Listdansskóli Reykjanesbæjar í Lundúnum

Ellefu stúlkur á aldrinum 13-18 ára sem stunda nám á listdansbraut hjá Bryn Ballett Akademíunni, eru nýkomnar heim úr sjö daga dansæfingaferð sem farin var til Lundúnaborgar. Einn kennari skólans var með í för, Auður Bergdís Snorradóttir auk Bryndísar Einarsdóttur, eiganda og skólastjóra skólans, og Daniel Coaten sem voru fararstjórar. Undirbúningur ferðarinnar var fjáröflunarsöfnun síðastliðið ár. Þær héldu dans maraþon og söfnuðu áheitum, seldu blóm, lakkrís, páskaegg og margt fleira.

Flestir nemendurnir höfðu aldrei komið til Lundúna, né farið í neðanjarðarlest eða rauðan strætó, sem þeim þótti gífurlega spennandi. Við héldum til í stóru húsi sem við leigðum, yfir 100 ára gamalt hús á þremur hæðum frá Viktoríutímabilinu. Farið var í allskonar danstíma í tvo dansskóla, Pineapple Dance Studios og Danceworks. Þar var t.d. farið í klassískan ballett, djassdans, hip-hop, burlesque og Duncan dans. Þá var farið á danssýningar og söfn, kíkt í dansbúðir, gengið um miðbæ Lundúna og fleira.

Við sáum sýningu hjá Mikhailovsky ballettflokknum frá Pétursborg sem er einn sá besti í heiminum. Þau sýndu klassíska ballettverkið Giselle og spilaði rússneska sinfóníuhljómsveit Mikhailovsky leikhússins undir. Við fórum í Ripley´s Believe It or Not safnið sem er fullt af ótrúlegum sögum sem erfitt er að trúa. Madame Tussauds vaxmyndasafnið geymir fjöldann allan af vaxmyndum af þekktu fólki, kvikmyndastjörnum, forsetum, íþrótta- og poppstjörnum. Alveg meiriháttar safn og gaman að fara þangað. London Eye var líka skemmtileg upplifun, að geta séð yfir alla Lundúnaborg, Big Ben, Westminster og ánna Thames. Hópurinn fór á heimsfræga söngleikinn Chorus Line, sem upprunalega var settur upp á Broadway. Skemmtileg sýning með líflegum djassdönsum og frábærum leik- og söngvurum.

Dansferðin var tóm gleði og hamingja og mikil upplifun fyrir nemendurna. Þetta er dásamlegur hópur af hæfileikaríkum, duglegum og skemmtilegum stúlkum. Það var sérstaklega dýrmætt að sjá samheldni þeirra og hópefli, í því að takast á við ný viðhorf og upplifanir sem voru fyrir utan þægindasvæðið þeirra. Þær voru tilbúnar að læra, meta og tileinka sér ný sjónarmið. Umfram allt, þá náðu þær framförum í dansinum sem var markmiðið með þessari ferð og fengu þar af leiðandi enn meira sjálfstraust. Þær fundu allar til gleði og samkenndar í hópnum, skemmtu sér vel, voru jákvæðar og nutu hverrar mínútu við að vera til í útlöndum. Við upplifðum frábærar stundir og berum með okkur í hjartanu stórskemmtilegar minningar. Hægt er að sjá fleiri myndir úr dansæfingaferðinni á feisbúkk síðunni Bryn Ballett Akademían. Vorsýning allra nemenda skólans fer fram 21. apríl í Andrews leikhúsinu kl. 14.00 og kl. 16.30. Það eru allir hjartanlega velkomnir. Einnig sýna nemendur BRYN á Ásbrúardeginum og á Barnamenningarhátíð.

Bryndís Einarsdóttir,
skólastjóri Bryn
Ballett Akademíu.