Fleira er nám en grúsk í skruddu - Nám á safni

Tækifæri fyrir unga sem aldna hér í bæ til að efla þekkingu sína eru fjölmörg. Mikið framboð er af alls kyns námsleiðum sem mætt hafa ólíkum þörfum og aðstæðum fólks svo um munar. Ef betur er að gáð má þó víðar finna vettvang til náms sem stendur öllum opinn, nefnilega á söfnum.


Fjölbreytt safna- og sýningastarf er rekið á vegum Reykjanesbæjar; bókasafn, byggðasafn, listasafn auk Bátaflota Gríms Karlssonar og Víkingaheima. Á safni opnast fyrir nýjan þátt í námi, upplifunarþáttinn, sem er svo skemmtilegur. Það sér hver í hendi sér muninn á því að standa andspænis nákvæmri eftirlíkingu af víkingaskipi eða lesa um það í skólabók og reyna að gera sér það í hugarlund.
Söfnin eru meðvituð um mikilvægi sitt þegar kemur að fræðslu. Þar er vel tekið á móti öllum skólahópum með leiðsögn um sýningarnar sé þess óskað.


Í Duushúsum eru, auk báta Gríms, sýningar á vegum Byggðasafns og Listasafns. Á sýningum Byggðasafnsins er ljósi varpað á þætti í sögu svæðisins sem geta svo sannarlega bætt miklu við það nám sem fram fer í skólunum.  Nú er þar m.a. ný sýning sem ber heitið Vertíð – þyrping verður að þorpi, þar sem áhersla er lögð á 19. öldina þegar grunnur var lagður að þeim samfélögum sem við þekkjum í dag.
Í sýningarsal Listasafnsins eru settar upp 6 nýjar sýningar á ári. Ein þeirra er hugsuð sérstaklega með þarfir nemenda í huga og á það einmitt við um yfirstandandi sýningu, samsýninguna Lög unga fólksins. Við upphaf allra sýninga eru send bréf í skóla á Suðurnesjum og þeir hvattir til að koma í heimsókn þar sem safnkennari tekur á móti þeim. Árið 2012 komu á annað þúsund nemendur í heimsókn í Duushús af öllum skólastigum. Þar fyrir utan komu 2.500 börn í húsin í tengslum við Listahátíð barna.
Í Víkingaheimum eru ómetanleg tækifæri til að fræðast um ýmsa þætti úr sögu Víkinganna, ekki síst skipasmíðanna og siglinganna. Þá er þar einnig sýning um norræna goðafræði og síðast en ekki síst raunverulegar fornleifar af Suðurnesjum sem svo sannarlega auka við þekkingu okkar á heimahögum. Það sama má segja um Stekkjarkot á Fitjum, endurgerðan torfbæ, sem segir meira en mörg orð um heimili fyrri tíma.


Fræðsla er einnig ríkur þáttur í starfsemi Bókasafnsins. Upplýsingaþjónustan aðstoðar viðskiptavini við upplýsinga- og heimildarleitir og býður jafnframt upp á kennslu í upplýsingalæsi. Öllum er þjónað hvort sem er vegna starfs, náms eða áhugamála. Vefur Bókasafnsins er mikil fróðleiksnáma um starfsemi safnsins, bækur og lestur fyrir alla aldurshópa, ásamt fróðlegum tenglum. Einn af föstu dagskrárliðum safnsins eru heimsóknir leik- og grunnskólabarna og ýmissa hópa sem óska eftir að fá að koma, kynnast safninu og þjónustu þess til yndis og fræðslu.


Fjölmörg tækifæri eru því til aukinnar menntunar á ýmsum sviðum utan skólastofunnar, þar sem aðal áherslan er á upplifun. Með bættum og fríum strætósamgöngum hefur aðgengi skólanna að söfnunum batnað enn og því fátt því til fyrirstöðu að rúlla af stað með nemendur á vit ævintýranna.