Listdans til stúdentsprófs


Í fyrsta sinn í sögu Suðurnesja er hægt að útskrifast í listdansi af listnámsbraut til stúdentsprófs í námunda við sveitarfélagið sitt. Kennslan á kjörsviði listnámsbrautar fer fram í BRYN Ballett Akademíunni í faglegu samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og við Keili um nemendaráðgjöf. Allar bóklegar greinar eins og t.d. íslenska, stærðfræði og fleiri greinar í kjarna fara fram í FS en hinar verklegu hliðar listdansnámsins í BRYN ásamt listdanssögu. BRYN er listdansskóli Reykjanesbæjar og hefur það að markmiði að veita nemendum sínum þekkingu og sterka undirstöðu í klassískum ballett og nútímalistdansi á heimsvísu. Skólinn er viðurkenndur af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu til kennslu í listdansi á grunn- og framhaldsskólastigi samkvæmt aðalnámskrám listdansskóla og framhaldsskóla í listdansi. BRYN er eini listdansskólinn á landsbyggðinni sem er viðurkenndur til að veita þetta námsframboð, aðeins þrír aðrir listdansskólar á landinu eru viðurkenndir og eru þeir allir í Reykjavík. Heimavist er í boði fyrir nemendur BRYN á framhaldsskólastigi í nágrenni skólans.

INNTÖKUPRÓF 29. APRÍL 2012
Inntökupróf munu fara fram sunnudaginn 29. apríl í BRYN fyrir skólaárið 2012-2013. Framhaldsskólastig 16 ára og eldri kl. 14:00-15:30 og grunnskólastig 12-15 ára kl. 12:00-13:00. Inntökuprófsgjald er kr. 2000 og gengur það upp í skólagjöld. Skráning í prófin er hafin á bryn@bryn.is. Hver sá er hugar að framtíð innan listdansins getur skráð sig í inntökupróf. Æskilegt er að nemendur er hyggja á inntökupróf í listdansnám hafi lokið grunnnámi í listdansi eða sambærilegu námi.

VIÐURKENNT NÁMSFRAMBOÐ
Framhaldsskólastigið skiptist í tvær brautir á kjörsviði, annars vegar sem klassískur listdans og hins vegar sem nútímalistdans. Þegar nemendur þreyta inntökupróf 29. apríl á framhaldsstigi fyrir næsta skólaár þá velja þeir hvora brautina þeir vilja einbeita sér að. Nemendur stunda listdansnámið í allt frá 14-17 tímum á viku í BRYN að loknum námsdegi í sínum framhaldsskóla. Einnig geta nemendur á öðrum kjörsviðum í FS stundað nám í valáföngum í klassískum- og nútímalistdansi eða djass og fengið það nám metið til eininga. Listnámsbraut er þriggja ára námsbraut og með skilgreindu viðbótarnámi má ljúka stúdentsprófi af henni. Með þessu er nemendum veittur kjarngóður grunnur að frekara námi í listdansi, í sérskólum eða skólum á háskólastigi hérlendis sem og erlendis.
Meginmarkmið listdansskólans er að mennta listdansara og efla færni og þekkingu þeirra sem vilja starfa sem atvinnudansari í klassískum- eða nútímalistdansi eða starfa sem danshöfundur, dansfræðingur, rannsakandi á sviði danslista, dansgagnrýnandi, listdanskennari og svo mætti lengi telja. Námið er krefjandi þar sem dansgleði ræður ríkjum og andleg og félagsleg vellíðan blómstrar.

SKÓLINN STÆKKAR
Bryndís Einarsdóttir er eigandi og skólastjóri skólans. Hún hefur kennt dans víða um heim t.d. Ameríku, Englandi og Japan. Hún opnaði listdansskólann í Reykjanesbæ árið 2008 og er hann staðsettur á Ásbrú, í fyrrverandi skotfærageymslu varnarliðsins. Nýverið hefur skólinn stækkað og bætt við sig þriðja danssalnum. Opnunarhátíð til þess að fagna því fer fram föstudaginn 30. mars kl. 16:00 og eru allir velkomnir. Kennslan fer fram í þremur danssölum sem eru með sérútbúnu dansgólfi og dansdúk, ballettstöngum, speglum og hljómflutningstækjum. Í skólanum er búningsaðstaða með sturtum, verslun með dansfatnað, biðstofa, dansbókasafn, æfingastúdíó fyrir styrktaræfingar, skrifstofa, kennara- og starfsmannaaðstaða. Forskóli er starfræktur við skólann fyrir 3-8 ára og einnig almenn braut fyrir þá sem vilja stunda dansnám sem tómstund. Nemendasýningar skólans fara fram á vor- og haustönn og einnig Dansbikar BRYN sem er danskeppni nemenda innan skólans í Andrews leikhúsinu á Ásbrú, sem er 500 sæta leikhús. Þetta árið fer Dansbikarkeppni BRYN fram laugardaginn 24. mars kl. 14:00 og er öllum boðið að koma að sjá hæfileikaríka dansara sýna listir sínar. Miðaverð er kr. 1500 en frítt inn fyrir 12 ára og yngri. Listdansskólinn setur upp fleiri sýningar og listaviðburði sem opnir eru almenningi. Hverja önn stunda hátt í tvö hundruð nemendur nám við skólann. Síðastliðnu þrjú ár hafa nú þegar á milli 350-450 nemendur í allt stundað nám við skólann árlega. Skólinn leggur sérstaka áherslu á að túlka dansinn sem listform og er hlutverk skólans að efla menningu og örva nýsköpun á sínu sérsviði í Reykjanesbæ, á Íslandi og erlendis. Nánari upplýsingar um námsframboð er að finna á www.bryn.is og á feisbúkksíðu skólans Bryn Ballett Akademían.

Bryndís Einarsdóttir, skólastjóri Bryn Ballett Akademíunnar, tók saman.