FS-Skemmtilegri skóli – Þróunarverkefni 2011-2013

Haustið 2011 var farið af stað með þróunarverkefnið FS-Skemmtilegri skóli og stendur það til vorsins 2013. Styrkur fékkst úr Sprotasjóði til að fjármagna verkefnið að hluta og var Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, fenginn til ráðgjafar við verkefnið. Ráðinn var verkefnisstjóri og sér hann ásamt stýrihópi kennara um verkefnið.
Meginmarkmið verkefnisins er að auka faglega umræðu, stuðla að fjölbreyttum kennsluaðferðum innan skólans og síðast en ekki síst að veita fólki ákveðna umgjörð til að vinna að sínum þróunarverkefnum.
Haldin hafa verið erindi um ýmis málefni sem tengjast skólastarfi með það fyrir augum að kynna fyrir kennurum ýmis sóknarfæri í kennslu. Sem dæmi má nefna:

Gerð kennsluáætlana – Hvað skiptir máli?
Notkun hugarkorta í námi og kennslu
Að meta á marga vegu – Námsmat
Notkun Facebook í kennslu
Munnleg tjáning nemenda

Kallað var eftir áhugasömum kennurum til að taka þátt í skólaþróunarverkefnum og hittist sá hópur með reglulegu millibili til skrafs og ráðagerða. Kennarar höfðu frjálst val um hvaða viðfangsefni þeir tækju fyrir. Haldið var opið málþing síðastliðið vor þar sem þróunarverkefnin voru kynnt og  ætlunin er að endurtaka leikinn nú í vor. Hér eru nokkur dæmi um verkefni sem unnið hefur verið að eða eru í vinnslu:

Sjálfs- og jafningjamat í hárgreiðslu
Vendikennsla (Flipped learning)
Umræður í tímum
Tilfærsluáætlun – (Grunnskóli – Starfsbraut FS)
Notkun á Facebook í kennslu
Notkun einkunnaramma í námsmati (Rubric)

Sjónvarpsþátturinn Landinn kom í heimsókn síðastliðið haust og fjallaði um vélherma sem Ívar Valbergsson vélstjórnarkennari notar í sinni vélstjórnarkennslu sem og kennsluaðferðina Vendikennslu (flipped learning). Vendikennsla byggir á því að stuttir fyrirlestar eru teknir upp og settir á netið. Nemendur horfa svo á fyrirlestrana fyrir tíma og vinna verkefni upp úr þeim í kennslustundum. Var umfjöllun Landans góð kynning á því sem Ívar er að gera með sínum nemendum og því þróunarstarfi sem er unnið hér í skólanum. Við höfum hug á því að þróa kennsluaðferðina Vendikennslu enn frekar í samstarfi við framhaldsskóla í Svíþjóð næsta vetur og vonandi með fleiri skólum hér á svæðinu.
Það er okkar mat að vel hafi tekist til í þróunarverkefninu. Mun meiri fagleg umræða hefur verið meðal kennara en áður. Við teljum nauðsynlegt fyrir kennara að hafa þá umgjörð sem svona skólaþróunarverkefni veitir. Í slíkum verkefnum fá kennarar tækifæri til að tvinna nýjustu stefnur og strauma í kennslufræðum  og menntarannsóknum saman við vettvanginn. Þeir fá tíma til að hittast, bera saman bækur sínar og ræða verkefni sín. Hugmyndir fæðast á slíkum fundum og einhverjir ákveða að láta slag standa og prófa að framkvæma hluti í kennslunni.  Kennarar, sér í lagi sérhæfðir faggreinakennarar,  vinna mikið einir og því skapar verkefni sem þetta gott tækifæri til að rjúfa þá einangrun. Það er okkar trú að svona verkefni geri okkar störf faglegri og gefi möguleika á að sækja fram í kennslu og skólastarfi.
Við viljum að sjálfsögðu deila með ykkur reynslu okkar úr verkefninu. Á síðunni http://www.fss.is/skolinn/trounarverkefni/ er að finna ýmis gögn sem tengjast þróunarverkefninu sem ef til vill geta nýst einhverjum.

Guðmundur Grétar Karlsson,
verkefnisstjóri