Góð skólabyrjun

Nú er skólastarf hafið á nýju skólaári og er ekki hægt að segja annað en að skólabyrjunin hafi gengið vel. Það er gaman að sjá hve tilbúin börnin eru að hefja skólaárið og foreldrar hafa sem fyrr sýnt í verki að þeir hafa áhuga á skólagöngu barna sinna. Mæting þeirra þegar skólinn er settur er mikil og gefur það okkur sem í skólanum störfum aukinn kraft að sjá samstöðuna sem er að skapast í skólasamfélaginu okkar.

Upphaf skólastarfsins krefst mikillar vinnu ef vel á að vera. Því betur sem skólastarfið er skipulagt og undirbúið því meiri von er á árangursríkum skólavetri. Kennarar og aðrir starfsmenn hefja undirbúning í skólanum 15. ágúst en þá þegar eru margir búnir að vera á námskeiðum eða málþingum um skólastarf. Nemendur komu svo í skólann 22. ágúst.

Vegna góðs undirbúnings starfsfólks og þess hve tilbúnir nemendur voru að hefja skólastarfið fór það mjög vel af stað. Það hve tilbúnir nemendur voru stafar sennilega að miklu leyti af jákvæðu viðhorfi foreldra, viðhorf og áhugi foreldra hefur mjög mótandi áhrif á börnin.

Nú hefur skapast sú hefð að fyrsta skóladaginn fer fram æfing í öllum skólanum í PBS. Það er eins og margir vita stuðningur við jákvæða hegðun og hefur það mikil áhrif á að skapa þann jákvæða anda sem er svo mikilvægur í skólastarfinu. Þriðjudaginn 4. september fóru svo allir kennarar í Holtaskóla, Myllubakkaskóla og Njarðvíkurskóla (en þessir skólar eru allir með PBS) á fyrirlestur um bekkjastjórnun í anda PBS.

Fastur hluti af skólaupphafi í Reykjanesbæ er þátttaka í setningu Ljósanætur. Þá mæta nánast öll börn í bæjarfélaginu við Myllubakkaskóla og þar fer fram stutt setningarathöfn. Þessi atburður heppnaðist sérstaklega vel í ár enda komin reynsla á framkvæmdina. Í ár var tekin upp sú nýbreytni að tvö börn úr hverjum skóla mynduðu lítinn kór sem leiddi fjöldasönginn en hefð er að syngja Ljósanæturlagið og Meistara Jakob á nokkrum tungumálum.

Haustið er tími mikilla fundarhalda í skólum. Það er mikilvægt því við öll sem skólasamfélaginu tilheyrum þurfum að vita hvað er framundan og til hvers er ætlast af okkur. Í Holtaskóla hefur samskiptadagur nú þegar farið fram. Á þeim degi koma foreldrar með börnum sínum í viðtöl við kennara og þá settu m.a. margir nemendur sér markmið til að vinna að í vetur. Nú í vikunni voru svo sérstakir kvöldfundir með foreldrum hvers árgangs. Þessir fundir hafa verið haldnir undanfarin ár og verið vel sóttir af foreldrum. Þessir fundir eru mikilvægir til að allir aðilar geti stillt saman strengi sína strax í upphafi skólaársins. Innan skamms verður svo námskeið fyrir foreldra nemenda í 1. bekk þar sem farið verður yfir það hvernig foreldrar geta sem best staðið að lestrarþjálfun barna sinna heima, en við teljum nauðsynlegt að nemendur fái góðan stuðning við lestrarnámið strax í upphafi. Í þeim tilvikum þar sem erfitt er að veita þennan stuðning heima munum við halda áfram að njóta stuðnings frá „Lestrarömmum“ en sú nýbreytni hófst í fyrra og gaf mjög góðan árangur.

Í næstu viku verða svo samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði í 4., 7. og 10. bekk auk ensku í 10. bekk.

Árangur okkar hér á Suðurnesjum hefur oft verið mun lakari en við hefðum viljað sjá. Allir skólar eiga dæmi um góðan árangur en stöðugleiki hefur ekki verið mikill nema í einum skóla, Heiðarskóla, sem hefur staðið upp úr hér á þessu svæði.

Glögg merki eru þó farin að sjást um bættan árangur á fleiri stöðum. Af sjö könnunum eru t.d. nemendur Holtaskóla yfir meðaltali í fjórum og í tveimur könnunum eru nemendur í Reykjanesbæ þ.e. meðaltal allra skólanna í bænum komið yfir landsmeðaltal. Þetta er góður árangur og greinilegt að sóknarhugur er í fólki.

Við sjáum á þessu að það er hægt að bæta árangurinn en svona árangur næst ekki nema allir, nemendur, kennarar og starfsfólk skóla og ekki síst foreldrar taki höndum saman.  

Afmælisár
Gagnfræðaskólinn í Keflavík var fyrst settur í október 1952. Nú eru því liðin 60 ár frá upphafi skólans. Þeir eru ófáir íbúarnir sem hafa stundað nám í þessum skóla sem fékk nafnið Holtaskóli árið 1982 þ.e. fyrir 30 árum. Allt til ársins 1999 voru einungis eldri bekkir grunnskólans í skólanum en skólaárið 1999-2000 hafa allir árgangar grunnskólans stundað nám við skólann. Þessi tímamót munu á margvíslegan hátt setja svip sinn á skólastarfið í vetur.

Að lokum vonumst við til að skólaárið 2012-2013 verði gleðilegt og árangursríkt. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra sem hér búum að skólastarf gangi sem best.