Líðan og árangur í fyrirrúmi

Saga Myllubakkaskóla eða Barnaskólans í Keflavík, eins og hann hét í mörg ár, nær allt aftur til ársins 1897. Í byrjun var skólahald til húsa að Íshússtíg 3 en var síðan flutt að Skólavegi 1 árið 1911. Skólastarf var flutt í núverandi húsnæði árið 1952 og á síðasta skólaári var 60 ára afmæli skólans fagnað með fjölbreyttum hætti meðal annars með afmælissýningu á sjálfan afmælisdaginn, 17. febrúar. Glæsilegir tónleikar með þátttöku fyrrverandi nemenda og starfsfólks voru haldnir 1. apríl og þóttu takast ákaflega vel. Í dag starfa í skólanum yfir 50 starfsmenn sem hafa að markmiði að búa 300 nemendum sem best félagslegt- og námshvetjandi umhverfi. Starfsfólk skólans gerir sér grein fyrir því að líðan nemenda og námsárangur fara saman, því án annars er erfitt að krefjast hins. PBS atferlisstefnan eða stuðningur við jákvæða hegðun sem byrjað var að innleiða haustið 2007 hefur haft góð áhrif á líðan og hegðun allra í Myllubakkaskóla. Lögð er áhersla á að viðhalda og auka jákvæða hegðun nemenda með kennslu og skemmtilegum viðburðum er tengjast PBS.

Skemmtilegir viðburðir og skólaferðir
Það sem af er skólaárinu hefur starfið litast af skemmtilegum viðburðum, m.a. skólaferðum. Flestir árgangar hafa farið í styttri og lengri náms- og skoðunarferðir og ber þá helst að nefna áhugavert samstarfsverkefni er felst í samskiptum nemenda í 10. bekk við nemendur í Aarup á Fjóni, í Danmörku. Í september fóru flestir nemendur í 10. bekk í vikuheimsókn til Aarup þar sem þeir tóku þátt í skólastarfi og öðrum skemmtilegum viðburðum. Í maí ætla Danirnir að heimsækja okkur og þá munu nemendur og starfsfólk Myllubakkaskóla taka vel á móti þeim og kynna þeim skólann og ýmsar perlur í íslensku umhverfi.

Á Forvarnardaginn þann 31. október síðastliðinn urðum við þeirrar ánægju aðnjótandi að fá forsetahjónin í heimsókn. Nemendur voru prúðbúnir og margir hverjir með íslenska fánann þegar þeir röðuðu sér um ganga skólans. Forsetahjónin gáfu sér tíma til að heilsa öllum og spjalla við þá um eitt og annað. Á sal skólans ávarpaði forsetinn 9. bekkinga og aðra gesti en á meðal þeirra voru forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, bæjarstjóri og fræðslustjóri.

Fastir liðir og þróunarstarf
Í Myllubakkaskóla hefur til margra ára verið starfrækt fjölþjóðadeild sem þjónar nemendum sem eru með íslensku sem annað tungumál. Deildin gegnir því hlutverki að auka skilning og færni nemenda í íslensku máli og stuðla að eðlilegri aðlögun inn í hinar ýmsu námsgreinar. Kennarar þar hafa skilað frábæru starfi undanfarin ár og tryggt nemendum okkar farsæla skólagöngu.
Skólinn hefur haft mjög gott samstarf við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og leikskólana Tjarnarsel og Vesturberg. Samstarfið hefur skilað góðu starfi í báðar áttir og ríkir gagnkvæmur vilji að auka það enn frekar.

Í haust fór af stað þróunarvinna í tengslum við lestrar- og stærðfræðikennslu. Markmiðið með þessari vinnu er að móta heildstæða stefnu með árangursmarkmiðum og tryggja þannig sameiginlega sýn nemenda, foreldra og starfsfólks.  

Góður námsárangur
Starfsfólk Myllubakkaskóla hefur ávallt haft það að leiðarljósi að nemendum líði vel og við erum ánægð þegar hæfileikar sérhvers nemanda fá að njóta sín. Nemendur hafa sýnt góðan námsárangur og stefnan er að auka hann enn frekar.

Undanfarin ár hafa nemendur á unglingastigi staðið sig ákaflega vel í stærðfræðikeppni FS og þar að auki hlotið viðurkenningar fyrir afbragðs árangur í smásögukeppni Félags enskukennara á Íslandi.

Niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum komu nýlega í hús og náðu nemendur Myllubakkaskóla landsmeðaltali í fimm af sjö prófum sem er frábær árangur. Það er ljóst að nemendur, foreldrar og starfsfólk skólans eru að vinna mjög gott starf en það hefur sýnt sig að farsælast er að allir vinni saman.

Skólakveðjur,
Starfsfólk Myllubakkaskóla