Kirkjan og börnin

Börnin eru mikilvægustu einstaklingarnir í kirkjunni. Þetta kann að hljóma sjálfgefið en svo hefur ekki alltaf verið. Stundum hefur barnastarf mætt afgangi. Menn hafa litið svo á að kirkjan sé aðeins vettvangur hinna fullorðnu og að börnin eigi að laga sig að siðum þeirra. Á síðustu áratugum hefur barnastarf kirkjunnar færst í aukana og má líkja því við vakningu.


Í Keflavíkurkirkju eru börnin í aðalhlutverki. Við leggjum mikið kapp á að mæta þörfum þeirra. Í því sjáum við bæði mikil tækifæri til þess að tengjast fólki og þar með vaxa. Hitt skiptir meira máli - að barnastarfið er ein af frumskyldum okkar, þótt henni hafi ekki alltaf verið sinnt sem skyldi í gegnum tíðina. Börnin koma oft við sögu í boðskap Jesú Krists. Kristur hampar börnunum hvað eftir annað og ögrar þar þeim hugmyndum sem voru við lýði í umhverfi hans þar sem réttindi barna og barnavernd voru framandleg hugtök. Kristur sá eitthvað stórkostlegt í börnunum. Hann talaði oft um þau, ekki aðeins sem jafngild hinum fullorðnu, heldur jafnvel eitthvað æðra og merkilegra þeim sem slitið höfðu barnskónum.


Þetta er leiðarljósið okkar og barnastarfið í kirkjunni á að bera svipmót þess boðskapar sem kirkjan flytur. Við getum talað þar um „barnasáttmála“ kirkjunnar sem lýtur að þeirri þjónustu sem kirkjan vill veita börnum vítt og breitt um landið. Þar ber m.a. að horfa til þess hlutverks okkar að bjóða upp á æskulýðsstarf án endurgjalds. Þetta skiptir mjög miklu máli, ekki síst á tímum þar sem fjárhagurinn er oft knappur og lítið svigrúm á mörgum heimilum fyrir skipulegt tómstundastarf fyrir yngstu kynslóðina. Þarna hefur kirkjan nokkra sérstöðu.


Þá á uppeldisstefna kristinnar trúar að vera í forgrunni – þar sem ekki er unnið í anda samkeppni og úrvalshyggju eins og víða er, heldur á starfsemin að endurspegla þann skilyrðislausa kærleika sem kirkjan boðar. Þar eru allir jafnir og ekki spurt um frammistöðu þegar kemur að þeirri athygli, þeim tækifærum og þeirri umhyggju sem hver og einn fær. Foreldrar eiga að geta gengið að því sem vísu að börnin njóti sín að verðleikum í starfi kirkjunnar. Þau finna það líka hversu mikilvæg þau eru, um leið og þau mæta í kirkjuna í sunnudagaskólanum. Þau safnast saman í kórnum og syngja lag fyrir framan stóran hóp fólks. Þau ganga í skrúðgöngu saman út úr kirkjunni og sameinast svo hinum messugestum í súpunni að messu lokinni.


Að þessu sögðu er rétt að horfa til þess framboðs sem kirkjan stendur fyrir. Það nær allt frá fæðingu og fram til loka barnæskunnar - eða þegar einstaklingurinn hefur náð átján ára aldri:

Foreldramorgnar eru í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju. Þar koma foreldrar saman (það er gaman fyrir einn og einn pabba að láta sjá sig og breyta þá mömmumorgnum í foreldramorgna!) og miðla hvert öðru af þekkingu og reynslusögum! Börnin leika sér eftir því sem þau hafa þroska til og stundum koma fyrirlesarar með fróðlegt efni fyrir þau sem ala upp börnin.


Sunnudagaskólinn er jafnan fjölsóttur þar sem foreldrar, frændfólk eða afar og ömmur mæta með krílin og njóta samfélagsins. Börnin koma fram í upphafi messunnar og fólk skyldi gefa því gaum hversu þýðingarmikið það er að öðlast slíka reynslu. Boðið er upp á veitingar að samveru lokinni, bæði fyrir sunndagaskólann og foreldramorgna.


Æskulýðshóparnir eru aldursskiptir og fara fram í samstarfi við KFUM og KFUK. Þar stíga margir sín fyrstu skref sem leiðtogar, læra að taka ábyrgð og að starfa í hóp. Seint verður gert of mikið úr þeim félagsþroska sem börnin fá til viðbótar við hina dýrmætu næringu sem orð Guðs er fyrir þá sem eru á fyrstu metrunum í lífsgöngunni.


Fermingarfræðslan er viðburðarrík enda er fermingin stórmál. Í fræðslunni blandast saman skemmtun og fræðsla, ferðalög, söngur og þátttaka í því samfélagi sem kirkjan er. Sjálf fermingin er ein stærsta hátíðin í kirkjunni og enginn kemst óhrærður frá því að taka þátt í slíkum atburði með þessum efnilegu unglingum.


Farskóli þjóðkirkjunnar er leiðtoganám sem ætlað er þeim sem hafa verið virk í starfi kirkjunnar og eru tilbúin að verða leiðtogar í ungmennastarfi. Námið er fjölbreytt og að því loknu útskrifast ungmennin með réttindi til þess að leiða hópastarf innan kirkjunnar.


Lífsleikni í FS - Keflavíkurkirkja stendur fyrir lífsleiknikennslu í FS þar sem rætt er um líf og dauða, sorg og gleði og mikilvægar ákvarðanir á lífsins leið.
Gospelkór í FS - Söfnuðirnir á Suðurnesjum standa í sameiningu fyrir gospelkórstarfi fyrir nemendur í FS.


Energí og trú - er verkefni sem Keflavíkurkirkja stendur fyrir og miðar að því að efla og vekja ungt fólk með námskeiðum, ferðalögum og ýmsum viðburðum. Verkefnið hefur farið vel af stað og mætir það brýnni þörf. Þátttakendur læra mikilvæga lífslexíu og takast á við margvísleg verkefni sem tengjast því að vera sjálfstæð og ábyrg manneskja.
Fjölmargir koma að barna- og æskulýðsstarfinu á vegum Keflavíkurkirkju, bæði prestar, starfsfólk og sjálfboðaliðar. Innan kirkjunnar starfar s.k. æskulýðsnefnd sem er rýnihópur og hugmyndaveita fyrir æskulýðsstarfið. Fjölmargt hefur komið út úr starfi hópsins og er fólki velkomið að taka þátt í því hópastarfi ef það vill leggja sitt af mörkum til æskulýðsstarfsins í kirkjunni.


Barnið er í aðalhlutverki í fagnaðarerindi Biblíunnar og það á að endurspeglast í safnaðarstarfinu. Barnið er, þegar allt kemur til alls sá spegill sem segir okkur sannleikann um okkur sjálf: verk okkar og gildismat. Ekkert veitir því betri innsýn í gæði kirkjustarfs en nálgunin við börnin okkar. Við í Keflavíkurkirkju stefnum að því að halda áfram á þessari braut og leggjum okkur fram um að bæta okkur í hverju skrefi.


Skúli S. Ólafsson
Sóknarprestur í Keflavíkurkirkju
vs. 420 4301 gsm. 846 6714
www.keflavikurkirkja.is