Jákvæð viðhorf á Suðurnesjum

Í framhaldi af mjög vel heppnaðri starfskynningu fyrir grunnskólanemendur sem haldin var í Stapa í síðustu viku langar okkur að kynna fyrir ykkur niðurstöður könnunar sem framkvæmd var í tengslum við átaksverkefni um eflingu menntunar á Suðurnesjum. Í henni voru viðhorf Suðurnesjamanna til menntunar könnuð. Spurt var um menntunarstig, stöðu og möguleika á vinnumarkaði, áhuga á auknu námi og viðhorf til menntunar. Könnunin var gerð af Capacent Gallup í október síðastliðnum og send í tölvupósti til 869 einstaklinga sem dreifðust á öll sveitarfélögin á Suðurnesjum. Af þeim svöruðu 527 manns könnuninni svo svarhlutfall var 60,6% sem þykir ásættanlegt.

Niðurstöðurnar sýna svo ekki verður um villst að viðhorf Suðurnesjamanna til menntunar er mjög jákvætt, en alls voru átta spurningar í könnuninni sem beindust að þessum þætti. Langstærstur hluti þeirra sem tóku þátt telja að börn þeirra muni afla sér meiri eða svipaðrar menntunar en þeir sjálfir, eða 97,5% hópsins og sama hlutfall hvetur börn og ungmenni í kringum sig til að mennta sig. Þessar niðurstöður lýsa að okkar mati jákvæðu viðhorfi til menntunar.

Séu niðurstöður spurningarinnar: Telur þú að barnið þitt / börnin þín muni afla sér meiri, svipaðrar eða minni menntunar en þú sjálf/ur? skoðaðar með tilliti til menntunar þátttakenda kemur í ljós að nánast allir þeir foreldrar sem eru með grunnskólapróf eða minna telja að börnin þeirra muni afla sér meiri menntunar en þeir. Það sama á við um þá atvinnuleitendur sem tóku þátt. Flestir þeirra sem telja að börnin muni afla sér minni menntunar en þeir, eru einstaklingar sem lokið hafa framhaldsprófi í háskóla.


Niðurstöðurnar má sjá á Mynd 1.


Segja má að allir þeir sem tóku þátt í könnuninni telja menntun af hinu góða, það er að segja að 99,1% þátttakenda voru fullkomlega, mjög eða frekar sammála fullyrðingunni: Menntun er af hinu góða.


Þetta má sjá á Mynd 2.


Þegar spurt var hvort þátttakendur hefðu viljað eyða meiri tíma í skóla í gegnum tíðina reyndust 73,7% fullkomlega, mjög eða frekar sammála því. Svör þátttakenda eru í beinu samhengi við menntunarstig þeirra þannig að stór hluti þeirra sem eru með grunnskólapróf eða minna vildu að þeir hefðu eytt meiri tíma í skóla en innan við helmingur þeirra sem eru með framhaldspróf í háskóla. Ef niðurstöðurnar eru skoðaðar með tilliti til stöðu á vinnumarkaði kemur í ljós að atvinnulausir, öryrkjar og eftirlaunaþegar vildu að þeir hefðu eytt meiri tíma í skóla, umfram aðra hópa.

Af þeim sem svöruðu könnuninni eru 23,1% í námi. Yfir helmingur þátttakenda hafa auk þess mjög eða frekar mikinn áhuga á að auka við menntun sína, eða ríflega sex af hverjum tíu. Þeir sem hafa mestan áhuga á að auka við menntun sína telja frekar að meiri menntun geti aukið atvinnutækifæri og tekjur. Þeir sem hafa minni áhuga á aukinni menntun telja hana síður hafa jákvæð áhrif á atvinnutækifæri og tekjur.


Aðeins 12,7% höfðu frekar eða mjög lítinn áhuga á að sækja sér viðbótarmenntun eins og sést á Mynd 3.


Rúmlega helmingur þátttakenda telur að viðbótarmenntun auki atvinnutækifæri og tekjur talsvert eða nokkuð. Ef þessar niðurstöður eru skoðaðar með tilliti til stöðu á vinnumarkaði eru það atvinnulausir, fyrir utan einstaklinga í námi, sem telja viðbótarmenntun hafa mest áhrif á tekjur og atvinnutækifæri. Þeir eru þó á sama tíma í hópi þeirra sem leita síður í námskeið og símenntun. Yfir helmingur þátttakenda er fullkomlega, mjög eða frekar sammála því að þeir leiti að tækifærum til að sækja námskeið og símenntun, eða 60,4%. Fólk sækir sér frekar símenntun til að halda við og auka færni í starfi eftir því sem menntun þeirra er meiri. Konur sækja einnig frekar í námskeið og símenntun en karlar.

Í könnuninni var spurt um námstækifæri á svæðinu og telja um 45% þátttakenda þau vera mjög eða frekar lítil. Þeir sem hafa minni menntun telja námstækifærin frekar vera góð heldur en þeir sem eru með meiri menntun.

Niðurstöður þessarar spurningar má sjá á Mynd 4.


Fólki gafst kostur á að skrifa hvers konar nám því finnst helst vanta hér á Suðurnesjum og nefndu flestir háskólanám og fjölbreyttara iðnnám.

Fjölbreytni í námsframboði á Suðurnesjum hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum og er það trú okkar að svo verði áfram þar sem öflugt þróunarstarf á nýjum námsúrræðum á sér stað í skólunum á svæðinu. Við vonumst til þess að geta aukið enn á þróunarstarfið, og nauðsynlega greiningarvinnu í kringum það, í vinnu okkar við þróunarverkefni um eflingu menntunar á Suðurnesjum. Þau jákvæðu viðhorf Suðurnesjamanna til menntunar sem niðurstöður þessarar könnunar sýna endurspegla vonandi líka aukna jákvæðni og meira sjálfstraust í samfélaginu okkar almennt. Það virtist ekki annað að sjá á ungmennum héðan af svæðinu, á starfskynningunni í síðustu viku, en að þau líti björtum augum til framtíðarinnar. Við gerum það líka.

Hanna María Kristjánsdóttir og Rúnar Árnason
Verkefnisstjórar um eflingu menntunar á Suðurnesjum


(Fyrir mistök við uppsetningu á Víkurfréttum í dag þá birtust myndir 3 og 4 ekki í blaðinu í dag en þær eru hér með þessari grein)