Menntavagninn: Grunnskóli Grindavíkur

Spurningakeppni á miðstig - barnabókmenntir

Í Grunnskóla Grindavíkur er nú í þriðja skipti haldin spurningakeppni á miðstigi í anda þeirra spurningaþátta sem notið hafa vinsælda í fjölmiðlum undanfarin ár.  Þema keppninnar er barnabókmenntir.

Markmið spurningakeppninnar eru að auka lestraráhuga; að gera þeim hátt undir höfði sem eru duglegir að lesa - að þeir geti upplifað sig sem sigurvegara eins og í hverri annarri íþrótt og síðast en ekki síst að hafa það gaman saman.  Þessi markmið þykja einnig falla vel að markmiðum aðalnámskrár í upplýsinga- og tæknimennt en þar kveður á um að nemendur á miðstigi eigi að hafa fengið reglulega lánaðar bækur og önnur gögn á skólasafninu sem styðja nám og lesskilning og hafa mótað lestrarvenjur og þekkingarleit til framtíðar, þeir eiga jafnframt að þekkja nokkuð til helstu íslenskra og erlendra barnabókahöfunda og verka þeirra (Aðalnámskrá, upplýsinga- og tæknimennt, 2007).

Spurningakeppnin skiptist í fjóra hluta.  Fyrst eru hraðaspurningar sem koma úr ýmsum áttum og skiptir þá máli að hafa verið duglegur að lesa gegnum tíðina því ekki er hægt að undirbúa sig sérstaklega fyrir þennan þátt.  Þar á eftir vísbendingaspurningar sem reyna á almenna þekkingu barnanna í heimi skáldverka ætluðum börnum – þar er spurt um höfunda, bókartitla, persónur og fleira.  Síðan eru ágiskunarspurningar en þá velur liðið einn leikara og snýst þessi liður um að leika orð sem geta verið nafnorð, sagnorð eða lýsingarorð og á liðið að reyna að ná sem flestum réttum orðum á einni mínútu.  

Þá koma valflokkarnir sem eru fjórir – það eru þrjár spurningar úr hverjum flokki sem gefa eitt, tvö og þrjú stig.  Í ár fengu börnin í fjórða, fimmta og sjötta bekk lista  af bókum eftir fjóra íslenska rithöfunda fyrir sumarfríið og gátu þar af leiðandi nýtt sumarið til undirbúnings.   Í valflokkaspurningunum er líka gefinn sá möguleiki að spyrja bekkinn sinn en vel hefur tekist til með að virkja bekkjarfélagana þannig að þau taki þátt og kynni sér bækurnar og höfundana þar sem þeir eiga að styðja liðið sitt og reynslan er að þar sem bekkurinn fylkir sér bak við liðið er árangurinn bestur.

Að baki svona keppni liggur mikil vinna og leggjast allir á eitt, kennarar og starfsfólk, til að gera hana sem skemmtilegasta.  Erum við í Grunnskóla Grindavíkur einstaklega heppin með hópinn sem leiðir þetta verkefni.

Keppnin sem fram fór fyrir áramót var mjög spennandi og voru það nemendur í 5-K og 5-S sem öttu kappi í úrslitaviðureigninni.  5-K stóð uppi sem sigurvegari og var haldin sameiginleg sigurhátíð hjá báðum bekkjum að lokinni keppni.  Þar buðu nemendur bekkjanna ásamt kennurum upp á dýrindis krásir og sýndu þar í verki að allir sem tóku þátt í keppninni voru í raun sigurvegarar.

Sáttmáli gegn einelti - Jákvæð samskipti

Allir nemendur Grunnskóla Grindavíkur skrifuðu undir sáttmála gegn einelti og tóku þátt í umræðu um jákvæð samskipti í desember.  Pálmi Ingólfsson skólastjóri mætti á sal í Hópsskóla,  Róbert Ragnarsson bæjarstjóri og Nökkvi Már Jónsson sviðsstjóri félagsþjónustu- og fræðslusviðs mættu á sal í grunnskólanum með nemendum á miðstigi og unglingastigi.

Nemendur rituðu einnig nafn sitt undir sáttmálann á blað sem verður stækkað upp með sáttmálanum gegn einelti og hengt upp á áberandi stað í báðum skólum núna í janúar. Í framhaldi fengu allir nemendur grunnskólans afhent gult armband með áletruninni „jákvæð samskipti”.  Armbandið á að minna á það að framundan eru tímar friðar og jákvæðra samskipta í Grindavík.  Ef einhver gleymir sér er gott að hafa armandið til að minna á hversu mikilvægt er að hafa þessa þætti í lagi.

Meginmarkmið með þessari aðgerð er að fylgja eftir útgáfu á bæklingi um einelti sem gefinn var út í Grindavík og síðast en ekki síst vekja samfélagið til umhugsunar um þessi mál og fá opna umræðu um eineltismál almennt og hvetja til samstöðu í jákvæðum samskiptum.

Friðarganga í Grindavík

Skapast hefur hefð í Grindavík í desember þar sem allir nemendur í leikskólunum og grunnskóla fara í sameiginlega friðargöngu um aðalgötu bæjarins.  Markmið göngunnar er að efla samkennd og samhug með því að boða jákvæðni, gleði og kærleika í samfélaginu.  Gengið er fylktu liði frá hverjum skóla að Landsbankatúninu.  Þegar þangað er komið taka allir þátt í því að mynda friðarhringi á túninu.  Sr. Elínborg flytur stutt friðarávarp og síðan er örstutt þögn þar sem hver og einn upplifir friðinn í sjálfum sér.  Að lokum syngja allir  Bjart er yfir Betlehem við undirleik Renötu, kennara við Tónlistarskólann í Grindavík. Að loknum söng fer hver hópur til síns skóla.  Elstu nemendur grunnskólans aðstoða við að klæða og leiða yngstu borgarana af leikskólunum og fylgja þeim aftur í sinn leikskóla.  Leikskólarnir bjóða upp á heitan drykk þegar komið er til baka.   Slökkt er á allri götulýsingu og göngufólk mætir með vasaljós og lýsa enn fremur upp skammdegið með innri birtu.  Gaman er að segja frá því að foreldrar og aðrir bæjarbúar taka virkan þátt í friðargöngunni sem þótti takast með afbrigðum vel að þessu sinni.

Pálmi Ingólfsson skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur.