Fréttir úr skólastarfi í Vogum

Tónlistarskólinn
Haustið 2010 urðu tímamót í sögu sveitarfélagsins því þá var stofnaður Tónlistarskóli Sveitarfélagsins Voga. Skólinn er starfræktur innan veggja Stóru-Vogaskóla. Einn tónlistarkennari kennir við skólann, Laufey Waage og eru 8 píanónemendur í námi hjá henni, en auk þess kennir hún tónmennt á yngsta stigi. Það er óhætt að segja að mikil ánægja sé með þessa viðbótarþjónustu við börn í sveitarfélaginu, sem fram að þessu þurftu að sækja sitt tónlistarnám í önnur sveitarfélög. Stefnt er að því að stækka tónlistarskólann og bæta við hljóðfærum.

PALS
Í haust fengum við námskeið í PALS, amerískri kennsluaðferð, en íslensk þýðing á skammstöfuninni er Pör að lesa saman. Í orðanna hljóðan felst einmitt það sem þessi kennsluaðferð gengur út á. Hún byggir upp færni nemenda í lestri og lesskilningi með æfingum sem þeir vinna þrisvar í viku og hentar bæði nemendum sem eiga auðvelt með lestur og þeim sem eiga í einhverjum erfiðleikum. Rannsóknir sýna að þátttaka í PALS hefur einnig styrkt nemendur með fatlanir og þá sem læra ensku sem annað tungumál. Kennarinn fylgist svo með, leiðbeinir og aðstoðar.

Lýðræði er leikur einn
Í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 segir að einn af sex grunnþáttum menntunar sem eigi að vera leiðarljós við námskrárgerðina sé lýðræði og mannréttindi. Það var því ánægjulegt að frétta að verkefnið ,,Lýðræði er leikur einn“ fékk styrk úr Sprotasjóði grunnskóla sl. vor. Verkefninu stýrir Guðrún Snorradóttir, fyrrverandi skólastjóri Myllubakkaskóla. Þrír grunnskólar vinna saman að verkefninu en það eru Grunnskólinn í Sandgerði, Grunnskólinn í Grundarfirði og Stóru-Vogaskóli. Samstarfsaðilar eru UMFÍ, Unicef og umboðsmaður barna.

Markmiðið er að þjálfa nemendur, kennara og foreldra í lýðræðislegum vinnubrögðum og mannréttindum í samræmi við aðalnámskrána en þar segir m.a. um lýðræði og mannréttindi:

„Í lýðræði taka einstaklingar afstöðu til siðferðilegra álitamála og virkan þátt í mótun samfélagsins. Í lýðræðisríki þurfa borgararnir að búa við mannréttindi og ráða öllum meiriháttar málum sínum sameiginlega. Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær. Virðing fyrir manngildi og heilbrigði barna og ungmenna felur bæði í sér virðingu fyrir mannréttindum þeirra og viðurkenningu á hæfileikum þeirra og þroskamöguleikum. Viðhorf, gildismat og siðferði eru ríkir þættir í lýðræðismenntun jafnframt því sem þau atriði fléttast saman við aðra grunnþætti menntunar. Skólum ber að rækta það viðhorf að samfélagið eigi að vera lýðræðislegt og einstaklingarnir gagnrýnir og með framtíðarsýn.
Lýðræði er mikilvægt á vettvangi skólans. Í fyrsta lagi þurfa skólar að taka mið af því að barna og ungmenna bíður að taka þátt í lýðræðissamfélagi og því er mikilvægt að börn læri um þess háttar samfélög. Í öðru lagi þurfa skólar að taka mið af því í öllum starfsháttum að borin sé virðing fyrir manngildi hvers og eins. Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði. Mikilvægt er að í öllu námi, viðfangsefnum skólastarfsins og aðferðum sé tekið tillit til áhuga nemenda og ábyrgðar þeirra á eigin námi. Einnig þarf að efla þekkingu á grundvallarréttindum barna og fullorðinna með hliðsjón af íslenskri löggjöf og alþjóðasamningum. Samfélagsgreinar og lífsleikni eru kjölfesta þekkingar á lýðræði og mannréttindum og viðhorfa til sömu þátta. Lýðræðislegur hugsunarháttur á þó við í öllum námsgreinum. Lýðræðislegt gildismat verður ekki mótað nema allar námsgreinar og öll námssvið séu notuð til þess. Umhyggja fyrir fólki, dýrum og umhverfi er einnig hluti lýðræðismenntunar og á heima í öllum námsgreinum.“

Siðfræði og heimspeki
Þetta er þriðja skólaárið sem við kennum siðfræði og heimspeki á unglingastigi sem sérstakt fag. Markmiðið er að nemendur velti fyrir sér siðum og reglum í dagsins önn, eflist í málfærni, ritleikni og rökvísi, velti fyrir sér siðferðilegum álitamálum, eflist í málþroska, hugsunarþroska og félagsþroska og skoði átakamál samtímans og velti fyrir sér. Að auki er nemendum kynnt heimspekin sem fræðigrein, þjálfuð í rökræðum og að beita gagnrýnni hugsun.

140 ára afmæli
Eins og kemur fram annars staðar í Víkurfréttum héldum við upp á 140 ára afmæli skólans þann 18. október sl. Var það vel heppnuð afmælishátíð að viðstöddu miklu fjölmenni.
Skólanum barst fjöldi gjafa, blóma og heillaóska og þakka ég viðkomandi kærlega fyrir. Þakka jafnframt öllum sem komu og gerðu daginn ógleymanlegan.

Svava Bogadóttir
skólastjóri tók saman.