma til móts við áhugasvið og þarfir hvers nemanda. Reynslan sýnir að góður félagsandi og jákvætt viðmót er grundvöllur að góðum árangri og vellíðan í skóla. Vettvangsferðir og raunhæf verkefni eru mikilvægur þáttur í náminu.

Fisktækniskólinn er orðinn mjög umfangsmikill á sviði endur- og símenntunar og hafa yfir fimm hundruð starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja um land allt sótt námskeið sem hafa ýmist verið skipulögð af skólanum einum og sér eða í samstarfi við fræðsluaðila víða um land.

Mikið framundan
Störf í sjávarútvegi hafa tekið miklum breytingum síðustu árin og ólíku saman að jafna þegar borin eru saman störf í frystihúsum í gamla daga og störf í þeirri háþróuðu matvælaframleiðslu sem einkennir greinina í dag. Til þess að mæta þörfum fyrirtækja þarf sífellt að leita nýrra leiða í menntun og þjálfun starfsmanna og tekur skólinn virkan þátt í þeirri þróun. Unnið er að útfærslu tveggja nýrra námsbrauta. Önnur brautin er unnin í samstarfi við MAREL og miðar að því að þjálfa fólk til starfa á hinar fjölbreyttu iðnaðarvélar fyrirtækisins. Hin brautin tengist gæðastýringu, en mikil eftirspurn er eftir fólki með þá menntun. Stefnt er að því að bjóða upp á þetta nám á næsta ári.

Fisktækniskólinn býður upp á stutt, skemmtilegt og hagnýtt einingabært nám sem opnar fjölda möguleika í vel launuð störf í sjávarútvegi auk möguleika á framhaldsnámi að loknu grunnnámi.

Myndir úr starfi Fisktækniskólans.