Markviss vinna skilar árangri

Njarðvíkurskóli hefur unnið markvisst eftir lestrarstefnu sem unnin var af deildastjórum skólans frá hausti 2011. Stefnuna hafa deildastjórar kynnt í öðrum skólum á svæðinu og hefur samstarf milli skólanna aukist til muna. Má þar nefna samstarfsverkefni sem fellur undir lestrarstefnuna og eru allir skólar sem heyra undir Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar þátttakendur í því.

Þar sem færni í lestri er undirstaða fyrir allt nám leggur Njarðvíkurskóli áherslu á lestrarkennslu á öllum stigum skólans. Við álítum að þó nemendur hafi náð grunntækni í lestri þurfi þeir að halda áfram að bæta sig í þessu mikilvæga fagi. Að vinna með lestur er ferli sem þarf að vera í sífelldri endurskoðun og kennslan þarf þess vegna að taka mið af því sem reynist farsælast hverju sinni.

Veturinn 2011-2012 var áhersla lögð á hraðlestur í öllum árgöngum skólans. Þjálfun í hraðlestri er sameiginlegt verkefni skóla og heimilis en sérstök áhersla er á heimalestur. Hver nemandi setur sér ákveðin markmið sem hann vinnur að með aðstoð kennara og foreldra til að komast sem næst viðmiðum skólans eða yfir þau.
Á þessu skólaári er áfram unnið að því að efla hraðlestur en að auki er veruleg áhersla á lesskilning. Til að öðlast góðan skilning á texta er ekki nóg að lesa mikið. Það þarf einnig að beita markvissum lesskilningsaðferðum og í lestrarstefnu Njarðvíkurskóla kemur fram að lesskilningur skuli kenndur með mismunandi aðferðum og sérstök áhersla lögð á eftirfarandi þætti: Vönduð efnistök, einföld framsetning og fjölbreytni.

Til þess að fylgjast með framförum nemenda eru hrað- og lesskilningskannanir lagðar fyrir nemendur með jöfnu millibili yfir veturinn. Í lestrarstefnunni er nákvæmlega útlistað hvaða kannanir skulu lagðar fyrir hvern árgang og hvenær, yfir allt skólaárið.  Þetta er gert til að kanna hvort nemendur nái þeim viðmiðum sem skólinn hefur sett fyrir hvern árgang. Þeir nemendur sem ekki ná settum viðmiðum fá einstaklingsáætlun í hrað- og/eða lesskilningi sem er svo endurskoðuð reglulega út frá niðurstöðum næstu könnunar. Allar niðurstöður könnunarprófa eru færðar í gagnagrunn þar sem þær eru varðveittar og er því auðvelt að fylgjast með árangri hvers og eins nemanda á skólaárinu og á milli árganga alla skólagönguna.  
Auk hefðbundinna hrað- og lesskilningsprófa eru ýmiss önnur matstæki (skimanir) notuð til að hjálpa kennurum að koma auga á vísbendingar sem mögulega gætu bent til lestrarörðugleika hjá einstaka nemendum með það að leiðarljósi að taka á hugsanlegum vanda áður en hann verður að vandamáli (snemmtæk íhlutun). Allar þessar skimanir eru staðlaðar og sýna því árangur á milli ára eða tímabila hjá hverjum og einum nemanda. Fyrst og fremst eru þessar skimanir hugsaðar til þess að vinna markvisst með veikleika og styrkleika hvers og eins.

Niðurstöður kannana og skimunarprófa sýna að þessi markvissa vinna eftir lestrarstefnunni hefur skilað betri og skilvirkari árangri í lestri og lesskilningi á milli ára hjá allflestum nemendum. Nemendum sem ekki hafa náð viðmiðum í lestri og lesskilningi hefur fækkað verulega milli ára og þurfa því töluvert færri einstaklingsáætlun til að efla færni í lestri og lesskilningi. Þessu má þakka markvissri lestrar- og lesskilningskennslu, jákvæðum nemendum, samstíga kennarahópi og áhugasömum og hvetjandi foreldrum. Þá hefur nákvæm skráning á árangri og eftirfylgni haft sitt að segja. Nemendur, kennarar og foreldrar eru afar ánægðir með þann árangur sem hefur áunnist.

Njarðvíkurskóli náði sögulegum árangri á samræmdum prófum í ár og eins og fram kemur í inngangi er lesturinn undirstaða alls náms og teljum við að sú mikla vinna sem unnin er eftir lestrarstefnunni sé að byrja að bera þann árangur sem stefnt er að. Ætlunin er að halda ótrauð áfram og ná enn betri árangri á öllum sviðum skólastarfsins.

Lestu meira-lestu betur!

Drífa Gunnarsdóttir
Helena Rafnsdóttir
deildastjórar Njarðvíkurskóla