Láttu drauminn rætast

Ég man eftir þeirri stundu sem ég ákvað að verða flugmaður eins og hún hafi gerst í gær. Ég hef verið svona 6 ára gamall þegar ég fór í sumarfrí með fjölskyldunni minni til Hollands og flugstjórinn var afabróðir minn. Hann bauð mér að kíkja fram í og það er stund sem ég gleymi aldrei. Allir þessir takkar heilluðu mig og frá þeirri stundu var ekki aftur snúið. Ég var staðráðinn í að verða flugmaður.

Atvinnuflugmannsnám hjá Keili

Árið 2007 rættist svo draumurinn og ég útskrifaðist með einkaflugmannsskírteini sem er fyrsta skrefið í átt að atvinnuflugmannsprófi. Ég hóf svo atvinnuflugmannsnám árið 2009 hjá nýjum flugskóla Keilis og var í hópi þeirra fyrstu sem útskrifuðust úr bóklegu atvinnuflugmannsnámi frá þeim árið 2010. Atvinnuflugmannsnám skiptist í bóklegan og verklegan hluta og er mjög krefjandi og krefst mikils aga og skipulagningar. Bóklegi hlutinn fór fram í fjarnámi og var það í fyrsta skipti sem boðið var upp á það á Íslandi. Fjarnámskerfið er mjög gott, kennararnir reynslumiklir og alltaf tilbúnir til að hjálpa ef nemendur lentu í einhverjum vandræðum með námið.
 
Eftir að ég lauk bóklega hlutanum tók við verklegt atvinnuflugmannsnám og blindflugsréttindi á fjölhreyfla flugvél hjá Keili. Það sem heillaði mig við að taka þann hluta hjá Keili voru splunkunýjar hátækni Diamond flugvélar sem eru með fullkomnustu kennsluvélum í heiminum í dag. Það voru í raun forréttindi að fá að læra á svo góð tæki því reynslan sem ég fékk er heldur betur að reynast mér vel í dag. Keilir gerir út frá Keflavíkurflugvelli sem var önnur ástæða sem heillaði mig. Það var mjög góð reynsla að fljúga frá alþjóðaflugvelli þar sem er mikil þotuumferð og maður þarf að vera á tánum allan tímann.

Aðstæður til flugnáms eru góðar

Skemmtilegasti hlutinn af náminu fannst mér blindflugið. Þau réttindi gera manni kleift að fljúga í lélegu skyggni og inni í skýjum og er í raun mjög öguð leið til að fljúga flugvél. Blindflugsmælitækin í vélum Keilis eru mjög flott og fullkomin sem gerði námið enn skemmtilegra og ýtti enn meira undir áhugann að læra þá list sem blindflug er. Aðstæður á Íslandi til flugnáms eru mjög góðar og oft krefjandi, sérstaklega á veturna, en vélarnar eru vel búnar til þess að takast á við íslensk skilyrði. Partur af náminu er að takast á við erfiðar aðstæður þar sem maður þarf að skipuleggja vel fram í tímann og hugsa um alla þá möguleika sem eru til staðar og vera við öllu viðbúinn. Kennararnir í verklegu deildinni voru frábærir og leiðbeindu mjög vel við allar aðstæður. Aðstaða verklegu deildarinnar er til fyrirmyndar og viðhaldið á vélunum er gott.

Atvinnuflugmaður hjá stóru flugfélagi

Í kjölfar námsferils míns hjá Keili var ég ráðinn sem þjálfunarstjóri í Flugakademíu Keilis. Þar sá ég um skipulagningu verklegu deildarinnar og tók að mér ýmis önnur verkefni innan flugakademíunnar. Sú reynsla sem ég fékk í því starfi á eftir að fylgja mér til æviloka. Það opnuðust fyrir mér ótal víddir. Ég starfaði hjá Keili í tvö ár og ég kynntist fullt af frábæru fólki þar.

Í dag starfa ég sem atvinnuflugmaður hjá stóru flugfélagi í Evrópu og er að fljúga Boeing 737-800. Þessa stundina er ég staðsettur í Svíþjóð og þaðan flýg ég til áfangastaða um nánast alla Evrópu. Það fylgir mikil ábyrgð að fljúga stórri þotu sem tekur um 200 farþega. Öll sú reynsla sem ég fékk í flugnáminu hjá Keili er sannarlega að skila sér núna. Ég hlaut góða þjálfun hjá Keili sem er að reynast mér afar vel í mínu starfi í dag. Ef ekki væri fyrir Keili og það frábæra fólk sem þar er þá væri ég ekki á þeim stað sem ég er á í dag.

Ragnar Magnússon

Flugakademía Keilis býður upp á nám í einkaflugi og atvinnuflugi, auk flugtengdra greina svo sem flugumferðarstjórn og flugþjónustu. Tekið er við umsóknum fyrir vorönn 2013 til 10. desember næstkomandi. Nánari upplýsingar á www.keilir.net/flug


Ein af kennsluvélum Keilis á flugi með Voga og Keili í baksýn.